lau 03. mars 2012 08:00
Brynjar Ingi Erluson
Heimild: Soccerway 
Bellamy setti hraðamet gegn Man City
Mynd: Getty Images
Craig Bellamy, leikmaður Liverpool á Englandi setti hraðamet í undanúrslitaleik liðsins gegn Man City í enska deildabikarnum, sem fór fram í janúar.

Bellamy, sem er 32 ára gamall tryggði Liverpool í úrslitaleikinn er hann jafnaði leikinn í 2-2 í síðari viðureign liðanna í undanúrslitum deildabikarsins, en Liverpool sigraði svo Cardiff City í úrslitaleiknum í vítaspyrnukeppni.

Hann tryggði liðinu ekki bara í úrslitaleikinn, heldur tókst honum einnig að bæta hraðamet, en þá er mælt út frá því hversu marga metra hver leikmaður hleypur af fullum krafti á vellinum.

Velski landsliðsmaðurinn Gareth Bale átti metið, eða 719 metra gegn Inter Milan, er hann tætti upp vörn ítalska liðsins. Bellamy hinsvegar gerði gott betur og hljóp 850 metra, en talið er að meðaltal hjá leikmönnum séu 300 metrar í leik.

Þetta þykir ótrúlegt að því leiti að Bellamy hefur átt við slæm meiðsli að glíma undanfarin ár, en hnémeiðsli hafa hrjáð hann frá því hann lék með Norwich City. Hann meiddist þá á hné tímabilið 1999/2000 og hefur ekki jafnað sig að fullu eftir þau síðan.

Hann virðist þó vera í frábæru formi þessa stundina, en hann hefur reynst Liverpool gríðarlega mikilvægur á þessu tímabili. Hann er kominn með 9 mörk í 23 leikjum, en hann kom á frjálsri sölu til félagsins frá Manchester City síðasta sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner