Elísa Viðarsdóttir fyrirliði ÍBV var að vonum ánægð eftir að liðið tryggði sér sigur í 1. deildinni eftir að hafa lagt Þrótt 3-1 í úrslitaleik í Þorlákshöfn í dag. Liðin munu bæði leika í Pepsi-deild kvenna á næsta ári og Elísa vill fá systur sína, Margréti Láru Viðarsdóttur með í þá baráttu.
,,Það er klárt mál að ég mun hringja í hana og við gerum einhvern góðan samning. Margrét ég skora á þig að koma í ÍBV á næsta ári," sagði Elísa við Fótbolta.net eftir leikinn.
,,Þetta er gríðarleg stemmning, það er brjáluð stemmning í eyjum yfir þessu og við erum búin að bíða eftir þessu lengi," sagði Elísa um að liðið sé komið upp í efstu deild en leikurinn var spilaður í miklu roki í Þorlákshöfn í dag.
,,Við erum vanar vindinum í eyjum en brugðumst bara ágætlega við þessu og þetta tókst bara."
Nánar er rætt við Elísu í sjónvarpinu hér að ofan.