mán 17. október 2011 09:00
Guðmundur Þórarinsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
FM hnakkinn frá Selfossi á ekki roð í Tryggva Guðmunds
Guðmundur Þórarinsson
Guðmundur Þórarinsson
Þessa dagana eru leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Í dag er komið að ÍBV en Guðmundur Þórarinsson sá um að rita nokkur orð fyrir Eyjamenn en hann bætti um betur og samdi einnig lag í leiðinni.



Sæl og blessuð öll.

Hér sit ég og skrifa pistil um sumarið. Já ég. Guðmundur Þórarinsson 19 ára vinstri bakvörður/miðjumaður/sóknarmaður/kantari sem skoraði hvorki fleiri nér færri en núll mörk í 22 leikjum. Tryggvi hlýtur bara að hafa verið upptekinn fyrst að ég var beðinn um þetta.

Sumarið hjá ÍBV var skemmtilegt. Eins og allir vita var stefnan sett á titilinn fyrir tímabilið enda vorum við með hörkuhóp og þegar Gunnar Heiðar kíkti í heimsókn var kaffivélin sett í gang en hann vildi síðan bara eina Coca cola. Við vorum engu að síður með góðan mannskap og byrjuðum tímabilið vel og það var fljótt ljóst að við yrðum í baráttunni ásamt KR.

Þar sem ég var beðinn um að minnast á vonbrigði sumarsins ætla ég að byrja á því að tala um þau. Fyrst kemur upp í hugann rútuferðalag okkar frá Akureyri eftir tapleik gegn Þór rétt fyrir hléið í deildinni sem var gert vegna Evrópumóts U-21. Þetta var ekki eina fýluferðin okkar norður og má segja að fótboltalega séð hafi þetta verið eftir á að hyggja erfiðustu töpin í sumar ásamt því að við áttum engan draumaendi á mótinu. Annars fannst mér persónulega frekar lítið um vonbrigði nema þá kannski helst að það gleymdist að kenna Abel markmanni að þvo sér og fara í sturtu en hann er jú einmitt svona skemmtilega mikið við hliðina á mér inni í klefa. Svo má ekki gleyma tónlistarsmekk Tryggva Guðmundssonar sem sér um tónlistina í klefanum. Tryggvi er eins og allir vita 37 ára, sköllóttur fjögurra barna faðir og ég hélt að hans uppáhald væri þetta klassíska rokk. Þá er ég að tala um Iron Maiden, Queen og AC/DC og jafnvel smá Eric Clapton. Annað kom á daginn og Enrique Iglesias og Pitbull voru á fóninum í allt sumar sem gerði mann oft veikan og þrátt fyrir að ég telji mig grimman Fm hnakka frá Selfossi þá á ég ekki roð í þennan mann.

Ég verð að setja hérna á milli vonbrigða og gleðitíðinda fréttir þess efnis að það reis fótboltahöll í eyjum. Ástæðan er sú að ákveðnum aðilum leiddist ekki að hafa loksins fengið þetta frábæra hús og kom maður því oft bugaður heim af þriggja tíma æfingum á undirbúningstímabilinu þegar maður skellti sér til Eyja. Setningar eins og “Why lift ball!”, “Why Bad pass!”, “Why loose ball!” fengu að hljóma ásamt því að við fengum að heyra sögur af því hvað það væri nú frábært að fá að æfa þarna í staðinn fyrir gamla malarvöllinn þar sem að menn komu alblóðugir heim eftir tæklingar á þeim velli.

Það jákvæða við ÍBV var margt. Ég ætla bara að koma með nokkur dæmi hér í röð:

-Þórarinn Ingi fór á evrópumót.
-Tryggvi er markahæsti maður efstu deildar á Íslandi frá upphafi.
-Eiður Aron spilaði frábærlega og var seldur út.
-Við unnum 12 leiki í deildinni.
-Fórum í æfingaferð, þar voru Popovich og Lee 3. markmaður Haboel Tel aviv menn ferðarinnar. Ég ætla rétt að vona að hinir tveir markmennirnir meiðist ekki!
-Við spiluðum í Evrópukeppni
-Við komumst í Evrópukeppni
-Margir ungir og efnilegir strákar fengu séns og voru í hóp.
-Dragan kenndi okkur að hita upp.
-Heimir kenndi okkur vinnusemi, grimmd og gleði.
-Heimir er orðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari og óskum við honum innilega til hamingju með það. Ég hlakka til að heyra Eið Smára tala um slide-showin hans sem gera tilkall til Óskarsverðlauna.
-Yngvi Borgþórs er á lausu.
-Kvennaliðið stóð sig frábærlega.

Það er líka alltaf mikilvægt að horfa á fótbolta frá víðara sjónarhorni. Þessi leikur sem fótbolti er getur gefið fólki ótrúlega mikið og það er það sem ég skynjaði í sumar. Það var eintóm gleði í kringum ÍBV liðið og fullt af duglegu fólki sem kemur að þessu til að láta allt ganga upp. Þeir sem ég kynntist hvað best í kringum þetta eru að sjálfsögðu þjálfararnir og Gústi sjúkraþjálfari en ég verð líka að fá að nefna fyrir mitt leyti Óskar, Trausta, Hannes, Jóhan Svein og Óla Moreno sem vinna ásamt fleirum að sjálfsögðu frábært starf fyrir klúbbinn og getum við verið þeim þakklátir fyrir þeirra framlag.

Það er eflaust margt sem ég er að gleyma að minnast á en þetta er það sem kemur helst uppí hugann eftir sumarið. Það má svo ekki gleyma strákunum í liðinu, þeir voru allir frábærir og tóku mér opnum örmum í liðið og er ég þeim þakklátur fyrir það. Ég held að við höfum ekkert til að skammast okkar fyrir og getum gengið stoltir frá þessu sumri. Við stóðum okkur mjög vel en það er samt margt hægt að bæta og það er að sjálfsögðu stefnan.

Ég læt svo þetta lag fylgja með sem ég tók á lokahófi ÍBV. Þetta er einkahúmor í bland við húmor um nánast alla leikmenn ÍBV liðsins samið við þekkt íslenskt lag. Við sjáumst svo í stuði næsta sumar.

Guðmundur Þórarinsson.

Sjá einnig:
Jóhann Laxdal (Stjarnan) - Nú er mómentið
Sigurbjörn Hreiðarsson (Valur) - Afmælisgjöfin kemur síðar
Sigmar Ingi Sigurðarson (Breiðablik) - Mætti með jólaseríu í staðinn fyrir takkaskó á æfingu
Kristján Valdimarsson (Fylkir) - Þið eruð bara helvítis kæglar
Magnús Þórir Matthíasson (Keflavík) - Við ákváðum að prófa fallbaráttuna
Tómas Leifsson (Fram) - Með leikmann sem er með sveinspróf í fallbaráttu
Hafþór Ægir Vilhjálmsson (Grindavík) - Mjög erfitt að skilja þessa Skota
Sveinn Elías Jónsson (Þór) - Móralski dagurinn fór aðeins úr böndunum
Halldór Smári Sigurðsson (Víkingur R.) - Þetta átti sko að vera 2114, ekki 2014
banner
banner
banner