Ólafur H. Kristjánsson þjálfari Breiðabliks var að vonum ósáttur eftir 0-2 tap á heimavelli gegn botnliði Hauka í kvöld en þetta var um leið fyrsti sigur Hauka.
,,Ég er náttúrulega ósáttur, Haukarnir voru bara ákveðnari en við í fyrri hálfleik. Ég hélt að ég myndi ekki þurfa að taka mér þessi orð í munn og segja, 'þeir vildu þetta meira' því mér finnst skrítið þegar um íþróttakeppni er að ræða að menn vilji þetta lítið en þeir vildu þetta meira, við vorum slakir í fyrri hálfleik og þeir gengu á lagið," sagði Ólafur við Fótbolta.net eftir leik.
Heimir Guðjónsson þjálfari FH hafði sagt í gærkvöld að Blikar myndu vinna leikinn 6-7 núll. Ólafur var spurður út í þau ummæli í ljósi úrslita kvöldsins.
,,Ég held að Andri eigi að senda honum bréf eða SMS og þakka honum fyrir, hann getur hafa kveikt í þeim," sagði Ólafur um ummæli Heimis.
Kári Ársælsson fyrirliði Breiðabliks var tekinn af velli á 37. mínútu eftir að Haukar skoruðu annað markið í leiknum.
,,Fyrirliðinn er náttúrulega leiðtoginn og þú gefur honum oft lengri snúru en öðrum en mér fannst hann búinn að vera að spila slakan leik fram að því, liðið í heild reyndar, en ég var ósáttur við hann og frammistöðu liðsins og sendi þar af leiðandi skilaboð inn í liðið að menn þyrftu að hysja upp um sig og það yrðu aðrir að stíga upp."
Nánar er rætt við Ólaf í sjónvarpinu hér að ofan.