Gunnar Örn Arnarsson skrifar frá Ólafsvík
Víkingur Ólafsvík 1 - 1 BÍ/Bolungarvík
1-0 Tomasz Luba ('32)
1-1 Gunnar Már Elíasson ('54)
1-0 Tomasz Luba ('32)
1-1 Gunnar Már Elíasson ('54)
Það var sannkallaður toppslagur á Ólafsvíkurvelli í kvöld þegar heimamenn í Víking sem sitja á toppi 2. deildar tóku á móti BÍ/Bolungarvík sem var í öðru sæti. Úrvals knattspyrnuveður var í Ólafsvík og völlurinn skartaði sínu fegursta.
Það verður þó seint sagt að leikurinn hafi verið mikil skemmtun fyrir áhorfendur en fyrri hálfleikur var þó skárri en sá síðari. Fyrri hálfleikur fór rólega af stað en heimamenn pressuðu ofarlega á vellinum á meðan gestirnir freistuðu þess að beita skyndisóknum. Hættulegustu færi beggja liða komu upp úr föstum leikatriðum en þannig kom einmitt fyrsta mark leiksins.
Á 31. mínútu leiksins braut fyrrum Víkingurinn Dalibor Nedic á Edin Beslija rétt fyrir utan vítateigshorn gestanna. Edin tók spyrnuna sjálfur og læddi boltanum á Tomasz Luba sem var einn á auðum sjó og setti boltann snyrtilega framhjá Róberti Óskarssyni í marki BÍ/Bolungarvík.
Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks fyrir utan nokkur hálffæri af hálfu beggja liða og 1-0 forysta heimamanna í hálfleik verðskulduð.
Seinni hálfleikur fór rólega af stað líkt og sá fyrri. Á 51. Mínútu átti Edin Beslija hörku skot að marki sem Róbert í marki BÍ/Bolungarvíkur varði vel. Róbert var fljótur að koma boltanum í leik og gestirnir brunuðu í sókn. Víkingum mistókst í tvígang að brjóta sóknina á bak aftur og að lokum barst boltinn til Gunnars Elíassonar sem var einn á auðum sjó og afgreiddi boltann snyrtilega framhjá Einari í markinu hjá Víking.
Eftir markið hresstust Vestfirðingarnir enn meira og voru nálægt því að komast yfir á 54. mínútu en Einar var vel á verði í markinu og varði af stuttu færi. Boltinn barst út í teiginn eftir fyrirgjöf frá markaskorara gestanna en sóknarmönnum BÍ/Bolungarvík tókst ekki að koma boltanum framhjá Einari í markinu.
Líkt og í fyrri hálfleik einkenndist sá seinni á mikilli baráttu beggja liða en þegar líða tók á leikinn var sem bæði lið væru sátt með 1 stig. Liðin voru ekki tilbúin að taka þá áhættu sem þurfti til að landa stigunum þremur og voru Víkingar orðnir mjög þreyttir undir lokin og ljóst að bikar-leikurinn gegn Stjörnunni var farinn að segja til sín.
Leiknum lauk því með jafntefli tveggja efstu liða deildarinnar og staðan á toppnum því óbreytt. Víkingar fara í 27 stig á meðan gestirnir frá Vestfjörðum fara í 23.