Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 28. febrúar 2011 08:30
Fjalar Þorgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Dýrasta lið landsins
Fjalar Þorgeirsson
Fjalar Þorgeirsson
Eftir að hafa séð nokkra grafalvarlega pistla hér á síðunni ákvað ég að reyna að létta lundina hjá fólki skrifa einn pistil sem er ekki á alvarlegu nótunum og á ekki við nein rök að styðjast nema huglægt mat pistlahöfundar.

Hver hefur ekki ímyndað sér að stilla upp knattspyrnuliði með dýrum úr dýraríkinu? Og hvað þá að líkja dýrunum við þekkta íslenska leikmenn? Kannski ekki margir en ég og annar leikmaður, sem reyndar spilar ekki með mér dag, fengum þessa hugmynd fyrir þremur árum og með því að vera orðinn pistlahöfundur var komið gott tækifæri til að sýna fólki þessar hugleiðingar okkar.

Við ákváðum að þetta góða lið myndi nota leikskipulagið 3-5-2 og vera skipað eftirtöldum dýrum / leikmönnum:

Markvörður: Ingvar Kale / Köttur


Við viljum hafa kött í markinu sem getur flogið stanganna á milli á eftir boltanum. Ingvar Kale passar vel inn í þessa lýsingu enda kattliðugur og svífur líkt og köttur eftir knettinum. Kötturinn gæti hins vegar átt í vandræðum með fyrirgjafirnar ólíkt Ingvari.

Miðvörður: Kristján Hauksson / Naut


Mikilvægt er að einn af miðvörðunum sé sterkur skallamaður. Nautið sleppur engum manni framhjá sér og stangar alla bolta í burtu. Þessi lýsing á vel við Kristján Hauksson fyrirliða Fram enda grjótharður varnarmaður þar á ferð. Reyndar eru gallar við að hafa nautið ef mótherjar, dómarar eða flagg aðstoðardómara eru rauð gæti nautið hlaupið mikið úr stöðu og jafnvel fengið rautt spjald mjög fljótlega. Þessi skýring á reyndar ekki við um Kristján þar sem hann er agaður varnarmaður og ekki hefur allt á hornum sér eins og nautið stundum gerir.

Miðvörður: Lax / Daníel Laxdal


Lax er kannski ekki fyrsta dýrið sem ykkur dettur í hug þegar þið hugsið um miðvörð en hver er betri í að fagna marki en laxinn? Daníel Laxdal er þeim eiginleikum gæddur að geta fagnað eins og laxinn, heita sama nafni ásamt því að vera mun betri miðvörður en lax.

Miðvörður: Fíll / Atli Sveinn Þórarinsson


Fíllinn er stærsta landdýrið í dýraríkinu og ekki ónýtt að hafa hann til að binda vörnina saman. Eins og við sjáum á myndinni hefur hann einnig góða boltatækni. Atli Sveinn er stór og mikill miðvörður en hefur töluvert meiri hlaupagetu en fíllinn. Þeir eiga það reyndar sameiginlegt að enginn leikmaður kemst framhjá þeim.

Kantmaður: Antílópa / Pétur Georg Markan


Mikilvægt er að kantmennirnir séu eldfljótir líkt og antílópa. Pétur Markan passar fullkomlega inn í þessa lýsingu enda eldfljótur og hleypur varnarmenn af sér í hverjum leik ásamt því að koma sér í marktækifæri. Það skiptir engu máli á hvorum kantinum antílópan er þar sem hún er jafnvíg á alla fætur.

Kantmaður: Curly Retriever / Matthías Guðmundsson


Retrieverinn er fljótur líkt og Matthías og ekki skemmir það fyrir að þeir eru svipaðir til hársins. Báðir eru þeir tryggir og halda því leikskipulagi mjög vel. Þetta eru kostir sem eiga að prýða hvern kantmann. Reyndar þyrfti dómarinn að hafa sérstaka hundaflautu svo Retrieverinn tæki mark á honum. Matthías hlýðir hins vegar venjulegri dómaraflautu mjög vel.

Miðjumaður: Vinnuhestur / Halldór Hermann Jónsson


Hvert knattspyrnulið þarf vinnuhest á miðjuna. Halldór Hermann er líklega orkumesti og úthaldsbesti leikmaður Pepsi-deildarinnar og því kom enginn annar til greina í þessa stöðu. Þeir skeiða báðir upp og niður völlinn í 90 min.

Miðjumaður: Strútur / Gunnar Már Guðmundsson


Ekki allir vita að strúturinn getur orðið allt að 275 cm á hæð sem er u.þ.b. hæð Gunnars Más. Þeir hafa einnig svipað langa fætur. Reyndar getur strúturinn náð allt að 70 km hraða á klst (já, þetta er satt. Googlaðu bara) en Gunnar nær einungis 50 km/klst. Þessi hæð og hraði nýtist vel á miðjunni ásamt því að strúturinn nær einkar góðu sambandi við vinnuhestinn. Gunnar tekur reyndar ekki upp sið strútsins að stinga höfðinu í sandinn/grasið þó á móti blási í leikjum.

Fremsti miðjumaður: Gamall refur / Tryggvi Guðmundsson


Í sókninni er gott að hafa einhvern sem kann öll trixin í bókinni og er eldri en tveir vetur í boltanum. Gamli refurinn varð fyrir valinu hjá okkur enda klókur og hugsar fleiri leiki fram í tímann en önnur dýr. Tryggvi Guðmundsson hefur lifað tímana tvenna, ef ekki þrenna, í boltanum og kann gjörsamlega öll brögðin í bókinni og á það jafnvel til að búa ný til. Myndin af refnum sýnir hann með umbúðir líkt og Tryggvi er með á hendinni í dag. Refurinn á myndinni lenti reyndar í rangstöðugildru og brotnaði við það.

Sóknarmaður: Hákarl / Helgi Sigurðsson

Hákarlinn er árásargjarn og um leið og hann veit af bráðinni er ekki af sökum að spyrja. Frábær kostur í framlínuna. Helgi Sigurðsson hefur verið nefndur hákarlinn í boltanum hér á landi í mörg ár einmitt út af þessum kostum. Hákarlinn gæti reyndar tekið upp á því í miðjum leik að éta laxinn og þá væri illt í efni.

Sóknarmaður: Gammur /Hjörtur Hjartarson


Gammurinn er ómissandi leikmaður í hvert lið. Hann tekur afgangana og býr sér til mat úr þeim. Ekki skemmir það fyrir að vera með hákarl sér við hlið því nóg er af afgöngunum í kringum hann. Hjörtur Hjartarson er gammurinn í íslenska boltanum í dag. Emilio Butragueno Íslands. Þefar upp marktækifærin í teig andstæðingana og skorar ógrynni af mörkum. Man ekki eftir því að hann hafi skorað mark fyrir utan teig en þau eru mörg innan hans sem hann hefur skorað.

Þjálfari: Ólafur Þórðarson / Ugla


Ólafur fékk sjálfur að velja sér dýr og varð ugla fyrir valinu hjá honum. Hann sagðist hafa valið hana því hún væri alltaf svo þungt hugsi. Hann yrði líklega nokkuð hávær ugla en ekki fara sögur af því hvort hann ætli að hanga á hvolfi í varmannaskýlinu líkt og uglan getur gert.

Ég þakka fyrir mig og vona að allir, og sérstaklega þeir sem voru valdir í liðið, hafi haft gaman af þessu bulli.
Fjalar Þorgeirsson
banner
banner
banner
banner