Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 25. júlí 2010 14:29
Fótbolti.net
Umfjöllun: BÍ/Bolungarvík fékk þrjú mikilvæg stig í toppbaráttunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KV 0-1 BÍ/Bolungarvík:
0-1 Óttar Kristinn Bjarnason ('45)

Það var margt um manninn í Vesturbænum í gær þegar KV tók á móti BÍ/Bolungarvík. Vestfirðingar voru í harðri baráttu við Víking og Hvöt á toppi deildarinnar en heimamönnum nægði ekkert annað en sigur, enda í slæmri stöðu á óæðri enda töflunnar.

Leikurinn hófst nokkuð rólega og liðin þreifuðu hvort á öðru. Gestunum tókst betur að halda boltanum og komust fljótlega á lagið með að senda boltann inn fyrir flata vörn KV en gátu ekki nýtt sér nokkur hálffæri sem sköpuðust með þeim hætti. Það voru þó Vesturbæingar sem áttu hættulegustu færi hálfleiksins, næst komst Björn Ívar Björnsson því að skora með skoti í stöng á 40. mínútu.

Eina mark leiksins leit dagsins ljós eftir langan uppbótartíma í fyrir hálfleik og var það af dýrari gerðinni, sennilega með fallegri mörkum sumarsins. Vestfirðingar höfðu haldið boltanum í fleiri mínútur og sent hann á milli sín án teljandi ógnunar við mark andstæðinganna.

Heimamenn hrópuðu mikið á að löngu ætti að hafa verið flautað til hálfleiks en Sigurhjörtur Snorrason dómari leiksins ætlaði sér greinilega að bíða eftir því að boltinn færi úr leik. Eftir nett spil í óratíma var boltanum vippað inn fyrir vörnina af vítateig á Óttar Kristinn Bjarnason sem lagði boltann snyrtilega yfir Daníel Kristinsson í markinu. Stórglæsilegt mark eins og áður segir og gestirnir fóru því marki yfir inn í klefa í hálfleik.

Síðari hálfleikur var nokkuð fjörugri og fengu bæði lið úrvals færi. Ólafur Már Ólafsson skaut í stöng gestanna úr þröngu færi sem svörðu með skot í slá. Pétur Geir Svavarsson fékk galopið marktækifæri á 72. mínútu en skaut langt fram hjá. Róbert Örn Óskarsson varð svo á 85. hetja gestanna þegar hann varði glæsilega frá Hreini Bergs sem hafði spólað sig inn fyrir vörnina. Róbert var farinn í rangt horn en rak út löppina og varði vel.

Þegar þrjár mínútur lifðu af leiknum hafði Egill Ólafsson, varnartröll KV, troðið sér inn fyrir vörn Vestfirðinga og var kominn einn á móti markmanni. Rangstaða var þó flögguð á annan leikmann sem hafði ekki áhrif á sóknina en Egill getur þó huggað sig við að hann virtist ekki ýkja líklegur til að smyrja boltann í hornið.

Á lokamínútu leiksins fengu Vesturbæingar svo síðasta tækifærið til að bjarga stigi en Snorri Sigurðsson hitti boltann illa af markteig og Róbert átti í litlum erfiðleikum með að verja.

Með sigrinum heldur BÍ/Bolungarvík fimm stiga forskoti á Hvöt í baráttunni um sæti í 1. deild að ári.
banner
banner