Orri Freyr Hjaltalín var nokkuð sáttur með stigið sem hann og liðsfélagarnir í Grindavík náðu gegn KR þegar liðin mættust í Pepsi deild karla í kvöld. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli í Vesturbænum og hafa Grindvíkingar farið taplausir í gegnum sjö síðustu leiki.
Lestu um leikinn: KR 1 - 1 Grindavík
„Ég held að við getum ekki verið annað en sáttir eins og þetta spilaðist, allavega í seinni hálfleik. Við náðum aldrei spilinu okkar almennilega í gang og við vorum ekki að skapa okkur mikið af góðum færum,“ sagði Orri Freyr við Fótbolta.net, sem viðurkennir að jöfnunarmark Óla Baldurs Bjarnasonar úr hjólhestaspyrnu hafi verið einkar glæsilegt.
„Hann skuldaði okkur þetta eiginlega. Hann er búinn að fá nokkur færi í sumar og fara nokkuð illa með þau, en þetta var náttúrulega alveg stórglæsilegt mark hjá drengnum.“
Orri Freyr er bjartsýnn á að Grindavík geti haldið sæti sínu í deildinni, en segir þó að menn þurfi að fara að breyta öllum jafnteflunum í sigra.
„Ég veit nú ekki alveg hvernig hinir leikirnir fóru í kvöld en öll stig telja og þetta var bara eitt stig í safnið fyrir okkur. Það er komið ágætis holning á liðið, við höfum nú ekki verið að fá á okkur mikið af færum nema í kvöld, en það er allt of mikið af jafnteflum í þessum leikjum. Við þurfum að fara að vera aðeins grimmari og fara að stela sigrunum.“