Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 28. júlí 2010 23:44
Alexander Freyr Tamimi
Umfjöllun: Víkingur Ólafsvík féll úr bikarnum með sóma
Gunnar Már Guðmundsson kom FH yfir í fyrri hálfleik.
Gunnar Már Guðmundsson kom FH yfir í fyrri hálfleik.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Ólafsvíkingar mættu gríðarlega vel á völlinn og létu vel í sér heyra.
Ólafsvíkingar mættu gríðarlega vel á völlinn og létu vel í sér heyra.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
FH 3 - 1 Víkingur Ólafsvík
1-0 Gunnar Már Guðmundsson ('40)
1-1 Tommy Nielsen ('42, sjálfsmark)
2-1 Atli Viðar Björnsson ('57)
3-1 Matthías Vilhjálmsson ('70)

Það var svo sannarlega engin skömm í spilamennsku Víkings Ólafsvíkur sem féll út úr keppni í undanúrslitum VISA bikarsins gegn FH í kvöld. FH-ingar báru 3-1 sigur úr bítum í hörkuleik þessara liða í Kaplakrika og munu þeir mæta annað hvort KR eða Fram í úrslitaleiknum.

Víkingarnir mættu ákveðnir til leiks og ætluðu augljóslega ekki að bera neina virðingu fyrir núverandi Íslandsmeisturum. Þeir fengu ágætis sókn strax í byrjun leiks og voru mjög líflegir. FH-ingarnir héldu boltanum einnig ágætlega en voru þó ekki að skapa sér nein góð færi og voru það gestirnir frá Ólafsvík sem áttu fyrsta dauðafæri leiksins.

Það kom á 13. mínútu eftir innkast frá hægri en boltinn barst þá til Artjoms Gonjcars inni í vítateig en varnarmaður FH náði að kasta sér fyrir skot hans. Ef skot hans hefði náð framhjá varnarmanninum hefði boltinn sjálfsagt sungið í netinu og sluppu FH-ingar þarna með skrekkinn.

Þegar 25 mínútur voru liðnar af leiknum voru Víkingar hrikalega óheppnir að komast ekki yfir. Þeir fengu þá aukaspyrnu hægra megin við teiginn sem endaði að vísu með því að Jón Ragnar Jónsson leikmaður FH þurfti að fara af velli. En Brynjar Kristmundsson tók spyrnuna og lagði knöttinn út á Eldar Masic sem átti frábært skot sem Gunnleifur varði naumlega. Tomasz Luba hafði síðan gullið tækifæri til að fylgja skotinu eftir en hann skaut framhjá markinu.

Jón Ragnar kom aftur inn á völlinn en þurfti að fara aftur út af skömmu síðar og kom Gunnar Már Guðmundsson inn á í hans stað. Björn Daníel Sverrisson færði sig í vinstri bakvörðinn þar sem hann stóð sig með prýði, en Gunnar Már fór inn á miðjuna.

Sóknarþungi FH-ingana jókst talsvert eftir því sem að líða tók á hálfleikinn og björguðu Ólafsvíkingar meðal annars einu sinni á marklínu. Það var síðan á 40. mínútunni sem Íslandsmeistararnir náðu forystunni en þar var á ferð varamaðurinn Gunnar Már Guðmundsson með skalla eftir góða sendingu frá Atla Guðnasyni.

Ólafur Páll Snorrason átti þá frábæra fyrirgjöf inn á Atla sem var inni í teignum og vippaði knettinum á Gunnar sem skallaði hann í netið.

Þeir sem héldu að allur vindur yrði úr Ólafsvíkingum eftir þetta mark FH (þar á meðal undirritaður) höfðu heldur betur rangt fyrir sér því að það tók gestina ekki nema tvær mínútur að jafna metin. Tommy Nielsen varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir að Þorsteinn Már Ragnarsson hafði náð góðri fyrirgjöf inn í teiginn. Knötturinn var á leið til sóknarmanns Víkings og Tommy ætlaði sér að bjarga því en skaut boltanum í eigið net.

Staðan var því orðin 1-1 og þrátt fyrir eitt dauðafæri FH áður en flautað var til leikhlés var staðan enn jöfn þegar gengið var til búningsklefanna.

FH-ingarnir byrjuðu seinni hálfleikinn betur og náðu forystunni þegar tæpur klukkutími var liðinn, en þar var á ferð Dalvíkingurinn Atli Viðar Björnsson sem skoraði með góðum skalla eftir undirbúning Matthíasar Vilhjálmssonar.

Víkingarnir hefðu getað jafnað rúmum tíu mínútum síðar þegar Edin Besilja tók frábæra aukaspyrnu en Gunnleifur í marki FH varði meistaralega í horn.

Ekki löngu síðar var dæmd vítaspyrna á Víking þegar Tomasz Luba felldi Björn Daníel Sverrisson inni í vítateig. Á punktinn steig Matthías Vilhjálmsson og skoraði hann af miklu öryggi.

Það má segja að leikurinn hafi dottið aðeins niður eftir þetta þriðja mark FH-inganna en Víkingarnir brotnuðu þó alls ekki niður og þeir reyndu allt hvað þeir gátu. Færin sem þeir sköpuðu voru þó ekki mörg og FH-ingum tókst að halda þetta út og bera sanngjarnan sigur úr bítum fyrir framan þá 2077 áhorfendur sem voru mættir í Kaplakrikann.

Víkingarnir stóðu sig aftur á móti með sóma og sýndu að þetta lið er einu númeri of stórt fyrir 2. deildina. Þeir stóðu sig betur á Kaplakrikavelli heldur en mörg úrvalsdeildarlið hafa gert og er ekki annað hægt en að óska þeim til hamingju með frábært bikarævintýri. Stuðningsmenn liðsins voru fjölmargir og létu vel í sér heyra.

Það eru samt sem áður FH-ingar sem eru komnir í bikarúrslitin og var það algerlega verðskuldað. Íslandsmeistararnir voru einfaldlega einu númeri of stórir fyrir Ólafsvíkinga en það var í raun ekkert annað en eðlilegt.

Byrjunarlið FH: Gunnleifur Gunnleifsson (M), Tommy Nielsen, Pétur Viðarsson, Björn Daníel Sverrisson, Matthías Vilhjálmsson, Atli Guðnason, Bjarki Bergmann Gunnlaugsson, Guðmundur Sævarsson, Jón Ragnar Jónsson, Atli Viðar Björnsson, Ólafur Páll Snorrason.

Byrjunarlið Víkings Ó: Einar Hjörleifsson (M), Helgi Óttarr Hafsteinsson, Tomasz Luba, Brynjar Gauti Guðjónsson (F), Þorsteinn Már Ragnarsson, Edin Beslija, Heiðar Atli Emilsson, Aijaz Horvat, Artjoms Goncars, Eldar Masic, Brynjar Kristmundsson.

Gul spjöld: Aljas Horvat (Víkingi Ó)
Maður leiksins: Bjarki Gunnlaugsson (FH)
Áhorfendur: 2077
banner