Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   fim 24. mars 2011 10:00
Mist Rúnarsdóttir
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Með fimm kíló af tómötum og vaselín á geirvörtunum
Mist Rúnarsdóttir
Mist Rúnarsdóttir
Íslenska liðið fannst að lokum..
Íslenska liðið fannst að lokum..
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Mér hefur alltaf fundist gaman að ferðast og það er engin undantekning á því þegar ég hef farið í ferðir á vegum Fótbolta.net og fylgst með landsliðunum okkar. Vissulega er mestum tíma þá eytt í kringum íslenska liðið og svo fyrir framan tölvuskjá en það breytir því ekki að ævintýrin eru aldrei langt undan. Ég var því mjög spennt þegar meistari Hafliði, framkvæmdastjóri Fótbolta.net, bar það undir mig að taka mér „frí" frá ferðalagi mínu í Tyrklandi og skella mér til Kýpur til að fylgjast með strákunum okkar.

Fyrsta æfing íslenska liðsins fór fram í gærkvöldi og erfitt var að finna nákvæmar upplýsingar um staðsetningu æfingavallarins. Það sem lá fyrir var að æfingin yrði haldin í Parekklisia, litlu þorpi fyrir utan ferðamannastaðinn Limassol.

Jú, það var svosem ekki mikið mál að komast í þorpið en þegar þangað var komið vandaðist málið þar sem fleiri en einn fótboltavöllur eru í nágrenninu. Ég fór fyrst á aðalvöllinn en þar var enginn – ef undan er skilinn dauður hundur sem lá fyrir aftan stúkuna og var ekki beinlínis gagnlegur greyið.

Ég rölti því yfir í litla matvöruverslun handan við hornið til að spyrjast fyrir. Búðareigandinn var einkar hjálpsamur. Hann var virkilega spenntur yfir því að ég væri frá Íslandi og þuldi upp hinar ýmsu „staðreyndir” um landið. Núna veit ég til dæmis nákvæmlega afhverju bankakerfið okkar hrundi, af hverju íslenskur fiskur er sá besti í heimi og af hverju Íslendingar eru bara 100.000!

Kappinn var svo áhugasamur um að hjálpa mér að hann hringdi í félaga sinn sem situr í stjórn Parekklisia-liðsins – sem bæðevei var að vinna sér sæti í kýpversku 2.deildinni um síðustu helgi. Stjórnarmaðurinn var mættur í búðina innan 5 mínútna og tilkynnti mér að íslenska landsliðið myndi leika æfingaleik gegn heimamönnum á aðalvellinum klukkan fimm. Mér fannst það heldur grunsamlegt en gaurarnir voru vissir í sinni sök og ekkert á því að leyfa mér að fara annað til að kanna málið.

Það var ekki fyrr en að leikmenn úr liðinu í næsta þorpi fóru að streyma að sem að þeir áttuðu sig á því að æfingaleikurinn var ekki við íslenska liðið heldur nágranna þeirra sem enn leika í 3.deild. Þegar þarna var komið sögu voru fleiri kýpverskir áhugamenn um íslenska knattspyrnu mættir á svæðið og þeir kappræddu á grísku um það hvernig þeir gætu aðstoðað mig. Þegar þeir sáu vallarstarfsmann renna í hlað ákváðu þeir að best væri að pína hann til að aka mér á „næstbesta” æfingasvæðið. Aumingja pilturinn gat lítið þrætt við karlana og neyddist til að skutla mér.

Mér leist ekki á blikuna þegar ég kom á nýja völlinn því hann minnti meira á kartöflugarð en fótboltavöll og var vel fyrir utan þorpið. Ég var föst úti í rassgati í roki og rigningu og var hundfúl yfir þessu klúðri. Þegar ég var við það að fara að reyna að húkka mér far til baka renndi bíll í hlaðið en þar var mættur einn af körlunum í búðinni. Hann tilkynnti mér að misskilningur hefði átt sér stað og að nú vissi hann hvar æfingin ætti að fara fram. Hann skaust með mig á þriðja völlinn en ég var ekki bjartsýn því þar var ekki sálu að sjá og stutt í æfingu.

Við völlinn voru þó tvö hús og ég ákvað að banka upp á og athuga hvort að einhver vissi eitthvað um þetta dularfulla mál. Þar tók á móti mér afar hress og almennilegur grænmetisbóndi sem einnig sagði mér allt um íslenska bankahrunið áður en hann hringdi í vin sinn, formann Parekklisia-klúbbsins, sem staðfesti að æfing íslenska liðsins færi fram á þessum velli. Ég andaði léttar þrátt fyrir að hafa enn ákveðnar efasemdir. Klukkan var orðin fimm og ég gat ekkert gert nema beðið og vonað, og jú, drukkið þetta líka ljómandi fína te með gaurnum og vinum hans. Við ræddum heimsmálin og urðum bestu vinir.. Og mikið varð ég afskaplega fegin þegar íslenska liðsrútan rúllaði í hlað að verða hálf sex. Vinir mínir voru leiðir að kveðja mig og leyfðu mér ekki að fara nema ég tæki með mér fullan poka af tómötum. Flott, ég elska tómata en veit reyndar ekki alveg hvað ég á að gera við nokkur kíló. Kannski að Víðir á Mogganum vilji nokkra?

Nóg um það. Íslenska liðið var mætt á svæðið og gaman var að sjá nokkrar stórglæsilegar mottur í tilefni mánaðarins. Piltarnir stóðu sig vel á æfingunni og fararstjórnin var hress á kantinum. Heyra mátti nokkur gullkorn, til að mynda vildi einhver meina að Líbía ætti landamæri að Kýpur – eyjunni Kýpur – á meðan annar leitaði að vaselíni til að bera á viðkvæmar geirvörtur..

Það var hellidemba þegar ég kom aftur til Limassol og gula regnhlífin kom sér vel. Á leiðinni á hótelið kom til mín maður á harðaspretti og bað mig vinsamlegast um að skýla sér frá regninu. Ég kunni nú ekki við að neita honum um það þó að bónin væri í undarlegri kantinum. Enn eina ferðina fékk ég útskýringu á íslenska bankahruninu – og komst jafnframt að því að þessi ágæti maður hafði verið í framlínunni hjá Parekklisia-liðinu sem rétt í þessu hafði sigrað erkifjendur sína 3-1 í æfingaleik.

Áfram Ísland!
banner
banner
banner