Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   sun 19. júní 2011 14:00
Hafliði Breiðfjörð
Umfjöllun: Næstum 4 þúsund sáu jafntefli ÍA og KR
ÍA 2-2 KR:
1-0 Bjarni Guðjónsson ('18)
1-1 Einar Þór Daníelsson ('24)
1-2 Rúnar Kristinsson ('44)
2-2 Ólafur Þórðarson ('58)

Það var mikið um dýrðir á Akranesvelli í gærkvöld þegar stórveldin ÍA og KR mættust í góðgerðarleik sem settur var upp fyrir Sigurstein Gíslason fyrrverandi leikmann beggja liða sem nú glímir við krabbamein í nýrum og lungum.

Allt var eins og best var á kosið á Akranesvelli þennan fallega laugardag. Veðrið var frábært 15 stiga hiti, sól og algjört logn. Þegar áhorfendur mættu á svæðið mætti þeim grilllykt því spilafélagið Lúdó sem Sigursteinn er í sá um að grilla borgara og selja á meðan leik stóð.

En það var margt fleira gert til að hafa umgjörðina sem flottasta, besti vallarþulur landsins, Páll Sævar Guðjónsson sem hefur þótt frábær í sínu starfi hjá KR og íslenska landsliðinu var mættur á svæðið og kryddaði stemmninguna af sinni alkunnu snilld og húmor.

Í fréttamannastúkuna var mættur enginn annar en rauða ljónið, Bjarni Felixson sem lýsti leiknum í útvarp í gegnum Útvarp KR i til þeirra sem ekki áttu heimangengt. Stúkuna fylltu svo 3750 áhorfendur sem er fjórða mesta mæting sem sést hefur á Akranesvelli, aðeins leikur ÍA gegn Hamborgarúrvalinu árið 1954, gegn Raith Rovers í bikarnum á tíunda áratug síðustu aldar og stórleikur ÍA og KR til úrslita um Íslandsmeistarabikarinn árið 1996 fengu fleiri áhorfendur.

Eins og í leiknum árið 1996 var Guðjón Þórðarson við stjórnartaumana á liði ÍA og Willum Þór Þórsson stýrði liði KR í leiknum. Þeir höfðu í nægu að snúast enda margir leikmanna liðanna komnir af léttasta skeiði og þurftu því oft að skipta af velli til að ná andanum eða einfaldlega fá smá hlé til að geta slegið á létta strengi með gömlum félögum sem sátu á bekknum.

Leikurinn var líka flottur og í byrjunarliði ÍA var elstur Karl Þórðarson í búningi númer 7. Þrátt fyrir að vera á 56. aldursári virtist hann í frábæru formi og tók sprettina upp hægri kantinn og minnti á gamla tíma.

Bræðurnir Jóhannes Karl, Bjarni og Þórður Guðjónssynir voru allir í leikmannahópi ÍA en faðir þeirra hafði þá alla á bekknum til að byrja með. Þegar leið á leikinn komu þeir þó allir inn á völlinn og áttu fína spretti.

Leikurinn var 2x30 mínútur og Skagamenn komust yfir á 18. mínútu. Stefán Þór Þórðarson var þá í góðu færi vinstra megin í teignum og eftir smá darraðadans virtist boltinn á leið í net KR frá Atla Jónassyni markverði þegar Bjarni Guðjónsson kom á ferðinni og kláraði boltann í netið við mikinn fögnuð.

KR-ingar tefldu Einari Þór Daníelssyni fram í byrjunarliðinu og það var gaman að sjá hann mættann á fótboltavöllinn að nýju og ljóst að hann hefur litlu gleymt. Hann jafnaði metin á 24. mínútu með skalla eftir sendingu frá Hilmari Björnssyni.

Margt skemmtilegt gladdi augu viðstaddra sem gátu stundum ekki annað en hlegið að tilþrifunum. Bjarni Guðjónsson átti til dæmis skot nánast frá miðju sem minnti á frægt mark fyrir nokkrum árum en í þetta sinn fór boltinn framhjá.

Gunnar Einarsson miðvörður KR fékk að líta grænt kort frá Sævari Jónssyni dómara fyrir brot á Jóhannesi Karli Guðjónssyni en hlutirnir fóru svo að gerast um miðjan leikinn þegar þrjár tíur voru mættar á völlinn hjá KR, Heimir Guðjónsson, Rúnar Kristinsson og Ásmundur Haraldsson.

Heimir sló hreinlega í gegn hjá stúkunni. Hann er greinilega kominn af léttasta skeiði og hafði hraðann ekki með sér en taktarnir og hæfileikar með boltann og sendingar hafa aldrei verið meiri. Stúkan stóð upp og klappaði fyrir töktunum í honum og í staðinn sneri hann sér að stúkunni og hneigði sig.

Þó svo að úrslit leiksins séu skráð 2-2 endaði leikurinn 3-3 samkvæmt leikklukkunni því Páll Sævar vallarþulur fékk áhorfendur í mörg skipti til að taka bylgjur í stúkunni og verðlaunaði bæði lið um eitt mark fyrir frammistöðu áhorfendanna.

Þórður Þórðarson stóð í marki ÍA og átti flotta takta, varði meðal annars frábærlega frá Ásmundi Haraldssyni og hinum megin á vellinum var Atli Jónasson í markinu og stóð sig mjög vel.

Í hálfleik fór Sævar Jónsson dómari af velli og í hans stað mætti hinn gamalreyndi Sæmundur Víglundsson sem hafði greinilega farið upp á háaloft og fundið gamlan flottan dómarabúning sem minnti á gamla tíma. Sæmundur þurfti einu sinni að lyfta spjaldi í leiknum en það var blátt á lit og Heimir Guðjónsson fékk að líta það.

Rúnar Kristinsson sem allajafna er þjálfari KR þurfti að sætta sig við varamannshlutverk í leiknum en þegar hann kom inná virtist hann í fantaformi og væri eflaust vel þess fær að spila með KR liðinu í dag. Hann kom KR yfir á 44. mínútu þegar hann fylgdi eftir af harðfylgi eigin skoti sem Skagamenn hreinsuðu í hann og í markið.

Ólafur Þórðarson var virkilega flottur á vellinum í gær og það var hann sem sá um að tryggja það að heimamenn jöfnuðu metin í lokin. Þórður Guðjónsson átti þá frábært skot beint í samskeytin á markinu þaðan sem boltinn datt fyrir framan markið og Ólafur kom og setti hann yfir línuna.

Umfram allt snerist leikurinn þó um Sigurstein Gíslason sem glímir við baráttuna við krabbamein. Aðgöngueyririnn rann allur til hans og fjölskyldu hans en þeim sem vilja styrkja þau í baráttunni er bent á að tekið er á móti frjálsum framlögum áfram.

Reiknisnúmer: 0330-26-2569
Kennitala: 250668-5549


Hér að neðan má sjá hvernig Guðjón og Willum stilltu upp byrjunarliðum sínum en skiptingarnar voru frjálsar og fjölmargar. Því teljum við upp aðra leikmenn fyrir neðan liðin.

Maður leiksins: Ólafur Þórðarson, ÍA
Skemmtikraftur leiksins: Heimir Guðjónsson, KR
Áhorfendur: 3750
Aðstæður: Frábærar, sól og blíða og 15 stiga hiti. Sérpantað fyrir þennan dag.
Grænt spjald: Gunnar Einarsson, KR
Blátt spjald: Heimir Guðjónsson, KR
Dómarar: Sævar Jónsson í fyrri hálfleik Sæmundur Víglundsson í síðari

Byrjunarlið ÍA:
Þórður Þórðarson
Pálmi Haraldsson - Steinar Adolfsson - Ólafur Adolfsson - Kári Steinn reynisson
Alexander Högnason
Karl Þórðarson - Bjarki Gunnlaugsson - Ólafur Þórðarson - Haraldur Ingólfsson
Bjarki Pétursson

Aðrir leikmenn:
Gunnlaugur Jónsson, Reynir Leósson, Kári Steinn Reynisson, Bjarni Guðjónsson, Jóhannes Karl Guðjónsson, Þórður Guðjónsson, Stefán Þórðarson, Siggi Sigursteins,
Unnar Valgeirsson, Dean Martin.

KR:
Atli Jónasson
Sigþór Júlíusson - Þormóður Egilsson - Gunnar Einarsson - Þorsteinn Jónsson
Þórhallur Hinriksson
Einar Þór Daníelsson - Sigurvin Ólafsson - Guðmundur Benediktsson - Arnar Jón Sigurgeirsson
Sigurður Ragnar Eyjólfsson

Aðrir leikmenn:
Guðni Grétarsson, Björn Jakobsson, Hilmar Björnsson, Kristinn Hafliðason, Heimir Guðjónsson, Rúnar Kristinsson, Þorsteinn Halldórsson, Ásmundur Haraldsson, Þorsteinn Guðjónsson, Sæbjörn Guðmundsson, Salih Heimir Porca.
banner
banner