Gríntilboð í Ederson - Trafford gæti verið á heimleið - Simons í ensku úrvalsdeildina?
   lau 31. júlí 2010 17:28
Alexander Freyr Tamimi
Aron Einar Gunnarsson reif vöðva í innkasti
Meiddist í seinasta leiknum á undirbúningstímabilinu
Aron Einar varð fyrir óláni í innkasti gegn West Brom en meiðsli hans eru ekki alvarleg.
Aron Einar varð fyrir óláni í innkasti gegn West Brom en meiðsli hans eru ekki alvarleg.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Aron Einar Gunnarsson leikmaður Coventry varð fyrir því óláni að rífa vöðva í síðunni þegar hann tók eitt af sínum frægu löngu innköstum. Þessu óhappi varð hann fyrir í seinasta leik liðsins á undirbúningstímabilinu, en Coventry gerði 1-1 jafntefli við West Bromwich Albion í dag.

„Ég var að taka innkast eftir 11 mínútur og ætlaði að setja hann á fjærstöngina og setti aðeins of mikið álag á bakið þannig að ég reif vöðva í vinstri síðunni,“ sagði Aron Einar þegar Fótbolti.net heyrði í honum.

„Ég heyrði eitthvað klikk í bakinu og ætlaði nú bara að halda áfram en svo hné ég bara niður. Þetta var það mikill sársauki. Ég hélt fyrst að þetta gæti verið alvarlegt en þetta eru ekki nema ein til tvær vikur.“

Eins og áður kom fram varð Aron Einar fyrir þessu óhappi í seinasta leik liðsins fyrir tímabilið og viðurkennir hann að tímasetningin á meiðslunum sé svekkjandi. Hann vonast þó til að vera til í slaginn fyrir landsleik Íslendinga þann 11. ágúst gegn Liechtenstein.

„Það er alltaf leiðinlegt að rífa vöðva þegar maður er búinn að vinna vel á undirbúningstímabilinu og koma mér í frábært form, svo gerist þetta í síðasta leik. Svo er landsleikur 11. ágúst, vonandi get ég fengið að fara þangað og fara í meðhöndlun hjá læknum landsliðsins, en ég veit ekki hvort ég næ þeim leik,“ bætti Aron við.

„Ég hélt þetta væri alvarlegra en þeir sögðu mér góðar fréttir að þetta væri bara rifinn vöðvi, en ekki eitthvað verra. Maður liggur bara í sófanum og chillar, ég var að horfa á Arsenal – AC Milan, svo er meðhöndlun á morgun. Vonandi verður maður orðinn góður fyrir landsleikinn eða leik númer tvö á tímabilinu. Við eigum Portsmouth á laugardaginn og ég reikna ekki með að ná þeim leik.“

Aðspurður segist Aron Einar ekki ætla að hætta að dæla inn löngu innköstunum sínum sem hafa skapað svo mikla hættu, en hann segist þó hafa lært á þessu kasti.

„Ég held ég hafi bara gert þau mistök að henda þessu á fjær í fyrsta innkasti. Maður á bara að henda þessu á nær í fyrsta innkasti, maður er ekkert orðinn heitur eftir 11 mínútur. Þetta er bara sjálfum mér að kenna en maður lærir bara á því, svona er þetta. Ég hef aldrei verið í jafn góðu formi núna og hausinn er stílaður á að gera enn betur en í fyrra,“ sagði Aron Einar Gunnarsson að lokum við Fótbolti.net, sem óskar honum að sjálfsögðu fljótum og góðum bata.
banner