fim 15. september 2011 08:30
Magnús Már Einarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ísland á að stefna á EM 2016
Magnús Már Einarsson
Magnús Már Einarsson
Úr leiknum gegn Kýpur á dögunum.
Úr leiknum gegn Kýpur á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Mynd úr landsleik á Laugardalsvelli.
Mynd úr landsleik á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Góð stemning var á Kaplakrikavelli þegar U21 árs landsliðið sigraði Þjóðverja í fyrra.
Góð stemning var á Kaplakrikavelli þegar U21 árs landsliðið sigraði Þjóðverja í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Miðað við árangur íslenska landsliðsins undanfarin ár má segja að það sé bjartsýni að kalla eftir því að landsliðið komist á stórmót á næstu árum. Efniviðurinn er hins vegar klárlega til staðar og ef allir leggjast á eitt sé ég ekkert því til fyrirstöðu að Ísland verði á meðal þáttökuþjóða á EM í Frakklandi eftir fimm ár. Á því móti verða 24 þáttökuþjóðir eða tæplega helmingur af öllum þjóðum í Evrópu. Ísland þarf að setja háleit markmið stefna á að vera á meðal þáttökuþjóða í Frakklandi árið 2016.

Ljóst er að nýr landsliðsþjálfari verður ráðinn í haust og að mínu mati er kominn tími á erlendan þjálfara. Ráða á öflugan erlendan þjálfara og gefa honum tíma til að móta lið með það langtímamarkmið að Ísland komist á EM 2016. Á þeim tíma verða leikmenn sem voru í U21 árs landsliðinu á EM í sumar á hátindi ferilsins og ef rétt er haldið á spöðunum eiga þeir að geta borið uppi fyrsta íslenska landsliðið sem fer á stórmót.

Riðillinn í undankeppni HM 2014 er ekki sá erfiðasti sem Ísland hefur lent í undanfarin ár og þar er gott lag á að ná góðum úrslitum. Í þeirri undankeppni er hægt að móta framtíðarlið og vonandi enda ofarlega til að Ísland verði ekki í neðsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni EM 2016. Nýr þjálfari getur einnig prófað sig áfram og fundið réttu blönduna fyrir undankeppni EM 2016 þar sem markmiðið á að vera að fara áfram.

Það er auðvitað auðvelt að skrifa um þessa hluti og teikna þá upp en að sjálfsögðu gerist ekkert nema allir leggist á eitt. Það dugir ekki að ráða þjálfara og vona það besta því laga má fleiri hluti í kringum landsliðið. Alltaf er hægt að bæta umgjörðina í kringum liðið og það er eitthvað sem KSÍ á að setja metnað sinn í á næstu árum. Fjármál KSÍ hafa verið í góðum málum undanfarin ár og sambandið ætti að geta eytt auknum fjármunum í landsliðið á næstu árum. Þó að rekstur landsliðsins verði dýrari þá ætti á móti að vera auðveldara að fá styrktaraðila og pening í kassann ef árangurinn verður betri.

Áhugi almennings á landsliðinu er í sögulegu lágmarki í augnablikinu og stemningin á leikjum liðsins er oftar en ekki svipuð á leik í Pepsi-deildinni. Þessu þarf að breyta strax í næstu undankeppni. Fólk þarf að mæta á völlinn til að horfa á íslenska landsliðið vinna sigra en ekki einungis til að sjá fræga leikmenn í röðum andstæðinganna. Það er gömul saga og ný að stemningin á Laugardalsvelli er ekki nógu góð og ljóst er að afar erfitt verður að breyta því á meðan hlaupabraut er í kringum völlinn. Ísland hefur einungis unnið þrjá af fimmtán mótsleikjum á Laugardalsvelli frá því árið 2005 og í síðustu leikjum hefur stemningin verið lítil og í raun eins og á hlutlausum velli. Hlaupabrautin virðist ekki ætla að hverfa á næstunni þrátt fyrir litla notkun og því þarf að leita annarra úrlausna.

Kaplakrikavöllur er þjóðarleikvangur framtíðarinnar:
Þar sem erfitt er að breyta aðstöðunni í Laugardalnum vil ég sjá að leikir landsliðsins fari fram á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði í framtíðinni og vonandi frá og með undankeppni EM 2016 ef það er mögulegt. Klikkuð hugmynd segja eflaust einhverjir en að mínu mati myndi nást mun betri stemning þar enda eru áhorfendur nær vellinum. Auðvelt er að búa til góða stemningu eins og sást þegar U21 árs landsliðið vann frækinn sigur á Þjóðverjum á þessum velli í fyrra. Smala þarf saman helstu stuðningsmannahópum félaga á Íslandi og fá þá til að keyra upp stemninguna með skemmtilegum stuðningsmannalögum þar sem allir geta sungið með. Það á að vera skemmtun að mæta á landsleiki Íslands og skapa þarf þannig stemningu að fólk vilji koma á völlinn og styðja liðið.

Kaplakrikavöllur fyllir ekki öll skilyrði UEFA í dag en hægt er að eyða fjármunum næstu árin í að gera völlinn þann í stakk búinn að hann sé leyfilegur í undankeppni EM. Flóðljós vantar á völlinn og þá er nauðsynlegt að fjölga sætum eins mikið og mögulegt er. Einungis 3200 manns komast að á Kaplakrikavelli í augnablikinu en á næstu þremur árum ætti að vera hægt að stækka völlinn myndarlega. Þó að sætunum yrði fjölgað yrði KSÍ líklega fyrir einhverju tekjutapi á því að skipta um heimavöll en ég tel að það muni borga sig upp síðar meir með auknum áhuga á landsliðinu. Almenningur myndi keppast um að fá miða á völlinn og færri myndu komast að en vilja. Fækka mætti boðsmiðum og því yrðu tekjumunurinn ekki vera jafnmikill á þessari breytingu og ella. Ef vel tekst til er síðan möguleiki á að stækka Kaplakrikavöll ennþá frekar í framtíðinni þannig að áhorfendur geti setið allan hringinn enda er völlurinn tilvalinn sem þjóðarleikvangur Íslands.

Þrátt fyrir að færri áhorfendur verði á leikjum í Kaplakrika en á Laugardalsvelli fyrst um sinn þá verður stemningin alltaf mun betri og það ætti að hjálpa landsliðinu. Setið verður í hverju einasta sæti í staðinn fyrir hálftóman völl eins og gerðist á Laugardalsvelli í núverandi undankeppni. Gera þarf völlinn að „gryfju“ sem aðrar þjóðir hræðast að spila á en eins og staðan er í dag er ekkert ógnvekjandi fyrir aðkomulið að spila á Laugardalsvelli. Þó að færri komist að í Kaplakrika þá ætti að vera meiri líkur á að ná góðum úrslitum þar og það er það sem hefur vantað undanfarin ár.

Það að fara á EM 2016 er afar háleitt markmið en menn verða að setja markið hátt ef árangur á að nást. Ef Ísland ætlar einhverntímann á stórmót þá þýðir ekki að sætta sig við einn og einn sigur í hveri undankeppni og halda áfram í sama farinu. Um síðustu aldamót var íslenska liðið nálægt því að komast á stórmót og miðað við þá kynslóð sem er að koma upp eru allar forsendur fyrir því að Ísland geti náð sambærilegum eða betri árangri á næstu árum. Ekki er hægt að kvarta yfir því að efniviðurinn sé ekki til staðar, núna þarf að nýta hann!

Áfram Ísland!
banner
banner
banner
banner
banner