Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 11. október 2010 11:17
Karitas Þórarinsdóttir
Fyrsti Íslendingur til þess að fara út í norskan fótboltaeinkaskóla
Mynd: Diljá Helgadóttir
Mynd: Diljá Helgadóttir
Það er alls ekki algengt að vera 16 ára stelpa og vera búin að finna það sem þig langar að gera í framtíðinni. Diljá Helgadóttir sem hefur spilað með HK á sjálf allan heiðurinn að þessu ævintýri sem hún er að fara að leggja af stað í. Hana langaði að gera eitthvað í málinu til að fleiri stúlkur sem eiga sama draum og hún geta fylgt eftir og hafði samband við Fótbolta.net sem ákvað síðan að birta við hana lítið viðtal eftir að hafa spjallað við hana.

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að fara út í fótboltamenntaskóla til að elta drauminn og markmiðin þín?
,,Ég á vini sem eru úti í Noregi í skíðamenntaskóla og mig langaði að gera það sama og þeir eru að gera nema bara fótboltalega séð. Ég fór því að leita að skóla og fann einn og þá var engin leið til baka, þetta er það sem mig langar að gera.“ ,,Ég sendi þeim póst og myndir og þeir eru búnir að vera í miklu e-mail sambandi við okkur frá Noregi og töluðu við foreldra mína og vildu fá mig út eins fljótt og hægt er."

En Diljá fór í nóvember á seinasta ári til æfinga hjá fótboltafélaginu Stabæk og skoðaði á þeim tíma menntaskólann og æfði einnig með þeim þar.
,,Ég fór einmitt út í fyrra, það var mjög gaman ég æfði tvisvar til þrisvar á dag eins og atvinnumaður. Þá vissi ég að þetta var það sem mig langaði að gera í framtíðinni."

Diljá stundar í augnablikinu nám við Verzlunarskóla Íslands en er tilbúin til þess að fórna því enda segir hún fótbolta alltaf vera númer eitt.
,,Ég fékk svo símtal í síðustu viku frá þeim, þar sem þeir sögðu að ef ég kæmi í nóvember þá ætla þeir að bjóða mér í æfingaferð til Tyrklands eða í æfingabúðir til Þýskalands með skólanum. Norges topidrett gymnas er mjög virtur einkaskóli í Noregi og því mikil heiður að hafa fengið þetta boð og tækifæri."

,,Þetta er allavegana klárlega draumurinn og ég er viss um að þetta mun hjálpa mér í að ná mínum markmiðum en nú eru mikilvægustu árin til þess að bæta sig í fótbolta og það er undir mér sjálfri komið hversu góð ég ætla að vera!"

Það tekur aðeins þrjú ár að klára menntaskólann sem hún er að fara í, en hún flytur út alveg ein, ertu ekkert smeik við að fara ein út svona ung?
,,Nei ég er bara ótrúlega spennt fyrir þessu öllu og það skemmir ekki fyrir hversu sjálfstæð ég er.”

Þú átt að baki einn landsleik með U-17 ára landsliðinu er það ekki líka inn í markmiðum þínum að ná langt þar?
,,Jú, það er markmið mitt að spila meira með landsliðinu og komast í A-landsliðið, en ég fékk góða reynslu þegar ég spilaði með landsliðinu á móti Færeyjum og þar var mikið sem ég hef lært af, en þær eru búnar að fara á önnur mót í millitíðinni svo ég vona að ég fái annað tækifæri með þeim.”

En hvað er það sem að hefur haft svona mikil áhrif á þig að þig langar að ná svona langt?
,,Ég er fyrst og fremst fegin að geta átt svona miklar fyrirmyndir eins og Margréti Láru, Söru Björk, Katrínu Jóns og fleiri. Þær eru allar svo miklar fyrirmyndir, eru heilbrigðar, metnaðargjarnar og hafa náð langt. Þannig langar mér líka að vera í framtíðinni".
banner