Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   lau 18. júní 2011 14:10
Matthías Freyr Matthíasson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ætlar þú ekki örugglega að mæta
Matthías Freyr Matthíasson
Matthías Freyr Matthíasson
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Það er laugardagurinn 29 september 1996. Ég stend í girðingunni við Akranesvöll, takið eftir að ég segi að ég standi Í girðingunni. Ég öskra og æpi og fagna ásamt gríðarlegum fjölda fólks, örugglega einum þeim mesta fjölda sem saman hefur komið á Akranesi.

Ástæðan....ÍA var að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn 5 árið í röð og það með stórkostlegum sigri á erkifjendunum í KR, ekki leiðinlegt það
.
Innanborðs í liði Skagamanna þennan dag var maður sem var búinn að vera einn af burðarásum liðsins þessi sigurár og var valinn leikmaður Íslandsmótsins tveimur árum áður. Sigursteinn Gíslason.

Það að alast upp á Akranesi á þessum seinni gullaldarárum ÍA var frábært, nema kannski að því leitinu til að ég gat ekkert í knattspyrnu en fylgdist þó með af ákafa og var Steini einn af hetjunum í liðinu.

Steini var, eins og ríkti á Skaganum á þessum tíma, mikill baráttuhundur og spilaði með hjartanu. Ekki eins og margir sem spila í dag, sem gera meira út á það að líta vel út á vellinum.

Steini gengur svo til liðs við erkifjendurnar í KR og vann titla með þeim, það er ekki eins minnistætt fyrir mér!.

En það hefur verið gaman að fylgjast með Steina undanfarin ár sem þjálfara og mátti litlu muna að hann færi upp með ghettóliðið í Leikni í Pepsídeild í fyrra eins og flestir vita. Hann smitaði drengina í Leikni af þessum baráttuanda sem einkenndi hann sem leikmann.

Steini er að taka þátt í sínum stærsta leik um þessar mundir, en hann er að glíma við krabbamein eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Ég vona og trúi að hann muni hafa betur í þessum leik, líkt og hann gerði ásamt félögum sínum í fjölmörgu leikjum á ferlinum.

En það eru einmitt félagar hans úr bæði ÍA og KR sem munu í dag, Laugardag, spila leik til styrktar Steina og fjölskyldu hans. Leikurinn fer fram á Akranesvelli og hefst kl 17:15 og kostar einungis 1.000 kr inn, frítt fyrir börn.

Þarna munu menn eins og Bjarki Gunnlaugsson, Bjarni Guðjónsson, Jóhannes Karl, Þórður Guðjóns, Brynjar Björn, o.fl. o.fl leika listir sínar. Ég hvet þig og alla sem þú þekkir til þess að mæta í stúkuna á Akranesvelli og horfa á frábæran fótboltaleik en síðast en ekki síst, leggja þitt lóð á vogaskálarnar til styrktar einum sigursælasta leikmanni Íslands.

Allir á völlinn og styðjum við bakið á sigurvegaranum Steina Gísla!

Tekið er á móti frjálsum framlögum
Reiknisnúmer: 0330-26-2569
Kennitala: 250668-5549

banner
banner
banner