Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   fös 31. desember 2010 15:27
Hafliði Breiðfjörð
,,Víkingur verður besta knattspyrnulið Íslands eigi síðar en 2014''
Helgi Sigurðsson framherji Víkings fagnar sigri í 1. deildinni í sumar.
Helgi Sigurðsson framherji Víkings fagnar sigri í 1. deildinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Stjórn Knattspyrnudeildar Víkings hefur sett sér skýrt markmið þess efnis að Víkingur verði besta knattspyrnulið Íslands eigi síðar en árið 2014.

Þetta kemur fram í nýárskveðju sem Knattspyrnudeild Víkings sendi velunnurum sínum eftir miðnætti.

Víkingur vann 1. deild karla í sumar og mun leika í Pepsi-deildinni í sumar. Formaður félagsins hefur áður sagt að stefnan sé að komast í Evrópukeppni á næstu tveimur árum en markmiðið samkvæmt þessu nær enn hærra.

Hér að neðan má sjá kveðjuna þar sem Víkingar reyna að berja krafti í sína menn og hvetja þá til að taka þátt í þessari vinnu og styðja liðið.

Nýárskveðja frá Knattspyrnudeild Víkings

Kæru Víkingar,

Næsta ár er eitt mikilvægasta ár okkar Víkinga í mörg ár. Það skiptir gríðarlega miklu máli að félagið festi sig í sessi í efstu deild í knattspyrnu. Slíkt skiptir sköpum fyrir Víking.

Við erum með frábært og einstakt félag í höndunum – sterkan grunn sem er samansettur af 102 ára sögu, sigrum og mótlæti, mörgum kynslóðum, miklum fjölda félagsmanna, öflugu hverfi, afar öflugri umgjörð og mikilli samheldni í knattspyrnuhluta félagsins.

Það hafa ekki mörg félög slíkan grunn að byggja ofan á – Víkingur á slíkan grunn. Ofan á þennan sterka grunn okkar þurfum við að bæta fullkomnu sjálfstrausti og skýrum markmiðum. Trúin á getu okkar sem félags og hvert við ætlum okkur.

Sterkur grunnur er til einskis ef ekki eru háleit markmið og háleit markmið eru ekki til neins ef ekki er sjálfstraust til staðar til að tryggja að þau náist.

Víkingur kemur sterkur inn í efstu deildina – við þekkjum þetta umhverfi vel. Félagið er eitt af fimm félögum á Íslandi sem hampað hafa 5 meistaratitlum eða fleiri. Víkingur er eitt af stóru félögunum á Íslandi. Höfum það að leiðarljósi í allri okkar vinnu. Það sem við þurfum að tryggja er að háleitu markmiðin og sjálfstraustið sé ávallt til staðar.

Háleitu markmiðin og sjálfstraustið þurfa að ná til allra, ekki bara til þjálfara og leikmanna meistarflokks sem munu verða í framlínu verkefnisins heldur til allra Víkinga hvar sem þeir eru í starfinu. Hver og einn Víkingur verður að finna til ábyrgðar og skila sínu. Ef allir gera það munum við uppskera ríkulega og afar spennandi hlutir verða að veruleika. Það þurfa allir að vera tilbúnir.

Markmiðið er skýrt – Víkingur verður besta knattspyrnulið Íslands eigi síðar en árið 2014. Vinnan hófst fyrir 3 árum en nýr kafli hefst strax eftir áramót í þessari vinnu okkar er undirbúningur fyrir átökin í PEPSI deildinni hefst af fullum krafti.

Víkingar nær og fjær – við skorum á alla að styðja þétt við bakið á okkur. Styðja liðið okkar, taka þátt í starfinu og tryggja að liðsheildin jafnt innan sem utan vallar verði þétt og sterk í gegnum allt verkefnið.

Knattspyrnudeild Víkings óskar öllum Víkingum heilsu og hamingju á árinu 2011 um leið og við þökkum ómetanlegan stuðning á árinu 2010.

Víkingar stöndum saman og förum alla leið.

Áfram Víkingur.

Knattspyrnudeild Víkings.
banner
banner