Sóknarmaðurinn Telma Þrastardóttir er gengin til liðs við bikarmeistara Vals frá Stabæk í Noregi en þetta staðfesti Gunnar Borgþórsson þjálfari Vals við Fótbolta.net í kvöld.
Telma er aðeins 16 ára gömul en hún er mikill markaskorari og á eflaust eftir að styrkja lið Vals vel.
Hún hóf feril sinn með uppeldisfélagi sínu, Aftureldingu sumarið 2010 en þá skoraði hún rúmlega helming marka liðsins í Pepsi-deildinni, 8 mörk í 13 leikjum aðeins 15 ára gömul.
Eftir tímabilið fór hún til Noregs þar sem hún gekk til liðs við Stabæk þar sem hún hefur verið síðan.
Hún semur nú við Val út komandi tímabil.
Hún hefur leikið fjóra leiki með U19 ára landsliði Íslands og 19 leiki með U17 ára liðinu sem hún hefur skorað sjö mörk með.
Telma er þriðji leikmaðurinn sem kemur til Vals í vetur, áður hafði Laufey Björnsdóttir komið frá Fylki og Dóra María Lárusdóttir frá Djurgården.