Í dag, 15. apríl 2015, eru liðin 26 ár frá slysinu hræðilega á Hillsborough sem varð 96 manns að bana þann 15. apríl 1989. Slysið átti eftir að hafa mikil áhrif á fótboltann. Í samantektinni hér að neðan rifjum við upp hvað gerðist þennan dag og í kjölfarið í máli og myndum. Athugið að neðst á síðunni kemur mikið af myndum frá atvikinu.
Harmleikurinn á Hillsborough
Það var 15. apríl 1989. Liverpool og Nottingham Forest voru að mætast í undanúrslitum enska bikarsins. Það var hlýtt í veðri og allar aðstæður eins og best væri á kosið. Þeir sem mættu á völlinn þennan dag gátu ekki ímyndað sér fyrirfram hvað átti eftir að gerast.
Leikurinn fór fram á Hillsborough vellinum, heimavelli Sheffield Wednesday, en undanúrslitaleikir bikarsins fara jafnan fram á hlutlausum velli.
Atburðarrásin hófst í raun um hálftíma áður en leikurinn hófst klukkan 15:00. Leikvangnum hafði verið skipt í tvo hluta, annar hlutinn fyrir stuðningsmenn Nottingham Forest, hinn fyrir stuðningsmenn Liverpool.
Einhverra hluta vegna hafði stuðningsmönnum Liverpool sem voru miklu fleiri verið úthlutað 6000 færri miðum en stuðningsmönnum Forest. Á þessum árum var ofbeldi enn til staðar á enskum knattspyrnuvöllum og því voru uppi girðingar til að halda stuðningsmönnum liðanna aðskildum á flestum völlum. Þetta átti eftir að fara illa með saklausa stuðningsmenn Liverpool.
Leikurinn stöðvaður
Fyrir utan Leppings Lane hluta stúkunnar sem hafði verið úthlutuð stuðningsmönnum Liverpool voru um 2000 stuðningsmenn sem komu seint úr ferðalagi sínu á leikinn og flýttu sér mikið til að missa ekki af neinu.
Ástæðu seinkunarinnar má rekja til vegaframkvæmda á leið þeirra sem seinkuðu rútunum sem fluttu þá á völlinn. Aðrir biðu þangað til á síðustu mínútu til að njóta sólarinnar og bættust við þá 2000 sem að lokum spiluðu stóra rullu í því sem átti eftir að gerast.
Korter í þrjú, aðeins 15 mínútum áður en leikur hófst hafði fjöldinn fyrir utan völlinn næstum tvöfaldast í um 5000 manns. Þrátt fyrir tilraunir lögreglu var augljóst að fjöldinn myndi aldrei ná inn í tíma. Vegna einhverra undarlegra ástæðna var ekki tekin ákvörðun um að seinka leiknum eins og svo oft er gert í dag heldur hófst hann á settum tíma.
Lögreglan ákvað hinsvegar að opna stóra hliðið upp á gátt og hleypa fjöldanum öllum inn. Þegar um 6 mínútur voru liðnar af leiknum hljóp lögreglumaður inn á völlinn og bað dómarann að stöðva leikinn og vísa leikmönnum liðanna til búningherbergja svo sjúkraliðar gætu athafnað sig á vellinum.
Ástæðan var sú að við það að þessir 5000 stuðningsmenn hópuðust inn í stúkuna krömdust þeir sem voru fremstir upp við hliðin. Leikmennirnir á vellinum heyrðu öskrin í þeim sem fremstir voru og börðust við að halda lífi sínu.
Björgunaraðgerðir settar á fullt
Allir fóru nú í að reyna að bjarga þeim sem börðust fyrir lífi sínu og slösuðum og látnum var komið fyrir á vellinum sjálfum. Kenny Dalglish knattspyrnustjóri Liverpool var látinn fara í kallkerfið á vellinum þar sem hann sagði: „Vinsamlegast reynið að vera róleg. Við erum að gera það besta fyrir ykkur."
Auglýsingaskilti sem voru umhverfisvöllinn voru brotin niður og notuð sem börur. Allir hjálpuðust að. Fleiri og fleiri sjúkrabílar tóku að streyma að og aðstoðuðu öryggisverði sem þegar höfðu verið á leiknum. En skaðinn var skeður. 94 manns höfðu látið lífið.
Anfield varð blómahaf
Dagana eftir slysið komu þúsundir manna á Anfield, heimavöll Liverpool, til að votta þeim látnu virðingu sína. Völlurinn breyttist í blómahaf. Leikmenn Liverpool voru duglegir við að heimsækja þá slösuðu og aðstandendur þeirra látnu eftir slysið og leikmenn liðsins, þjálfarar og framkvæmdastjóri skiptu á milli sín að vera viðstaddir jafðarfarirnar.
Þá var nokkrum leikjum Liverpool frestað um stund enda var hugur leikmannana annarsstaðar en við fótboltann eftir atburðinn. Margir vilja rekja brotthvarf Kenny Dalglish frá liðinu við þennan atburð en atvikið tók mjög á leikmenn liðsins.
Hverju er um að kenna?
Það er aðallega kunnáttuleysi lögreglunnar og þá sérstaklega aðstöðaryfirlögregluþjónsins David Duckenfield sem er kennt um hvernig fór og þá líklega vegna lítillar reynslu hans í svona stórleikjum en hann var sagður ekki hafa áttað sig á hvað var að gerast. Einnig mun hann hafa frosið þegar hann stóð frammi fyrir ákvörðun sem tók svona mörg líf.
Duckenfield var árið 2000 ákærður fyrir fyrir manndráp í tveimur ákæruatriðum. Hann var sýknaður af ákæruatriðunum, þá 58 ára gamall. Málið hafði þá staðið í tvö ár og kostað samtök lögreglumanna um 2 milljónir punda í lögfræðikostnað.
Yfir 50 aðstandendur þeirra sem létust voru við réttarhöldin allan tímann en ákváðu þó að áfrýja dómnum ekki. Mernard Murray sem var næst æðsti lögreglumaður á staðnum var einnig sýknaður af ákæru um manndráp.
Annar lögreglumaður, Martin Long, skaðaðist svo mikið andlega á að bjarga fólki á slysstað að hann fékk taugaáfall og þurfti mikla aðhlynningu og gat aldrei unnið aftur. Árið 2001 fékk hann 330 þúsund pund frá lögreglunni þar sem hann varð óvinnufær vegna slyssins. Aðstandendur þeirra sem létust fordæmdu þessa ákvörðun en til dæmis fékk Phil Hammond aðeins 3500 pund vegna andláts sonar síns í slysinu.
Sorpritið The Sun
Ekki að það sem hafði gerst hafi ekki verið nógu slæmt heldur hélt harmleikurinn áfram næstu daga með hræðilegri umfjöllun enska götublaðsins The Sun. Kelvin McKenzie þáverandi ritstjóri blaðsins sagði í forsíðufyrirsögninni: „Sannleikurinn" (The Truth).
Í greininni mátti svo lesa sögur af stuðningsmönnum sem stálu af líkunum og réðust að lögreglu, sjúkraliðum og slökkviliðsmönnum sem voru að reyna að sinna þeim slösuðu og þeim sem voru að deyja.
Blaðið sagði stuðningsmennina hafa slegið þá og sparkað í þá liggjandi. Þá var ónefndur slökkviliðsmaður sagður hafa haft eftir sér að látin stúlka hafi verið misnotuð og að migið hafi verið á þá látnu. Á bakvið greinina lá enginn sannleikur heldur aðeins viðleitni The Sun til að selja aðeins fleiri eintök af blaði sínu.
Blaðið vakti upp mikla reiði í Liverpool borg og víðar. Blaðið var brennt fyrir utan sölustaði á Merseyside. Fyrirsögnin er enn í minnum Liverpool manna, fjölskyldu þeirra sem létust og þeirra sem sluppu ómeiddir.
Enn þann dag í dag kaupa stuðningsmenn Liverpool ekki The Sun og sölutölur sanna að blaðið hefur aldrei náð sér aftur á Liverpool svæðinu enda eru margir blaðasalar í Liverpool sem neita enn að selja The Sun, 26 árum eftir slysið.
Til merkis um það nægir að benda á að áður en blaðið birti þessa forsíðu seldust yfir 200 þúsund eintök af því í Liverpool borg. Í dag seljast aðeins um 12 þúsund eintök á svæðinu.
Hatur á blaðinu er ekki bundið við stuðningsmenn Liverpool því erkiféndur þeirra í Everton sniðganga það líka. Því vakti það mikla reiði árið 2004 þegar Wayne Rooney fyrrverandi leikmaður Everton og nú leikmaður Manchester United seldi blaðinu sögu sína og eiginkonu sinnar. Eftir mikla reiði í kjölfar þess birti blaðið afsökunarbeiðni fyrir umfjöllun sína og forsíðuna árið 1989. Tveimur árum síðar sagði Kelvin MacKenzie að hann sæi ekki eftir neinu og hafi aðeins beðist afsökunar því eigandi blaðsins sagði honum að gera það.
Hatrið hefur samt ekki minnkað og má benda á það að fyrir tveimur árum hafði Carlsberg, aðalstyrkaraðili Liverpool, ætlað að gefa frímiða á bjór með The Sun. Stuðningsmenn liðsins brugðust reiðir við og Carlsberg hætti við og baðst afsökunar.
Aðrir fjölmiðlar
Fleiri götublöð á Englandi fóru í svipaðar slóðir og The Sun, til dæmis Daily Star sem birti sömu söguna og hafði eftir lögreglumönnum.
BBC seldi fyrir nokkrum árum sjónvarpsmyndir sínar af slysinu en ætlunin var að nota myndirnar til að sýna afleiðingar ofbeldis á knattspyrnuvöllum við litla hrifningu aðstandenda.
Árið 2002 birti ástralska karlatímaritið FHM myndasíður þar sem gert var grín að Hillsborough slysinu. Meðal myndatexta sem mátti sjá undir alvarlegum myndum af slysinu var: „Kaupendur biðu eftir að dyrnar opnuðust fyrir lokaárs útsöluna."
Myndirnar komu í kjölfar alvarlegra greina um slysið en vegna mikilla mótmæla var ákveðið að afturkalla blaðið úr sölu og Geoff Campbell útgáfustjóri blaðsins baðst opinberlega afsökunar á myndunum. Í kjölfarið ákvað útgefandi blaðsins að gefa minningarsjóði fórnarlamba slyssins peningagjöf.
Hverju breytti slysið?
Slysið átti eftir að hafa mikil áhrif á öryggi á knattspyrnuvöllum í kjölfar þessa. Rannsóknarnefndir voru látnar fara ítarlega í málin og sjá hvað betur mætti fara.
Í kjölfarið kom út svokölluð Taylor skýrsla sem varð til þess að meðal annars voru hliðin niður við vellina á Englandi fjarlægð, öll öryggismál og skipulag leikvangana endurskoðuð, aðeins leyft að selja miða í sæti sem varð til þess að leikvangarnir tóku mun færri áhorfendur en áður, lög hert gegn þeim sem seldu miða á svörtu og gegn þeim sem voru með blys á völlunum og margt margt fleira.
Viðbrögð annarra liða
Hillsborough harmleikurinn snerti ekki bara fólk á Englandi því einnig um allan heim. 19. apríl 1989, miðvikudaginn eftir slysið, mættust AC Milan og Real Madrid í undanúrslitum Evrópubikarsins. Þegar sex mínútur voru liðnar af leiknum stöðvaði dómarinn leikinn og lét fara fram mínútu þögn til minningar um þá sem létust á Hillsborough. Þegar mínútu þögnin var hálfnuð hófu stuðningsmenn AC Milan að syngja „You'll never walk alone," sem er lag stuðningsmanna Liverpool, til að votta virðingu sína.
Hér má sjá myndband af atvikinu
Leikur Liverpool gegn Arsenal var færður til loka tímabilsins og réði að lokum úrslitum um deildartitilinn. Fyrir leikinn gengu leikmenn Arsenal inn á völlinn með blóm og gengu með til stuðningsmanna Liverpool um allan leikvanginn.
Hér má sjá myndband af því
Fórnarlömbin
Samtals létust 94 þennan dag, 15. apríl 1989. 766 slösuðust og um 300 voru fluttir á sjúkrahús. Fjórum dögum síðar voru þeir látnu orðnir 95 þegar hinn 14 ára gamli Lee Nicol lést af sárum sínum. Í mars 1993 lést svo sá 96. Sá hét Tony Bland en hann hafði verið í dái í fjögur ár frá slysinu.
Af þeim 96 sem sem létust voru 89 karlkyns, 7 kvenkyns. Flestir voru undir þrítugu og þriðjungur undir tvítugsaldri. Sá yngsti sem lést var 10 ára drengur, frændi Steven Gerrard núverandi fyrirliða Liverpool. Samtals slösuðust 730 manns inná leikvangnum, 36 fyrir utan hann. Auk þessa alls má rekja fjölda sjálfsmorða til harmleiksins.
Panorama fréttaskýringaþáttur BBC gerði fyrir nokkrum árum áhugaverða umfjöllun um slysið og hvernig lögregla reyndi að fela staðreyndir í málinu og koma sökinni á stuðningsmenn Liverpool. Þáttinn má sjá hér að neðan.
Hér neðst á síðunni má sjá ýmsar myndir frá atburðinum en fyrst kemur talning nafna þeirra sem létust. Við vörum við sumum af þeim myndum sem má sjá að neðan sem eru ekki fyrir viðkvæma.
Fórnarlömb slyssins:
John Alfred Anderson (62)
Colin Mark Ashcroft (19)
James Gary Aspinall (18)
Kester Roger Marcus Ball (16)
Gerard Bernard Patrick Baron (67)
Simon Bell (17)
Barry Sidney Bennett (26)
David John Benson (22)
David William Birtle (22)
Tony Bland (22)
Paul David Brady (21)
Andrew Mark Brookes (26)
Carl Brown (18)
David Steven Brown (25)
Henry Thomas Burke (47)
Peter Andrew Burkett (24)
Paul William Carlile (19)
Raymond Thomas Chapman (50)
Gary Christopher Church (19)
Joseph Clark (29)
Paul Clark (18)
Gary Collins (22)
Stephen Paul Copoc (20)
Tracey Elizabeth Cox (23)
James Philip Delaney (19)
Christopher Barry Devonside (18)
Christopher Edwards (29)
Vincent Michael Fitzsimmons (34)
Thomas Steven Fox (21)
Jon-Paul Gilhooley (10)
Barry Glover (27)
Ian Thomas Glover (20)
Derrick George Godwin (24)
Roy Harry Hamilton (34)
Philip Hammond (14)
Eric Hankin (33)
Gary Harrison (27)
Stephen Francis Harrison (31)
Peter Andrew Harrison (15)
David Hawley (39)
James Robert Hennessy (29)
Paul Anthony Hewitson (26)
Carl Darren Hewitt (17)
Nicholas Michael Hewitt (16)
Sarah Louise Hicks (19)
Victoria Jane Hicks (15)
Gordon Rodney Horn (20)
Arthur Horrocks (41)
Thomas Howard (39)
Thomas Anthony Howard (14)
Eric George Hughes (42)
Alan Johnston (29)
Christine Anne Jones (27)
Gary Philip Jones (18)
Richard Jones (25)
Nicholas Peter Joynes (27)
Anthony Peter Kelly (29)
Michael David Kelly (38)
Carl David Lewis (18)
David William Mather (19)
Brian Christopher Mathews (38)
Francis Joseph McAllister (27)
John McBrien (18)
Marion Hazel McCabe (21)
Joseph Daniel McCarthy (21)
Peter McDonnell (21)
Alan McGlone (28)
Keith McGrath (17)
Paul Brian Murray (14)
Lee Nicol (14)
Stephen Francis O'Neill (17)
Jonathon Owens (18)
William Roy Pemberton (23)
Carl William Rimmer (21)
David George Rimmer (38)
Graham John Roberts (24)
Steven Joseph Robinson (17)
Henry Charles Rogers (17)
Colin Andrew Hugh William Sefton (23)
Inger Shah (38)
Paula Ann Smith (26)
Adam Edward Spearritt (14)
Philip John Steele (15)
David Leonard Thomas (23)
Patrik John Thompson (35)
Peter Reuben Thompson (30)
Stuart Paul William Thompson (17)
Peter Francis Tootle (21)
Christopher James Traynor (26)
Martin Kevin Traynor (16)
Kevin Tyrrell (15)
Colin Wafer (19)
Ian David Whelan (19)
Martin Kenneth Wild (29)
Kevin Daniel Williams (15)
Graham John Wright (17)