Díaz á förum frá Liverpool - Newcastle fær markvörð Burnley - Man City ætlar að losa sig við reynda leikmenn
   fim 19. ágúst 2010 23:54
Einar Matthías Kristjánsson
Umfjöllun: Selfyssingar vígðu nýjan völl með stæl
Stuðningsmenn Selfyssinga fögnuðu vel í leikslok
Stuðningsmenn Selfyssinga fögnuðu vel í leikslok
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Hólmar Örn í baráttunni við Sævar Gísla
Hólmar Örn í baráttunni við Sævar Gísla
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Selfyssingar léku á nýjum grasvelli í dag
Selfyssingar léku á nýjum grasvelli í dag
Mynd: Guðmundur Fannar Vigfússon
Viktor Unnar átti tilþrif dagsins er hann vippaði úr víti
Viktor Unnar átti tilþrif dagsins er hann vippaði úr víti
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Hörður Sveinsson fagnar marki sínu með stæl
Hörður Sveinsson fagnar marki sínu með stæl
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Lasse Jörgensen horfir á eftir vippu Viktors Unnars
Lasse Jörgensen horfir á eftir vippu Viktors Unnars
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Selfoss 3- 2 Keflavík
0-1 Magnús Þórir Matthíasson (11)
0-2 Hörður Sveinsson (37)
1-2 Jón Guðbrandsson (48)
2-2 Viktor Unnar Illugason (79)
3-2 Viðar Örn Kjartansson (87)

Það er óhætt að fullyrða að 19.ágúst 2010 verði lengi í minnum hafður á Selfossi. Verið var að opna nýjan og glæsilegan grasvöll og eins var tekin í gagnið ný 750 manna stúka. Að auki var liðið í fyrsta skipti í beinni útsendingu í sjónvarpi og átti einn sinn magnaðasta leik í sögu félagsins.

Gestir dagsins voru Keflvíkingar sem er við hæfi enda ávalt verið "miklir" kærleikar milli þessara bæjarfélaga. Rúmlega 1.200 manns mættu á völlinn var stúkan full vel fyrir leik.

Keflvíkingar voru ekki alveg búnir að lesa handritið af þessari opnunarhátíð á Selfossi og um leið og presturinn á Selfossi var búinn að vígja völlinn formlega tóku Keflvíkingar mest öll völd á vellinum og eftir rúmlega tíu mínútna leik spólaði Magnús Þórir Matthíasson sig glæsilega í gegnum vörn heimamanna með góðum þríhyrning við Magnús Sverri og komst einn í gegn. Magnús Þórir átti ekki í vandræðum með að leggja boltann í hornið framhjá Jóhanni Ólafi. Mjög vel gert hjá þeim nöfnum en vörn Selfoss leit ekki vel út í þessu marki.

Eftir markið reyndu heimamenn að sækja á vörn Keflavíkur en náðu með engu móti að snúa á frábæra rangstöðuvörn þeirra. Raunar voru sóknir gestana áfram mun hættulegri og áttu þeir að að bæta öðru marki við á 17.mínútu. Fyrst spólaði Magnús Sverrir sig í gegn en skot hans var varið á línu af Martin Dohlsten. Í sömu sókn komst Hörður Sveinsson í úrvalsfæri en skot hans fór yfir. Algjör nauðvörn þarna hjá varnarmönnum Selfoss sem voru mjög heppnir að sleppa með þetta.

Á 20.mínútu fékk Viktor Unnar gult fyrir hraustlega tæklingu á Hólmari Erni. Stuttu seinna átti hann ágætt skot að marki sem fór yfir. Fljótlega í kjölfarið fékk Yao Yao aukaspyrnu sem hann tók sjálfur og sendi inn í teiginn á Jón Guðbrandsson sem skallaði yfir markið.

Strax í kjöllfarið brunuðu Keflvíkingar í sókn og bættu við öðru marki og svo gott sem drápu stemminguna á Selfossi. Guðmundur Steinarsson sendi glæsilegan bolta innfyrir á Hörð Sveinsson sem slapp einn í gegnum vörn heimamanna en lét Jóhann Ólaf verja frá sér. Frákastið fór þó beint aftur á Hörð sem gat lítið annað gert en að klára færið. 0-2 fyrir Keflavík og eins og Willum Þór sagði í viðtali eftir leik þá hefur hann aldrei tapað eftir að hans lið kemst í slíka stöðu.

Á 44.mínútu skoraði Jón Guðbrandsson fyrir Selfoss en markið var réttilega dæmt af þar sem Arilíus Marteinsson braut á Lasse Jörgensen markmanni. Gunnar Jarl góður dómari leiksins með þetta allt á hreinu og flautaði til leikhlés um leið og klukkan sýndi 45.mínútur.

Í leikhléinu nýtti Gummi Ben tímann vel, sagði sýnum mönnum að hann vildi þrjú mörk og tók Gunnar Borgþórsson útaf og setti í hans stað Einar Ottó Antosson inná miðjuna með Yao Yao. Þessi skipting virkaði eins og vítamínsprauta á heimamenn sem komu frískir til leiks í seinni hálfleik og var Sævar Gíslason að því er virtist í úrvalsfæri strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks en náði ekki til boltans.

Mínútu seinna var Yao Yao hinn smávaxni miðjumaður Selfoss dæmdur rangstæður í örugglega sjötta skipti í leiknum. Fljótlega í kjölfarið á því fengu heimamenn aukaspyrnu sem áðurnefndur Yao Yao framkvæmdi. Hann sendi háan bolta inn á teig sem Jörgensen misreiknaði illilega í markinu og náði ekki að kýla frá. Þess í stað fór hann á kollinn á Jóni Guðbrandssyni og þaðan í netið.

Stuttu seinna fékk Arilíus Marteinsson gult fyrir brot rétt fyrir utan vítateig. Úrvalsfæri fyrir Guðmund Steinarsson sem tók lúmskt skot undir vegginn en Jóhann Ólafur var með allt á hreinu í markinu og varði skotið auðveldlega. Selfyssingar voru þó öllu sprækari eftir markið og áhorfendur voru miklu mun sprækari og létu vel í sér heyra.

Á 62.mínútu átti Jóhann Ólafur eitt af tilþrifum helgarinnar er hann sá glæsilega við Herði Sveinssyni sprækasta leikmanni Keflvíkinga. Hörður slapp gjörsamlega einn í gegn og hafði allann tímann í heiminum til að ákveða hvernig hann ætti að plata Jóhann. En það eru fáir betri í þessari stöðu hér á landi heldur en Jóhann Ólafur og las hann Hörð eins og Morgunblaðið og setti boltann í horn. Úr horninu náði Haraldur Freyr góðum skalla sem datt á þverslánna áður en hann fór yfir markið.

Selfoss var þó meira með boltann og reyndu hvað þeir gátu að sækja að marki gestanna. Rangstöðurnar urðu að ég held yfir tíu hjá þeim í leiknum og náðu heimamenn ekki að snúa á hana fyrr en Viðar Örn Kjartansson kom inná í liði Selfoss. Hann var ekki búinn að vera margar mínútur inná þegar hann slapp einn í gegnum vörn Keflvíkinga og var felldur inn í teig af Lasse Jörgensen. Markmaðurinn líklega smá heppinn að fjúka ekki útaf þarna en sú regla svosem allt of ströng enda brotið ekki gróft, allavega lét Gunnar Jarl vítið nægja.

Á punktinn fór Viktor Unnar Illugason sem var búinn að lofa því í viðtali fyrir leik að hann myndi skora í leiknum. Það gerði hann af miklu öryggi en var gert að taka vítið aftur. Það er aldrei talið þægilegt að þurfa að endurtaka víti en Viktor var líklega ekki búinn að frétta af því og hélt þess í stað að héti Sebastian Abreu (Urugay) og ákvað að vippa á mitt markið. Það dugði til að sjá við Lasse Jörgensen sem var farinn í sama horn og Viktor hafði veðjað á í fyrri spyrnunni. Algjörlega frábært mark hjá Viktori Unnari sem fagnaði vel ásamt áhorfendum.

Þeir fóstbræður Viðar og Viktor voru hvergi nærri hættir og þremur mínútum fyrir leikslok kláraði Viðar Örn leikinn fyrir heimamenn sem endanlega töpuðu sér á pöllunum. Viktor Unnar sendi boltan glæsilega innfyrir á Viðar Örn sem var kominn einn í gegn og setti boltann örugglega í hornið. Aftur náði Viðar að sjá við rangstöðuvörn Keflvíkinga þó tæpt hafi það verið og vandaði Willum Þór þjálfari Keflvíkinga Gunnari Jarli dómara ekki kveðjunar í leikslok.

Á 90.mínútu var Viktor Unnar afar nálægt því að klára leikinn endalega er hann átti gott skot sem endaði í stönginni. Viðar Örn vann boltann sem datt ágætlega fyrir Viktor sem var óheppinn með skotið. Frákastið fór beint til Inga Rafns sem var í úrvalsfæri en Jörgensen varði vel í marki gestanna.

Fleira gerðist ekki í þessum bráðfjöruga og kaflaskipta leik. Þetta féll svo sannarlega með heimamönnum í dag sem hefur ekki alltaf verið raunin í sumar og sýndu þeir gríðarlegan karakter að koma til baka eftir að hafa verið 0-2 undir gegn sterku liði Keflavíkur. En á móti geta Suðurnesjamenn sannarlega nagað sig í handarbökin fyrir að hafa ekki klárað þennan leik, já eða kannski fyrir að hafa haldið að þeir væru búnir að klára þennan leik.


Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson, Martin Dohlsten, Agnar Bragi Magnússon, Jón Guðbrandsson, Guðmundur Þórarinsson, Gunnar Rafn Borgþórsson, Jean Stephane YaoYao, Arilíus Marteinsson, Jón Daði Böðvarsson, Sævar Þór Gíslason, Viktor Unnar Illugason.
Varamenn: Elías Örn Einarsson, Sigurður Eyberg Guðlaugsson, Davíð Birgisson, Ingi Rafn Ingibergsson. Einar Ottó Antonsson, Viðar Örn Kjartansson og Guessan Bi Herve.

Keflavík Lasse Jörgensen, Alen Sutej, Guðjón Árni Antoníusson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Einar Orri Einarsson, Guðmundur Steinarsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Magnús Þórir Matthíasson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Hörður Sveinsson.
Varamenn: Ómar Jóhansson, Ian Paul McShane, Jóhann Birnir Guðmundsson, Andri Steinn Birgisson, Bojan Stefán Ljubicic, Brynjar Örn Guðmundsson og Magnús Þór Magnússon.


Dómari: Gunnar Jarl, átti mjög góðan dag.
Áhorfendur: 1.239
Aðstæður: Frábærar, nýr og þ.a.l. auðvitað áður ónotaður völlur, ný stúka, stilt veður og rúmlega 15 stiga hiti.
Menn leiksins: Jóhann Ólafur Sigurðsson og Viðar Örn Kjartansson.
banner
banner
banner