Breiðablik fær Rosenborg í heimsókn klukkan 18:45 í kvöld í síðari leik liðanna í Meistaradeildinni. Blikar töpuðu fyrri leiknum í Noregi 5-0 en Ólafur Kristjánsson þjálfari liðsins vonast eftir betri spilamennsku í kvöld.
,,Við ætlum að fara inn í leikinn og reyna að verja markið okkar betur en í Noregi augljóslega. Við ætlum að vera djarfari í því að nýta okkur þá sóknarmöguleika sem bjóðast," sagði Ólafur við Fótbolta.net í gær.
,,Þegar maður er búinn að horfa á leikinn aftur þá sér maður að við höfðum ákveðna möguleika. Það var 2-0 fram á 75. mínútu og alls ekkert útilokað að ná útivallarmarki. Það þarf kannski aðeins að sleppa handbremsunni og vera djarfari í því sem við erum að gera."
Eftir 3-2 tap gegn Stjörnunni sagðist Ólafur í viðtali við RÚV þurfa að skoða sína stöðu sem og þeir sem að liðinu standa.
,,Ég hef íhugað hvort ég geti ekki gert einhverja hluti betur. Það er alls ekki þannig að ég sé að fara að kasta handklæðinu í hringinn. Við þurfum að skerpa okkur á öllum sviðum, bæði inni á vellinum og utan vallar."
,,Við þurfum að vera betri í því sem við erum að gera allir, hvort sem það er sá sem blandar þann drykk sem menn drekka í leikjunum til þjálfarans og út í liðið," sagði Ólafur.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.