Breiðablik 0 - 0 ÍA
Breiðablik og ÍA gerðu markalaust jafntefli í öðrum leik dagsins í Fótbolta.net mótinu en leikið var í Fífunni.
Gary Martin var í byrjunarliði Skagamanna í dag og Mark Doninger kom inn á í hálfleik en báðir leikmennirnir komu til Íslands í vikunni eftir vetrarfrí á England.
Bæði Breiðablik og ÍA unnu bæði sína leiki í fyrstu umferðinni í A-riðlinum og því hefði annað hvort liðið komið sér í ansi þægilega stöðu fyrir lokaumferðina í riðlinum með sigri í dag.
Svo fór þó ekki því færin létu hins vegar á sér standa og liðin náðu ekki að ógna markinu mikið.
Arnar Már Björgvinsson átti skot í slána fyrir Breiðablik í síðari hálfleiknum en inn vildi boltinn ekki.
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dómari leiksins var líklega orðinn leiður á markaleysinu því hann flautaði leikinn af fimm mínútum of snemma.
Vilhjálmur var þó fljótur að átta sig á mistökunum og síðustu fimm mínúturnar voru spilaðar í kjölfarið en liðunum tókst hins vegar ekki að skora og lokastaðan 0-0.
Bæði lið hafa því fjögur stig fyrir lokaumferð riðilsins um næstu helgi en Skagamenn eru á toppnum á betri markamun. ÍA mætir Keflavík í Akraneshöllinni um næstu helgi á meðan Breiðablik mætir FH.
Keflvíkingar eru án stiga og því er ljóst að þeir munu ekki verja titil sinn á mótinu en FH-ingar eru með þrjú stig og eiga ennþá möguleika á að komast í úrslitaleikinn.