Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 24. september 2010 07:04
Magnús Már Einarsson
Heimir Hallgrímsson: Erum ekki í þessari stöðu á hverju ári
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, segir leikmenn liðsins einungis einbeita sér að leiknum gegn Keflavík á morgun. Eyjamenn geta orðið Íslandsmeistarar með sigri ef að Blikar misstíga sig gegn Stjörnunni á sama tíma.

,,Við endum okkar á góðum nótum. Keflavík er það verðugur andstæðingur að við getum ekki leyft okkur að hugsa um neitt annað en þann leik. Það sem gerist annars staðar gerist annars staðar," sagði Heimir við Fótbolta.net í gær.

Keflvíkingar unnu síðasta heimaleik sinn gegn Val og Heimir býst við erfiðum leik.

,Þeir eru búnir að spila fína leiki og vilja örugglega enda tímabilið með sigri á heimavelli," sagði Heimir sem vill fá góðan stuðning á morgun.

,,Ég ætla að vona að það verði svolítið af Eyjamönnum á þessum leik. Við erum ekki í þessari stöðu á hverju ári að eiga möguleika. Það er búinn að vera rosalega góður stuðningur við liðið og ég vona að hann verði ekki minni í Keflavík."

Eyjamenn fara frá Vestmannaeyjum í dag og æfa á höfuðborgarsvæðinu fyrir leikinn á morgun.

,,Við höfum gert þetta í sumar. Við höfum farið deginum á undan og gist saman og tekið æfingu í Reykjavík. Við æfum saman á morgun (í dag) og þetta er hefðbundið hjá okkur," sagði Heimir að lokum.
banner
banner