Heimild: Eyjafréttir
Þórarinn Ingi Valdimarsson, leikmaður ÍBV, mun á mánudag fara til danska félagsins Silkeborg þar sem hann verður á reynslu í eina viku.
Þórarinn Ingi var valinn efnilegastur í Pepsi-deildinni á síðasta tímabili en í haust fór hann til Englands á reynslu hjá Crewe og Portsmouth.
Þórarinn Ingi var valinn efnilegastur í Pepsi-deildinni á síðasta tímabili en í haust fór hann til Englands á reynslu hjá Crewe og Portsmouth.
Að auki hefur Þórarinn verið lykilmaður í U21 árs landsliðinu og um síðustu helgi æfði hann með A-landsliði Íslands. Þórarinn segir í viðtali við Eyjafréttir að hann sé spenntur fyrir að heimsækja Silkeborg.
,,Silkeborg endaði í fimmta sæti á síðasta tímabili og mér sýnist að umgjörðin í kringum liðið sé mjög góð. Danska deildin er líka spennandi kostur enda er hún sterkasta deildinn á Norðurlöndunum," sagði Þórarinn Ingi við Eyjafréttir.
,,Ég hef aðeins skoðað völlinn hjá þeim og hann er nýlegur og tekur um tíu þúsund manns í sæti. Liðið sýnist mér vera byggt upp á ungum dönskum leikmönnum. En ég er alveg rólegur, fer bara þarna út og reyni að gera mitt besta og fá góða reynslu."
,,Það er líka alltaf gaman að sjá hvar maður stendur í samanburði við leikmenn frá öðrum löndum. Draumurinn er auðvitað að fara í atvinnumennskuna og það væri gott að byrja í deild eins og þeirri dönsku. En þetta kemur allt í ljós og eins og ég segi, þá er ég alveg rólegur."