,,Willum (Þór Þórsson) heillaði mig fyrst og fremst. Ég er búinn að spila fyrir hann í tvö ár og mér finnst vera besti þjálfari landsins. Það sýnir gríðarlega mikinn metnað hjá Leikni að fá þjálfara eins og Willum," sagði Andri Steinn Birgisson við Fótbolta.net í gær en hann hefur ákveðið að leika með Leikni R. næsta sumar.
Andri yfirgaf herbúðir Keflvíkinga á dögunum og átti í kjölfarið í viðræðum við nokkur félög. Þar á meðal var uppeldisfélag hans Fjölnir.
,,Ég fór langt í viðræðum við Fjölni en við náðum ekki saman og því fór sem fór. Ég veit að Fjölnismenn eru mjög fúlir út í mig, ég á marga vini þar en þeir verða að horfa á mig í Barcelona búningnum þetta árið."
Andri hefur leikið með Keflavík undanfarin tvö ár en þessi 27 ára gamli miðjumaður hafði ekki áhuga á að leika áfram í Pepsi-deildinni.
,,Keflavík var ekki inni í myndinni, hvorki af þeirra hálfu né minni. Ég talaði við lið í Pepsi-deildinni en ég er kominn með nóg af leikdögunum í þessari deild eins og margir aðrir og það kom eiginlega ekki til greina að vera í Pepsi-deildinni."
,,Það er orðið mjög þreytt að geta ekki farið í sumarbústað og slakað á í korter án þess að vakna 9:15 til að fara á æfingu á laugardags eða sunnudagsmorgni. Ég geri mer grein fyrir því að það verður þannig líka í 1. deildinni en ekki jafnslæmt," sagði Andri Steinn sem stefnir á að fara upp með Leikni á næsta ári.
,,Að sjálfsögðu geri ég það. Ég er ekki að fara í slökun eða pásu. Ég mun æfa jafnmikið eða meira en undanfarin ár og vona að meiðsli munu ekki stoppa mig í því," sagði Andri.
Hér að ofan má sjá viðtalið i heild sinni.