Heimild: Heimasíða Leiknis
Leiknir Reykjavík úr fyrstu deildinni hefur fengið Pétur Már Harðarson til liðs við sig frá Gróttu.
Pétur Már, sem getur leikið allar stöður framarlega á vellinum og á miðjunni, hefur æft með Leiknismönnum í haust og í gær skrifaði hann undir samning við félagið.
,,Leiknismenn bjóða Pétur hjartanlega velkomin til liðsins og vænta mikils til af honum á komandi tímabili," segir á heimasíðu Leiknis.
Pétur hefur mestmegnis leikið með Gróttu á sínum ferli en í öðrum flokki fór hann í eitt ár til Bröndby í Danmörku auk þess sem hann var á mála hjá KR.
Þessi 22 ára gamli leikmaður hóf snemma leik með Gróttu í meistarflokki en árið 2005 lék hann sinn fyrsta leik þá einungis 16 ára gamall. Samtals hefur Pétur leikið 88 leiki í meistaraflokki og skorað í þeim 19 mörk.