Írinn John Andrews hefur skrifaði undir tveggja ára samning við Aftureldingu um að þjálfa kvennalið félagsins áfram en hann hafði tekið við liðinu á miðju sumri 2010 og stýrt því út tímabilið.
Undir sjórn John’s náði liðið mjög góðum árangri síðastliðið sumar, en það endaði í 7 sæti í deildinni auk þess að komast í 4ra liða úrslit í Valitor bikarkeppninni.
,,Þessi árangur telst sérstaklega góður þar sem enn fer fram mikið uppbyggingarstarf í Aftureldingu og var að jafnaði helmingur leikmanna liðsins ungir uppaldir leikmenn. Þessi árangur náðist þrátt fyrir að liðið varð fyrir miklum skakkaföllum þegar 4 byrjunarliðsmenn forfölluðust rétt áður en tímabilið hófst," segir í tilkynningu frá félaginu.
Með framlengingu samnings milli Aftureldingar og John vilja báðir aðilar sýna í verki að þeir eru komnir til að vera – og takast á við það verkefni að gera Aftureldingu að einu besta félagi landsins. Það mun félagið gera með því að byggja á heimamönnum, en styrkja liðið ár frá ári með 1-2 sterkum íslenskum leikmönnum – og 2-3 afburða erlendum leikmönnum á meðan á uppbyggingunni stendur.
Félagið leggur mikinn kraft í að byggja upp sína leikmenn, m.a. með því að vera alltaf með frábæra þjálfara í öllum stöðum. Nefna má að í dag er þjálfarateymið byggt upp á auk aðalþjálfara, aðstoðarþjálfari, styrktarþjálfari, markmannsþjálfari, meiðsla- forvarnaþjálfari, hlaupa stíls og snerpu þjálfari og hugarfar og matarræði. John Henry Andrews er 32 ára gamall.
Hann er írskur og kom frá heimalandi sínu til Aftureldingar fyrir tímabilið 2008 til að vera þar leikmaður. Hann hefur staðið sem klettur í vörn liðsins, í 1. og 2. deildinni og hefur leikið 77 leiki fyrir Aftureldingu og skorað sex mörk. Hann ætlar að leika áfram með liðinu næsta sumar.
Andrews er varnarmaður sem lék með Cork City á Írlandi auk þess sem hann var á mála hjá enska félaginu Coventry á árunum 1995-1998. Hann hafði áður verið aðstoðarþjálfari hjá meistaraflokki kvenna í Aftureldingu sumarið 2008 er Gareth O'Sullivan stýrði liðinu. Hann hefur þjálfað m.a. yngri flokka kvenna og karla, Hvíta riddarann og að auki aðstoðað við þjálfun meistaraflokka félagsins.
Einnig hefur John reynslu úr Bandaríska háskóla boltanum þar sem hann var aðstoðarþjálfari hjá Martin Methodist School en skólinn vann Bandaríkjameistaratitilinn árið 2007.