Kristinn Steindórsson framherji Breiðabliks skoraði annað marka liðsins í 2-0 sigrinum gegn Rosenborg í undankeppni Meistaradeildarinnar í kvöld. Kristinn var ánægður með spilamennsku liðsins.
„Það var fyrst og fremst jákvætt að halda hreinu í fyrsta skiptið í sumar og að gera það gegn Rosenborg, sem er þetta sterkt lið,“ sagði Kristinn við Fótbolta.net.
„Við sýndum það að við getum spilað flottan bolta og við þorðum því. Við vörðumst vel og vorum bara sterkari aðilinn í kvöld og áttum þennan sigur fyllilega skilinn. Eftir að hafa fengið skell í síðustu umferð ætluðum við ekki að fara að tapa 5-0 hérna og 10-0 samanlagt, við vorum staðráðnir í því að vinna og taka fyrsta sigur Breiðabliks í Evrópukeppni.“
Breiðablik tapaði fyrri leiknum úti 5-0 og var í raun ljóst að rimmunni var nánast lokið. Kristinn viðurkennir að reynsluleysið hafi tekið sinn toll í Þrándheimi.
„Þar vorum við ekki alveg búnir að átta okkur nógu vel á hlutunum, við gerðum svolítil byrjendamistök og þeir refsa fyrir það. En við vitum það klárlega núna að við getum þetta og við verðum bara að taka það jákvæða við þetta og halda áfram,“ sagði Kristinn við Fótbolta.net, en viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.