Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   fös 10. september 2010 09:00
Þórður Már Sigfússon
Rýnt í tölfræði: Árangur landsliðsins á stöðugri niðurleið
Vinningshlutfallið lækkað úr 54% niður í 19% á áratug
Ólafur Jóhannesson - landsliðið undir hans stjórn er með 19% vinningshlutfall í mótsleikjum.
Ólafur Jóhannesson - landsliðið undir hans stjórn er með 19% vinningshlutfall í mótsleikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Vilhjálmur Siggeirsson
Landsliðið undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar var með 54% vinningshlutfall.
Landsliðið undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar var með 54% vinningshlutfall.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið stillir sér upp fyrir landsleikinn gegn Noregi í síðustu viku.
Íslenska landsliðið stillir sér upp fyrir landsleikinn gegn Noregi í síðustu viku.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Atli Eðvaldsson náði góðum árangri með íslenska landsliðið samanborið við þá sem hafa fylgt í kjölfarið.
Atli Eðvaldsson náði góðum árangri með íslenska landsliðið samanborið við þá sem hafa fylgt í kjölfarið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarleikur Íslands hefur batnað til muna undir stjórn Ólafs Jóhannessonar samanborið við forvera hans.
Varnarleikur Íslands hefur batnað til muna undir stjórn Ólafs Jóhannessonar samanborið við forvera hans.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Eyjólfur Sverrisson náði slæmum árangri með íslenska landsliðið. Hann hefur hins vegar fengið uppreisn æru eftir frábæran árangur U-21 árs landsliðsins.
Eyjólfur Sverrisson náði slæmum árangri með íslenska landsliðið. Hann hefur hins vegar fengið uppreisn æru eftir frábæran árangur U-21 árs landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Ísland er án stiga eftir tvo leiki í undankeppni EM eftir töp gegn Norðmönnum og Dönum. Samt sem áður hefur liðið leikið vel og er ljóst að í þessari riðlakeppni mun ríkja einskonar millibilsástand þar sem ungir og upprennandi leikmenn gera sig klára til að taka við kyndlinum af eldri og reyndari landsliðsmönnum.

Þó verður að benda á þá staðreynd að árangur landsliðsins hefur verið á stöðugri niðurleið á undanförnum árum og er brýnt að snúa þeirri þróun við. Ellegar endum við í ruslflokki evrópskrar knattspyrnu.

Það er fróðlegt að rýna í tölfræði landsliðsins í mótsleikjum undanfarin áratug og ber þar margt forvitnilegt á góma. Það sem stingur mest í stúf er sú merkjanlega niðursveifla sem hefur átt sér stað í nánast öllum þáttum landsliðsins síðan Guðjón Þórðarson hætti störfum árið 1999.

Vinningshlutfallið hefur hríðfallið, stigasöfnun og stigameðaltal hefur lækkað stig frá stigi auk þess sem landsliðið hefur skorað færri og færri mörk. Að auki fór varnarleikurinn versnandi uns Ólafur Jóhannesson tók við stjórnartaumunum.

Einn sigur undir stjórn Ólafs

Ef litið er á árangur íslenska landsliðsins undir stjórn Ólafs Jóhannessonar í leikjum sem skipta máli, þ.e. leikjum í undankeppni EM og HM, kemur í ljós að hann er mjög slakur. En ekki er allt sem sýnist.

Hann hefur stýrt íslenska landsliðinu í rúm þrjú ár og er árangurinn í mótsleikjum einn sigur í 11 landsleikjum. Átta leikir hafa tapast og tveir leikir hafa endað með jafntefli. Uppskeran er því rýr eða samtals 5 stig.

Til samanburðar stýrði Eyjólfur Sverrisson landsliðinu í 11 mótsleikjum og var árangur hans tveir sigrar, tvö jafntefli og sjö töp sem gerði samtals 8 stig. Þá var hann beinlínis hrakinn úr starfi.

Hins vegar ber að benda á að spilamennska landsliðsins undir stjórn Ólafs er betri en hjá forvera hans og með örlítilli heppni hefðu sigrarnir getað orðið fleiri. Það sem hefur einkennt stjórnartíð Ólafs er hinn agnarsmái munur milli feigs og ófeigs. Liðið spilar á stundum glimrandi fótbolta, samanber leikurinn gegn Norðmönnum á Laugardalsvelli í fyrra, fyrri hálfleikurinn gegn sömu þjóð á sama velli síðasta föstudagskvöld og leikurinn gegn Danmörku á þriðjudagskvöldið. Allir þessir leikir hefðu getað unnist með smá heppni.

Áberandi niðursveifla

Það er fróðlegt að skoða þróun landsliðsins síðan Guðjón Þórðarson lét af störfum haustið 1999. Hann var með 54% vinningshlutfall og halaði inn 1.5 stig að meðaltali í mótsleikjum. Arftaki hans var Atli Eðvaldsson og í sögulegu tilliti náði hann góðum árangri með liðið en samt sem áður féll vinningshlutfallið niður í 42% þann tíma sem hann var við stjórnvölinn.

Enn hélt niðursveiflan áfram í tíð Ásgeirs Sigurvinssonar og Loga Ólafssonar, sem tóku við af Atla árið 2003, og luku þeir störfum með 33% vinningshlutfall. Arftaki þeirra Eyjólfur Sverrisson tók við af þeim árið 2005 en hafði ekki erindi sem erfiði. Hann var með 27% vinningshlutfall.

Núverandi landsliðsþjálfari Ólafur Jóhannesson hefur enn sem komið er ekki náð að hægja á þessari stöðugu niðursveiflu og sem stendur er vinningshlutfall landsliðsins undir hans stjórn rúm 19%. Sú tala gæti lækkað að loknum næstu tveimur viðureignum landsliðsins, gegn Portúgal á Laugardalsvelli í næsta mánuði og gegn Kýpur á útivelli í mars. Tapist þeir leikir fellur vinningshlutfallið niður í 15% sem er óviðunandi miðað við þá leikmenn sem Ísland hefur yfir að ráða.

Stig að meðaltali í mótsleik:
Guðjón Þórðarson – 1.5 stig
Atli Eðvaldsson – 1.25 stig
Ásgeir Sigurvinsson/Logi Ólafsson – 0.93 stig
Eyjólfur Sverrisson – 0.72 stig
Ólafur Jóhannesson – 0.46 stig

Vinningshlutfall:
Guðjón Þórðarson – 54%
Atli Eðvaldsson – 42%
Ásgeir Sigurvinsson/Logi Ólafsson – 33%
Eyjólfur Sverrisson – 27%
Ólafur Jóhannesson – 19%

Þróun stigameðaltals í mótsleikjum eftir þjálfurum síðan Guðjón Þórðarson hætti störfum:
1.5>1.25>0.93>0.72>0.46

Þróun vinningshlutfalls í mótsleikjum eftir þjálfurum síðan Guðjón Þórðarson hætti störfum:
54%>42%>33%>27%>19%>

Ólafur hefur náð að bæta varnarleikinn til muna

Það er staðreynd að Guðjón Þórðarson á bestan árangur sem landsliðsþjálfari Íslands frá upphafi. Þegar hann tók við af Loga Ólafssyni árið 1997 skoraði landsliðið að meðaltali 0.17 mörk í mótsleikjum. Að sama skapi fékk liðið á sig að meðaltali 1.33 mörk í leik.

Á þeim þremur árum sem Guðjón stýrði landsliðinu hækkaði markaskor liðsins upp í 1.57 mörk að meðaltali í leik sem gerir hækkun upp á 1.43. Einnig bætti hann vörnina sem fékk á sig 1.07 mörk á sig að meðaltali í leik.

Landsliðið undir stjórn Atla Eðvaldssonar náði að halda sama dampi í markaskoruninni með því að skora 1.5 mörk að meðaltali en varnarleikur liðsins versnaði um helming og fékk liðið á sig að meðaltali 2 mörk í leik í mótsleikjum samanborið við 1.07 mörk að meðaltali undir stjórn Guðjóns.

Á þessum tíma var niðursveiflan byrjuð. Niðursveifla sem hefur farið stigversnandi undankeppni eftir undankeppni. Undir stjórn Ásgeirs Sigurvinssonar og Loga Ólafssonar lækkaði markaskorunin um -0.1 stig, 1.4, samanborið við árangur forvera þeirra og einnig versnaði varnarleikurinn um -0.13 stig. Liðið fékk á sig að meðaltali 2.13 mörk samanborið við 2 mörk undir stjórn Atla.

Ef litið er á tölfræðina þá er ljóst að mesta niðursveiflan átti sér stað þegar Eyjólfur Sverrisson var við stjórnvölinn. Í þeim 11 leikjum sem hann stýrði landsliðinu tímabilið 2006-2007 skoruðu leikmennirnir 0.91 mark að meðaltali í leik samanborið við 1.4 mörk í stjórnartíð forvera hans. Auk þess fékk liðið á sig að meðaltali 2.19 mörk samanborið við 2.13 mörk.

Ólafur Jóhannesson tók við af Eyjólfi árið 2007 og hann hefur ekki enn náð að bæta sóknarleikinn sem hefur versnað frá tíð Eyjólfs en í þeim 11 mótsleikjum sem Ólafur hefur stýrt landsliðinu hefur liðið einungis skorað 0.73 að meðaltali í leik. Það gerir lækkun upp á -0.18 stig.

Hins vegar er ljóst að varnarleikur liðsins hefur batnað til muna. Undir stjórn Ólafs fær landsliðið að meðaltali á sig rúm 1.45 mörk í leik samanborið 2.19 mörk í leik að meðaltali undir stjórn Eyólfs. Það gerir bætingu upp á +0.74 stig.

Meðaltalsmörk sem landsliðið skorar í mótsleik:
Guðjón Þórðarson - 1.57
Atli Eðvaldsson - 1.5
Ásgeir Sigurvinsson/Logi Ólafsson - 1.4
Eyjólfur Sverrisson - 0.91
Ólafur Jóhannesson - 0.73

Meðaltalsmörk sem landsliðið fær á sig í mótsleik:
Guðjón Þórðarson - 1.07
Atli Eðvaldsson - 2
Ásgeir Sigurvinsson/Logi Ólafsson - 2.13
Eyjólfur Sverrisson - 2.19
Ólafur Jóhannesson - 1.45

Mörk skoruð síðan Guðjón Þórðarson hætti störfum (þróun):
1.57>1.5>1.4>0.91>0.73

Mörk fengin á sig síðan Guðjón Þórðarson hætti störfum (þróun):
1.07>2>2.13>2.19>1.45

Ólafur óheppinn með drætti í riðla

Það er auðvelt að falla í þá gryfju að gagnrýna landsliðsþjálfarann þegar illa gengur en það þarf að skoða hvernig landið liggur. Það er t.a.m. ekki hægt að bera saman ástand landsliðsins þegar Atli Eðvaldsson tók við búinu af Guðjóni Þórðarsyni við bágborið ástand þess þegar Ólafur Jóhannesson tók við af Eyjólfi Sverrissyni fyrir þremur árum.

Landsliðið var í miklum uppgangi undir stjórn Guðjóns en þegar Eyjólfur, sem hefur reyndar sannað ágæti sitt með frábærum árangri U-21 árs landsliðsins að undanförnu, hætti störfum var landsliðið í mikilli lægð sem erfitt hefur verið að hægja á.

Ástæðurnar eru margar og er ein þeirra sú að Ísland hefur dregist í fimm liða riðil í bæði skiptin undir stjórn Ólafs, sem gerir það að verkum að Ísland er lakasta liðið í riðlinum samkvæmt styrkleikaflokkuninni. Í sex liða riðli myndum við etja kapp við þjóð sem er talin lakari en Ísland á pappírnum og því yrðu stigin aðeins auðunnari.

Til samanburðar var Ísland í 5. styrkleikaflokki í sjö liða riðli í undankeppni EM 2008, og í 4. styrkleikaflokki í sex liða riðli í undankeppni HM 2006.

Óstöðugleikinn og skellirnir

Óstöðugleiki hefur ávallt einkennt íslenska landsliðið í undankeppnum. Skellir hafa litið dagsins ljós með jöfnu millibili en þess á milli hafa frábær úrslit skotið kollinum, líkt og í undankeppninni fyrir EM 2008 undir stjórn Eyjólfs Sverrissonar.

Þá töpuðust þrír útileikur stórt; gegn Svíþjóð (5-0), gegn Lettlandi (4-0) og gegn Liechtenstein (3-0). Auk þess náðist aðeins 1-1 jafntefli gegn Liechtenstein á heimavelli og á sama velli leit einnig 2-4 tap dagsins ljós gegn Lettlandi.

Mitt í þessum ólgusjó slæmra úrslita náði Ísland hins vegar að gera 1-1 jafntefli á Laugardalsvelli gegn þá verðandi Evrópumeisturum Spánar. Andrés Iniesta jafnaði metinn fáeinum mínútum fyrir leikslok. Einnig vannst glæstur 3-0 útisigur gegn Norður-Írlandi.

Landsliðið hefur sett tvö ,,met" undir stjórn Ólafs

Með tilkomu Ólafs Jóhannessonar hefur orðið ,,skellur” horfið úr orðabók íslenska landsliðsins. Ef frá er tekinn fyrsti leikur landsliðsins undir hans stjórn, 3-0 tap gegn Dönum á útivelli haustið 2007 sem kom í kjölfar hörumungarinnar í Liechtenstein, hefur Ísland aldrei tapað með meira en tveggja marka mun í síðustu 30 leikjum liðsins. Það hefur aldrei áður gerst í sögu íslenska landsliðsins.

Auk þessi setti Ísland met undir stjórn Ólafs í 4-0 sigurleiknum gegn Andorra í maí síðastliðinn en það var fjórði leikur liðsins í röð þar sem markinu var haldið hreinu. Þrisvar sinnum áður hafði landsliðið náð að spila þrjá leiki í röð án þess að fá á sig mark, í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar og um miðbik níunda og tíunda áratugarins.

Stuðst var við tölulegar upplýsingar úr gagnagrunni ksi.is við vinnslu þessarar fréttar.
banner
banner
banner