Framherjinn knái Björgólfur Takefusa er á förum frá KR en þetta staðfesti hann við Fótbolta.net í dag. Björgólfur á eitt ár eftir af samningi sínum við Vesturbæjarfélagið en hann býst við að fara.
,,Það er vilji beggja aðila að slíta þessu samstarfi," sagði Björgólfur við Fótbolta.net í dag.
,,Ég er búinn að vera lengi þarna og eiga góða og slæma tíma. Ég vona að ég sé búinn að skila ágætri vinnu. Ég er allavega búinn að skila einhverjum mörkum og það á að vera mitt starf."
,,Þetta er hundfúlt og hundleiðinlegt en ég er búinn að hafa mjög góðan tímann í sumar til að sitja á rassgatinu, hugsa málið og sætta mig við ýmsa hluti," sagði Björgólfur sem var mikið á bekknum síðari hluta tímabils.
,,Ég held að það sé enginn leikmaður sáttur við að vera á bekknum en það er langt frá því að vera einhver ástæða fyrir þessu."
Björgólfur hefur verið orðaður við nokkur félög en hann ætlar að skoða sín mál vel.
,,Þegar þú ert að vinna í einhverju máli þá vilt þú vinna það hratt og vel. Þú verður aftur á móti að sjá hvort það sé hægt að vinna hin og þessi mál hratt eða rólega. Aðalatriðið að vinna það vel."
,,Ég ætla að reyna að gera þetta rétt þannig að maður geti farið að hafa aðeins meira gaman að þessu og njóta þess að spila þessa skemmtilegu íþrótt."
Björgólfur, sem er þrítugur, hefur leikið með KR frá því árið 2006 og skorað grimmt.
Sumarið 2008 skoraði hann fjórtán mörk og í fyrra fékk hann gullskóinn eftir að hafa skorað sextán mörk. Í sumar skoraði hann síðan sex mörk í nítján leikjum.