fim 26. janúar 2012 09:30
Ólafur Adolfsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Sigurvegari af Guðs náð
Minningabrot um ljúfan dreng
Ólafur Adolfsson
Ólafur Adolfsson
Mynd: Eiríkur Jónsson
Mynd: Eiríkur Jónsson
Þegar ég var beðinn um að færa á blað nokkur minningabrot um Sigurstein Gíslason eða Steina Gísla eins og hann var ávallt kallaður af liðsfélögum sínum og vinum var það auðsótt mál enda aldrei lognmolla eða leiðindi í kringum drenginn þann. Þegar ég settist síðan niður og velti fyrir mér hvernig Steini myndi vilja láta minnast sín varð mér ljóst að hann myndi ekki vilja að um sig yrði skrifuð einhver helgislepja heldur miklu fremur að sagðar yrðu gamansögur af honum og samskiptum hans við félaga sína og vini.

Ég kynntist Steina vorið 1991 þegar ég kom upp á Skaga til að leika knattspyrnu. Okkar fyrstu kynni voru nokkuð kostuleg því þegar ég mætti Steina í búningsklefanum fyrstum manna, blasti við mér frekar ritjulegur ungur maður, sem mér þótti nú við fyrstu sýn ekki líklegur til afreka á knattspyrnusviðinu, hann óð strax upp að mér, brosandi, kynnti sig og sagði síðan „jááá ert þú þessi hlunkur að norðan sem spilaði með Tindastóli, velkominn á Akranes“ og þar með var ísinn brotinn í samskiptum okkar. Þessi saga finnst mér lýsandi fyrir hversu auðvelt Steini átti með að kynnast fólki enda átti hann ógrynni vina og kunningja.

Steini var mikill keppnismaður og ef minnsti möguleiki var á því að snúa hlutum upp í keppni þá gerði hann það. Ég man ekki eftir nokkurri rútuferð eða flugferð með Steina þar sem ekki var tekið í spil og oftar en ekki urðu liðsfélagar hans að lúta í lægra haldi. Gott dæmi um hvernig Steini gat snúið hlutum upp í keppni var þegar við vorum einu sinni sem oftar í útihlaupum hjá Gauja Þórðar að vetri til og höfðum fengið fyrirmæli um að hlaupa saman í hóp og hlaupa fremur rólega. Þetta gekk nokkuð vel framan af hlaupi en þá gafst Steini upp á drollinu og setti á fót sprettkeppni milli ljósastaura hjá helstu gazellum hópsins. Guðjón hafði á orði þegar hópurinn kom í hús að menn væru nú undarlega rjóðir og másandi eftir bæjartöltið. Ég er ekki í vafa um að þetta mikla keppnisskap Steina ásamt jákvæðni hans og bjartsýni eiga stóran þátt í að Steini varð að einum sigursælasta knattspyrnumanni landsins.

Einni viðureign tapaði Steini hins vegar á þessum tíma og ég veit að honum þótti það sárt, já, jafnvel óréttlátt en það var keppnin endalausa um hvor væri hærri hann eða Óli Þórðar. Óli hafði verið mældur hærri en Steini í einhverri mælingu sem framkvæmd var þegar Steini var barnungur. Gott ef sú mæling fór ekki fram á Merkurtúninu. Óli Þórðar hékk á þessari mælingu eins og hundur á roði þó að samanburðarmælingar valinkunnra liðsfélaga þeirra í búningsklefanum segðu annað þá voru þær allar ógildar því ekki var um opinberar mælingar að ræða eins og Óli orðaði það. Steininn tók svo úr þegar við vorum síðar á keppnisferðalagi erlendis og Óli Þórðar rekur augun í að Steini er skráður 2 cm minni en Óli í vegbréfinu sínu sem reyndar var gefið út fermingarárið hans Steina og þar við sat.

Þó Steini hafi verið mikill keppnismaður setti hann aldrei eigin hagsmuni ofar hagsmunum liðsheildarinnar. Hann var hugrakkur, ósérhlífinn og gríðarlega vinnusamur og skoraðist aldrei undan því að taka á sig ábyrgð. Þessir eiginleikar Steina áttu án efa mikinn þátt í því hversu vinsæll hann var meðal samherja sinna og þjálfara og áunnu honum nafnbótina „stríðsmaðurinn“.

Þó Steini bærist ekki mikið á var hann engu að síður einn af leiðtogum skagaliðsins á þessum tíma. Hann var duglegur að hvetja okkur samherja sína og örva til dáða en jafnframt og ekki síður að hughreysta okkur og blása okkur kjark í brjóst þegar verkefnin virtust óyfirstíganleg eða útlitið var dökkt. Hann mátti heldur aldrei neitt aumt sjá og var sem dæmi sjálfskipaður í það hlutverk að hugga lið ungra leikmanna eftir æfingar sem var nánast fullt starf á þessum árum.

Steini var mikilvægur hlekkur í síðara Gullaldarliði skagamanna sem margir telja eitt af betri knattspyrnuliðum sögunnar. Liðið varð Íslandsmeistari fimm ár í röð á árunum 92 til 96 ásamt því að verða bikarmeistari árin 93 og 96 og ganga vel í Evrópukeppnum á þessum tíma. Með brotthvarfi Steina er stórt skarð höggvið í þennan vaska hóp, en minning um sannan sigurvegara lifir og spor hans í knattspyrnusögu Akraness og Íslands munu aldrei hverfa.

Sjá einnig:
Himnasending í Efra-Breiðholtið - Óttar Bjarni Guðmundsson
Viðurkenndur afbragðsmaður - Eysteinn Húni Hauksson og Óli Stefán Flóventsson
Sannur sigurvegari - Willum Þór Þórsson
Einn af bestu sonum fótboltans kvaddur - Logi Ólafsson
Þakklæti! - Guðmundur Benediktsson
Vinnusemi og leikgleði - Gunnlaugur Jónsson
Minning um upphafsárin í Vesturbænum - Guðni Grétarsson, Rúnar Kristinsson og Steinar Ingimundarson
,,Lífið er ekki dans á rósum" - Sigurður Elvar Þórólfsson og Valdimar K. Sigurðsson
banner
banner
banner
banner