Haukar 2 - 0 Keflavík
1-0 Magnús Björgvinsson ('24)
2-0 Guðjón Pétur Lýðsson ('59)
1-0 Magnús Björgvinsson ('24)
2-0 Guðjón Pétur Lýðsson ('59)
Botnlið Hauka tók sig til og vann sinn annan sigur í röð þegar þeir mættu Keflvíkingum á Vodafonevellinum í dag. Leiknum lauk með 2-0 sigri Hauka sem voru mun betri heldur en andlaust lið gestanna úr Bítlabænum.
Að vísu byrjuðu Keflvíkinginn leikinn betur en taflið snerist fljótlega við og heimamenn sýndu fína takta. Eftir heldur daufar upphafsmínútur komust heimamenn yfir með góðu skallamarki frá Magnúsi Björgvinssyni, en Magnús hefði getað skorað þrjú til fjögur mörk til viðbótar í dag ef heppnin hefði verið með honum.
Einungis fimm mínútum eftir markið átti Magnús góðan sprett og flott skot sem Lasse Jörgensen í marki Keflavíkur gerði vel að verja. Skömmu eftir það skipti Willum þjálfari Keflavíkur Magnús Þóri Matthíassyni af velli, eftir einungis hálftíma leik, og inn kom Jóhann Birnir Guðmundsson sem var að vísu einn sprækasti leikmaður Keflavíkur í dag.
Þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik voru bæði lið hársbreidd frá því að skora. Fyrst átti Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði Keflavíkur þrumuskot sem endaði í samskeytunum og í næstu sókn var Magnús Björgvinsson í sannkölluðu dauðafæri en aftur varði Lasse frábærlega.
Þegar flautað var til leikhlés var staðan enn 1-0 fyrir Haukum eftir fjörugan fyrri hálfleik þar sem mörkin hefðu hæglega getað verið fleiri.
Ekki var mikil bót á liði Keflvíkinga þegar þeir komu aftur inn á völlinn og voru þeir heppnir þegar mark var dæmt af Haukum vegna rangstöðu eftir tæpar tíu mínútur. Hilmar Geir Eiðsson gerði þá vel og kom sér í gott skotfæri en skot hans fór í stöngina. Magnús Björgvinsson fylgdi eftir og skoraði en var dæmdur rangstæður.
Það kom þó ekki að sök því að einungis fimm mínútum síðar skoraði Guðjón Pétur Lýðsson frábært mark með skoti utan teigs eftir að hafa átt mjög góða rispu upp miðjuna. Guðjón Pétur byrjaði leikinn ekkert allt of vel en vann sig betur inn í hann og sýndi oft fína takta, þá sérstaklega í þessu glæsilega marki.
Magnús Björgvinsson hefði svo aftur getað skorað skömmu eftir það og gulltryggt sigurinn en sem fyrr sá Lasse við honum. Magnús var mjög duglegur að koma sér í færi og var einkar vinnusamur en stundum vantaði aðeins upp á klárunina.
Mörkin í leiknum urðu ekki fleiri, Keflvíkingar sóttu í sig veðrið þegar líða tók á leik og áttu meðal annars stangarskot en Haukar ógnuðu nokkrum sinnum í skyndisóknum. Þeir voru betri aðilinn í leiknum og verðskulduðu sigurinn. Arnar Gunnlaugsson var frábær inni á miðjunni og steig vart feilspor í þessum leik, frekar en seinasta leik gegn Breiðablik.
Haukar eru enn í neðsta sæti með 13 stig, en einungis fimm stigum frá öruggu sæti. Þeir eru þó búnir að leika einum leik meira en liðin fyrir ofan sig, Selfoss og Fylkir. En liðið á þó enn möguleika á því að bjarga sér frá falli á ótrúlegan hátt, en ljóst er að fjallið sem þeir þurfa að klífa er bratt.
Keflvíkingar dóla um miðja deild með 24 stig. Möguleiki þeirra á Evrópusæti er fjarlægur og stefnir allt í vonbrigðatímabil. Leikurinn í dag var svo sannarlega ekki merki um neitt gott og var þetta með daprari leikjum sem undirritaður hefur séð Keflavík spila. En það var þá kannski vegna þess að Haukarnir áttu svo fínan leik.
Haukar: Daði Lárusson, Grétar Atli Grétarsson, Daníel Einarsson, Jamie McCunnie, Gunnar Ormslev Ásgeirsson, Guðjón Pétur Lýðsson, Ásgeir Þór Ingólfsson, Arnar Gunnlaugsson, Úlfar Hrafn Pálsson, Magnús Björgvinsson, Hilmar Geir Eiðsson.
Varamenn: Kristján Ómar Björnsson, Þórhallur Dan Jóhannsson, Guðmundur Viðar Mete, Garðar Ingvar Geirsson, Pétur Ásbjörn Sæmundsson, Amir Mehica, Alexandre Garcia Canedo.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Alen Sutej, Einar Orri Einarsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Guðmundur Steinarsson, Magnús Þórir Matthíasson, Hörður Sveinsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson.
Varamenn: Ómar Jóhannsson, Andri Steinn Birgisson, Haukur Ingi Guðnason, Bojan Stefán Ljubicic, Brynjar Örn Guðmundsson, Magnús Þór Magnússon, Jóhann Birnir Guðmundsson.