Bayern hefur áhuga á Bruno - Man Utd ætlar að bjóða í Branthwaite - Frank og McKenna orðaðir við stjórastarfið á Old Trafford
   fös 30. júlí 2010 18:11
Hafliði Breiðfjörð
Steinþór Freyr Þorsteinsson í Örgryte (Staðfest)
Steinþór Freyr Þorsteinsson er farinn til Örgryte í Svíþjóð.
Steinþór Freyr Þorsteinsson er farinn til Örgryte í Svíþjóð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tilboð Örgryte í Steinþór Þorsteinsson, leikmann Stjörnunnar, hefur verið samþykkt og leikmaðurinn náð samkomulagi við sænska félagið um kaup og kjör. Þetta kom fram í tilkynningu frá umboðsskrifstofu leikmannsins í dag.

Forráðamenn Örgryte hafa fylgst náið með Steinþóri í leikjum Íslandsmótsins og hefur hann undanfarið verið hjá félaginu að kynna sér aðstæður. Steinþór ætti að vera orðinn leikmaður Örgryte á næstu dögum.

Steinþór hefur verið einn allra besti leikmaður Íslandsmótsins síðastliðin ár og átt stóran þátt í því að tryggja veru Stjörnunnar í efstu deild. Eftir síðasta tímabil var hann samningslaus en framlengdi samning sinn við Stjörnuna gegn því vilyrði að ekki yrði staðið í vegi fyrir honum ef spennandi tilboð kæmi upp.

Örgryte féll úr efstu deild í fyrra en er sögulega eitt stærsta lið Svíþjóðar og hefur m.a. unnið titilinn tólf sinnum. Nýir fjárfestar hafa komið að liðinu og er allt kapp lagt á að koma liðinu sem fyrst upp í efstu deild. Steinþóri er ætlað að spila stórt hlutverk hjá Örgryte.

„Þetta hefur verið frábær tími hjá Stjörnunni en það var tímabært fyrir mig að stíga næsta skref,“ segir Steinþór Freyr.

„Ég fer til Örgryte til að spila stóra rullu og þroskast sem leikmaður. Ég þakka aðdáendum Stjörnunnar fyrir magnaðan stuðning og óska leikmönnum og liðinu velfarnaðar í framtíðinni.“
banner
banner
banner