Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 05. september 2010 19:38
Hafliði Breiðfjörð
Umfjöllun: ÍBV 1. deildarmeistari kvenna 2010
1. deildarmeistarar ÍBV árið 2010.
1. deildarmeistarar ÍBV árið 2010.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elísa Viðarsdóttir fyrirliði með bikarinn.
Elísa Viðarsdóttir fyrirliði með bikarinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Boltinn liggur í netinu eftir mark Hlífar beint úr hornspyrnu.
Boltinn liggur í netinu eftir mark Hlífar beint úr hornspyrnu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hlíf stökk beint í fangið á Jóni Óla þjálfara eftir að hafa skorað markið.
Hlíf stökk beint í fangið á Jóni Óla þjálfara eftir að hafa skorað markið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lerato fagnar aukaspyrnumarkinu.
Lerato fagnar aukaspyrnumarkinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV 3-1 Þróttur:
1-0 Hlíf Hauksdóttir ('50)
1-1 Ruth Þórðar Þórðardóttir ('52)
2-1 Lerato Kgasago ('76)
3-1 Lerato Kgasago ('85, víti)

ÍBV er 1. deildarmeistari kvenna árið 2010 eftir að hafa unnið Þrótt í miklum rokleik á Þorlákshafnarvelli í hádeginu í dag.

Liðin höfðu tryggt sér sæti í Pepsi-deildinni með því að vinna undanúrslitaviðureignirnar á miðvikudag og þá átti aðeins eftir að berjast um hvort liðið yrði sigurvegari deildarinnar.

Leikurinn fór fram á hlutlausum velli að þessu sinni og Þorlákshafnarvöllur varð fyrir valinu en aðstæður þar hafa batnað nokkuð frá því sem áður var og nú eru grasbrekkur í kringum völlinn sem veita skjól, búningsklefar í göngufæri og önnur aðstaða.

Þróttur sem lék í ljósbláum varabúningum sínum byrjaði leikinn á að sækja með stífum vindi í fyrri hálfleik. Leikurinn bar þess alveg merki því þær komust í fínustu færi í fyrri hálfleiknum en ýmist fór boltinn framhjá eða Nanna Rut Jónsdóttir markvörður ÍBV varði oft á tíðum frábærlega. Nanna var besti maður vallarins í dag og ÍBV getur þakkað henni fyrir að hafa ekki fengið á sig mörk í fyrri hálfleiknum.

Þegar síðari hálfleikurinn hófst virtist sem Þróttur ætti betra með að leika gegn vindinum en ÍBV hafði gert í fyrri hálfleiknum. Margrét María Hólmarsdóttir komst í dauðafæri strax í byrjun síðari hálfleiks eftir góða sendingu Hrefnu Huldar Jóhannesdóttur en skaut framhjá markinu.

En ÍBV átti líka góð færi og Kristín Erna Sigurlásdóttir slapp ein í gegn tveimur mínútum síðar og átti bara eftir að skjóta á markið þegar Hallveig Ólafsdóttir varnarmaður Þróttar kom á sprettinum, náði boltanum af tánum á Kristínu og kom honum í horn.

Hlíf Hauksdóttir fór út að hornfána til að taka hornspyrnuna og fékk þau skilaboð frá áhorfendum úr stúkunni að nýta sér vindinn og skjóta á markið. Hún tók þá líka á orðinu og þrumaði boltanum upp í fjær hornið án að Ása Dögg Aðalsteinsdóttir markvörður Þróttar ætti möguleika á að verja.

Staðan orðin 1-0 fyrir ÍBV en Þróttarar létu það ekkert slá sig út af laginu heldur brunuðu beint upp í góða sókn sem endaði á því að Ruth Þórðar Þórðardóttir skoraði gott mark af stuttu færi en hún hefur farið mikinn í liði Þróttar síðan hún kom á láni frá Fylki og skorað 8 mörk í 5 leikjum.

Ruth átti mjög góðan leik hjá Þrótti í dag og var í mikilli baráttu við Eddu Maríu Birgisdóttur leikmann ÍBV allan leikinn. Edda María hafði einnig komið úr efstu deild í þá 1. í júlí en hún kom þá frá Stjörnunni og hefur styrkt liðið verulega. Tæklingar þeirra á milli voru nokkuð harðar á köflum og líklega átti Edda að fjúka af velli þegar hún sparkaði á eftir sér í átt að Ruth sem lá á vellinum snemma í síðari hálfleik en Pétur Guðmundsson dómari sá ekki atvikið

Þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum hafði Ruth átt dauðafæri en skaut framhjá og hinum megin á vellinum áttu hlutir eftir að gerast.

ÍBV fékk þá aukaspyrnu nokkru fyrir utan vítateig Þróttara og hin Suður Afríska Lerato Kgasago sem hefur skorað mikið fyrir liðið upp á síðkastið gerði sig klára í að skjóta. Pétur dómari benti henni þá á að um óbeina aukaspyrnu væri að ræða og því mætti ekki skjóta beint úr færinu.

Lerato ræddi því við Kolbrúnu Ingi Stefánsdóttur liðsfélaga sinn og saman komust þær að niðurstöðu um hvernig ætti að leysa þetta. Kolbrún hljóp yfir boltann og hreyfði aðeins við honum og Lerato kom svo á ferðinni og þrumaði á markið. Þetta gekk eftir og glæsilegt mark var staðreynd. ÍBV komið í 2-1. Theódór Sveinjónsson þjálfari Þróttar reiddist mjög og taldi boltann ekki hafa færst nóg til að telja mætti að Kolbrún hafi tekið aukaspyrnuna en Pétur dómari stóð fast á sínu.

Þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma kláraði ÍBV svo leikinn endanlega þegar Lerato skoraði úr vítaspyrnu sem hafði verið dæmd eftir að boltinn fór í hönd Hallveigar eftir sendingu frá Kristínu Ernu Sigurlásdóttur inn í teiginn.

Lokastaðan 3-1 fyrir ÍBV sem hefur átt frábært sumar. ÍBV missti á ótrúlegan hátt af því að komast upp um deild á síðasta ári en hélt þrátt fyrir það öllum leikmönnum sínum sem voru ákveðnir í að taka það í næstu tilraun. Það tókst upp og liðið tapaði aðeins einum leik í deildinni í sumar og einum í bikarnum, undanúrslitaleik gegn Stjörnunni.

Lið Þróttar var líka mjög sigursælt í sumar og leikurinn í dag var aðeins annar deildarleikurinn sem þær töpuðu í sumar.

Að leik loknum afhentu Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari og Guðrún Inga Sívertsen gjaldkeri KSÍ svo sigurlaunin, gull og bikar til ÍBV, silfur til Þróttar.

Maður leiksins: Nanna Rut Jónsdóttir, ÍBV
Aðstæður: 15 stiga hiti, hífandi rok og úrkomulaust. Smá sólarglæta.
Dómari: Pétur Guðmundsson
Áhorfendur: Um 80

ÍBV: 1. Nanna Rut Jónsdóttir (12. Karitas Þórarinsdóttir '89), 3. Sara Rós Einarsdóttir, 4. Hrefna Harðardóttir (9. Svava Tara Ólafsdóttir '60), 5. Sigríður Lára Garðarsdóttir, 7. Elísa Viðarsdóttir, 10. Hlíf Hauksdóttir (6. Jóhanna Svava Gunnarsdóttir '88) 11. Kristín Erna Sigurlásdóttir,13. Lerato Kgasago (2. Bjartey Helgadóttir '89) 15. Rose Jijana, 16. Kolbrún Inga Stefánsdóttir, 17. Edda María Birgisdóttir (8. Eva María Káradóttir '72)
Ónotaðir varamenn: (engin)

Þróttur: 1. Ása Dögg Aðalsteinsdóttir, 2. Hallveig Ólafsdóttir, 3. Kristrún R. Rúnarsdóttir, 6. Karlotta Halldórsdóttir, 7. Sunna Rut Ragnarsdóttir, 4. Ruth Þórðar Þórðardóttir, 9. Margrét María Hólmarsdóttir, 10. Valgerður Jóhannsdóttir, 11. Soffía Ummarin Kristinsdóttir, 16. Eyrún Kr. Eyjólfsdóttir ( 5. Harpa Lind Guðnadóttir '88) 17. Hrefna Huld Jóhannsdóttir (18. Kristín Einarsdóttir M. '61).
Ónotaðir varamenn: 12. Rósa B. Sigurgeirsdóttir (m), 15. Gabríela Jónsdóttir, 19. Ólína Kr. Sigurgeirsdóttir.
banner
banner
banner
banner