mán 21. mars 2011 09:00
Hafliði Breiðfjörð
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Hefði mátt koma í veg fyrir lætin í Fram - Valur?
Hafliði Breiðfjörð
Hafliði Breiðfjörð
Hvernig gat það gerst að leikur Fram og Vals í Lengjubikarnum leystist upp í svo mikla vitleysu að sjö menn fengu brottvísun, og hefði ekki verið hægt að komast hjá því með smá rökhugsun?

Það er eðlilegt að maður sé eitt stórt spurningamerki í framan eftir þennan leik og skilji ekkert í að dómaranefnd KSÍ hafi sett dómara á leikinn sem var eins reynslulaus í leikjum liða úr efstu deild og raun bar vitni og það sama má reyndar segja um allt dómarateymið.

Þegar hugsað er út í þennan leik verður að byrja á að hugsa út í forsöguna, ekki bara voru að mætast þarna lið Fram og Vals sem hafa ýmsa hildina háð utan vallar undanfarin ár og mikill hiti þar á milli greinilegur öllum þeim sem vilja sjá.

Heldur einnig sökum þess að það eru ekki nema örfáar vikur síðan leikmaður Fram réðist á leikmann Vals á skemmtistað í borginni með þeim afleiðingum að Valsmaðurinn slasaðist í andliti og varð að leita á slysadeild.

Málið var leyst þeirra á milli með skaðabótagreiðslu í stað kæru en þetta mál er á allra vörum og ljóst að dómari leiksins og fleiri vissu af því fyrir leik. Leikmennirnir voru svo báðir í byrjunarliðum sinna liða á föstudagskvöldið þegar leikurinn hófst þó svo annar þeirra, þolandinn, hafi fengið að fara snemma í bað.

Dómaranefnd KSÍ ákvað að verðlauna Sigurhjört Snorrason með því að gefa honum stærri leik og hefði betur hugsað út í hvað var farið með forsöguna að leiðarljósi, á þennan leik varð að setja dómara í fremstu röð til að forðast læti.

Reyndar byrjaði fjörið aðeins fyrr en sögur fara af því áður en liðin gengu út á völl deildi dómarinn við Harald Björnsson markvörð Vals um hvar hann ætti að vera í röðinni yfir þá leikmenn Vals sem gengu inn á völlinn. Sigurhjörtur vildi að Haraldur væri annar í röðinni en markvörðurinn vildi vera aftar. Eftir að hafa bent honum á að leikurinn hæfist ekki fyrr en hann væri orðinn annar í röðinni gaf Haraldur eftir.

Það þarf ekkert að fara frekar út í atvik leiksins sem slíks, það er búið að fjalla um þau nú þegar. Fimm leikmenn fengu brottvísun, starfsmaður á bekk hvors liðs fyrir sig líka, og peningar flugu úr áhorfendastæðum. Það er vonlaust að reyna að halda því fram að allt hafi verið í lagi á leik sem inniheldur þetta allt og þá sér í lagi leik í æfingamóti í mars.

Auðvitað er eðlilegt að verðlauna dómara fyrir góð störf, en það má ekki gerast á þennan hátt að þeim sé hent út í gjá sem er vonlaust að vinna sig upp úr eins og gerðist í þessu tilfelli. Það hjálpar engum, hvorki liðunum sem léku leikinn né dómara leiksins sem í raun var refsað með því að setja hann á leikinn.

Íslenskir dómarar hafa verið mikið í umræðunni undanfarna daga, fyrst þegar Jóhannes Valgeirsson var tekinn af lista yfir dómara og deildi opinberlega við varaformann KSÍ um ástæðu þess, því næst þegar þeir voru áminntir af framkvæmdastjóra KSÍ fyrir framkomu við busavígslu dómara þar sem nokkrir þóttu fara yfir strikið.

Svo kom þetta atvik á föstudagskvöldið sem verður að herma upp á dómaranefndina sem velur dómarann á leikinn. Dómarar hafa oft kvartað yfir neikvæðri umræðu um sig en nú er ljóst að menn verða að taka til hjá sjálfum sér áður en bent er á þá sem bera fréttirnar á borð.
banner
banner
banner
banner