mið 23. mars 2011 08:00
Magnús Már Einarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Sá besti spilar ekki vörn
Magnús Már Einarsson
Magnús Már Einarsson
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Heiðar Helguson og félagar í QPR eru á góðri leið með að tryggja sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Sá leikmaður sem hefur dregið vagninn fyrir QPR á þessu tímabili er Adel Taarabt sem var um helgina útnefndur leikmaður tímabilsins í Championship deildinni.

Taarabt er afar áhugaverður leikmaður en hann hefur náð að springa út í vetur. Þessi 21 árs gamli Marokkómaður gekk í raðir Tottenham árið 2007 og var þá kallaður hinn "nýi Zidane". Það boðar yfirleitt ekki gott að vera kallaður því nafni, spyrjið bara Bruno Cheyrou fyrrum leikmann Liverpool.

Taarabt átti eftir að kynnast því að þessi nafnbót er ekki góð en hann átti erfitt uppdráttar hjá Tottenham. Hann var ekki inni í myndinni hjá Juande Ramos sem lét hann ekki einu sinni fá númer. Þegar Harry Redknapp tók við breyttist staðan lítið og á endanum fór Taarabt til QPR á láni.

Taarabt gekk ágætlega hjá QPR til að byrja með en hjólin fóru fyrst að snúast fyrir alvöru þegar hörkutólið Neil Warnock tók við liðinu fyrir ári síðan. Warnock sá strax hversu hæfileikaríkur leikmaður Taarabt er og hann tók leikmanninn undir sinn verndarvæng.

Á ekki að fá boltann fyrir aftan miðju:
Warnock keypti Taarabt frá Tottenham síðastliðið sumar, gerði hann að fyrirliða og smíðaði leikkerfi QPR að miklu leyti í kringum leikmanninn. Taarabt hefur í vetur verið í mjög frjálsu hlutverki fyrir aftan Heiðar Helguson í 4-2-3-1 leikkerfi QPR.

Hann er í það frjálsu hlutverki að varnarleikur er eitthvað sem Taarabt þarf lítið sem ekkert að hugsa um og Warnock vill helst ekki sjá hann fara mikið aftur fyrir miðju. Warnock hefur meira segja sagt leikmönnum QPR að þeir verði sektaðir ef þeir gefa boltann á Taarabt á sínum eigin vallarhelmingi því leikmaðurinn á að sýna töfra sína á hinum helming vallarins.

Það hefur hann svo sannarlega gert í vetur því samtals hefur Taarabt skorað fimmtán mörk og lagt upp ennþá fleiri. Mörg af mörkunum hafa komið með glæsilegum langskotum eða eftir einstaklingsframtak og oftar en ekki hefur Taarabt náð að galdra eitthvað fram þegar mest á reynir.

,,Það er mjög erfitt að hafa stjórn á mér":
Þrátt fyrir að vera fyrirliði QPR þá er Taarabt ólíkindatól og ekki hægt að segja að hann sé alltaf fyrirmynd inni á vellinum. Til að mynda brjálaðist hann eftir að hafa verið tekinn út af gegn Ipswich fyrr í vetur en þá sparkaði hann í vatnsflöskur og lét öllum illum látum. Í markalausu jafntefli gegn Hull í janúar var Taarabt einnig illa fyrir kallaður en hann labbaði um völlinn pirraður áður en hann heimtaði að vera tekinn út af.

Warnock hefur hins vegar heilt yfir náð því besta út úr Taarabt í vetur en leikmaðurinn er sjálfur nánast orðinn einn af fjölskyldu stjórans. ,,Ég hef fundið heimili og fjölskyldu. Eiginkona Warnock hefur passað upp á mig og krakkarnir hans hafa verið eins og fjölskylda mín. Ég get ekki útskýrt samband okkar. Stundum held ég að Guð hafi komið með þennan mann til mín, það er mjög erfitt að hafa stjórn á mér en Neil gerir það," sagði Taarabt sjálfur í viðtali í fyrradag.

Ef fram heldur sem horfir mun Warnock fá annað krefjandi verkefni á næsta ári en þá þarf hann að finna leið til að Taarabt nái að standa sig á meðal þeirra bestu í ensku úrvalsdeildinni. Þar er mun erfiðara að sleppa því að sinna varnarskyldu og leika á varnarmenn eins og þeir séu keilur en hvað sem gerist þá verður spennandi að fylgjast með Taarabt í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Meðal annars byggt á grein af BBC
banner
banner
banner
banner