Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   mán 12. mars 2012 09:00
Ingi Sigurðsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Kveðja til eðaldrengs
Ingi Sigurðsson
Ingi Sigurðsson
Mynd: Boltamyndir
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Steingrímur Jóhannesson
Fæddur 14. júní 1973
Látinn 1. mars 2012

Í dag kveð ég félaga minn Steingrím Jóhannesson sem lést langt um aldur fram þann 1. mars sl. Steingrímur er kunnur fyrir sín tilþrif á knattspyrnuvellinum þar sem hann var dáður af fylgismönnum ÍBV og virtur af leikmönnum annarra liða sem og dómara. Hann var traustur og öflugur félagi og umfram allt einn af fremstu knattspyrnumönnum Eyjanna. Hann var prúður á velli, fyrirmyndarleikmaður knattspyrnunnar þar sem hann beitti hæfileikum sínum til að efla gæði og skemmtanagildi íþróttarinnar.

Það er erfitt minn kæri félagi að meðtaka það að þú ert horfinn á braut. Þegar ég fékk fréttina af andláti þínu þá kom tómarúm í tilveruna og ég spurði mig þess, hvers vegna þú? Við því fæ ég aldrei svar en minningin um þig og hvað þú gerðir í þínu lífi mun lifa. Þú varst baráttumaður alla þína tíð, einstaklega hæfileikaríkur íþróttamaður, vinnusamur og tókst á við þín veikindi af æðruleysi og bjartsýni. Nákvæmlega á sama máta og ég þekkti þig fyrir, þegar við áttum frábæran tíma saman sem liðsfélagar í knattspyrnunni og vinir frá því við hófum að leika saman.

Steingrímur hóf að leika í mfl. ÍBV árið 1991 og lék með liðinu til ársins 2000. Þá hélt hann í víking á höfuðborgarsvæðið og gekk til liðs við Fylki þar sem aðrir félagar fengu að njóta þess að eiga hann að félaga. Fyrstu tvö árin í mfl. lék hann nokkra leiki en árið 1993 vann hann sér fast sæti í liðinu og lék alla leiki liðsins þegar liðið bjargaði sér á ævintýralegan hátt frá falli það árið. Þar með var Steingrímur kominn á skrið og átti þar á eftir fast sæti í liði ÍBV allt til ársins 2000. Á þessum 8 árum lék hann alla leiki liðsins í deildarkeppninni utan eins leiks árið 1998. Það ár og árið 1999 varð hann markakóngur í efstu deild og var virkilega vel að því kominn. Hann var ósérhlífinn, gafst aldrei upp og lék ávallt heiðarlega. Hann átti stóran þátt í því að stuðla að þeim frábæra árangri sem ÍBV náði á árunum 1995-2000, sem skilaði sér í Íslandsmeistaratitlum árin 1997 og 1998, bikarmeistaratitli árið 1998 og Meistari meistarana það sama ár. Það var enn ánægjulegra að þeir bræður hann og Hjalti skyldu sjá um markaskorun í bikarúrslitaleiknum 1998. Steingrímur gekk svo að nýju til liðs við ÍBV árið 2003 og lék þar næstu þrjú árin í efstu deild. Síðan hélt hann árið 2006 á Selfoss og lék með því liði í 2.deild og loks til Eyjaliðsins KFS í 3.deild og lauk þar glæsilegum ferli árið 2008.

Þó nokkur ár eru á milli okkar þá náðum við vel saman innan vallar sem utan og í keppnisferðum sem herbergisfélagar. Þú varst alltaf svo hreinskiptinn en umfram allt einn sá mest ómissandi karakter sem ég og fleiri höfum leikið með á okkar ferli. Það var alltaf líf og fjör í kringum þig og ég gleymi aldrei fyrstu æfingaferðinni þinni til Þýskalands þegar þú nýliðinn í hópnum stóðst fyrir Nördakosningu eitt kvöldið og varst búinn að tryggja það hver yrði fyrir valinu. Það sýndi gleðina og skemmtilegheitin sem þú bjóst yfir. Hins vegar voru það hæfileikar þínir á knattspyrnuvellinum sem eftir var tekið og ert einn mesti markaskorari sem Eyjarnar hafa alið af sér, sem og á landsvísu. Hæfileikarnar fólust hvað helst í dugnaði þínum og hraða, enda áttu varnarmenn landsins fullt í fangi með að halda aftur af þér. Mætur þjálfari okkar sagði eitt sinn að þú værir sá eini sem hann hefði séð að gæti einn pressað fjögurra manna vörn. Þetta voru orð að sönnu. Þú varst öðrum fyrirmynd og ég tala nú ekki um þegar þú allt í einu eitt árið tókst upp á því að verða örfættur. Það var tímabilið 1998 þegar þú varst markakóngur deildarinnar og skoraðir hvert glæsimarkið og þá flest með vinstri fæti. Sagan þín lifir svo sannarlega og m.a. í nýrri heimildarmynd um afrek ÍBV liðsins á þessum árum. Þú auðgaðir þann eftirminnilega tíma sem við áttum saman ásamt stórum hópi félaga okkar, í að efla ÍBV.

Hin síðari ár þegar þú og fjölskyldan fluttust til Reykjavíkur þá fækkaði skiptunum sem við hittumst en alltaf þegar við töluðum saman þá fann ég hvað þér þótti vænt um þennan góða tíma sem knattspyrnan gaf þér. Þinn ferill var farsæll, Íslandsmeistari í tvígang, bikarmeistari og lékst fyrir Íslands hönd.

Steingrímur háði erfiða baráttu við krabbamein allt frá miðju síðasta ári. Eins og í knattspyrnunni þá var einbeitning hans skýr í að vinna sigur í þeirri baráttu eins og í öðrum leikjum sem við háðum baráttu í. Þannig var keppnismanninum Steingrími Jóhannessyni rétt lýst enda eins og hann sagði svo oft er mikið lá við “að það þyrfti bara að taka á því”. Hann var jafnframt tryggur félagi sem allir nutu að eiga að sem liðsmann og félaga. Steingrímur var glettinn og hrókur alls fagnaðar í hópnum. Þegar sá gállinn var á honum, skaut hann föstum skotum á félagana og eirði engum. Orðin fuku og laus við tafs. Hann kom nefnilega til dyranna eins og hann var klæddur og fór aldrei í manngreiningarálit.

Ég þakka þér kæri vinur fyrir þau skipti þar sem þú gafst mér færi á að heimsækja þig á sjúkrahúsinu og nú síðast rétt rúmri viku fyrir andlátið. Baráttan sem þú sýndir var aðdáunarverð og þú varst alltaf þú sjálfur. Mína síðustu stund með þér mun ég ætíð varðveita, þá kvöddumst við með innilegu faðmlagi enda gagnkvæm virðing á milli okkar.

Það er mikil sorg sem Jóna Dís, dæturnar Kristjana María og Jóhanna Rún, Geirrún, María og Kiddi og aðrir ættingjar takast á við. Hann barðist hetjulega við þann vágest sem krabbamein er en þurfti að játa sig sigraðan að lokum. Lífið er gleði og sorg og það fékk Steingrímur að reyna í sínu lífi. Ég og mín fjölskylda sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum Guð að veita ykkur styrk til að takast á við sorgina. Minningin um þennan eðaldreng, góðan fjölskylduföður sem vann hörðum höndum fyrir framtíð síns fólks, mun lifa í hjörtum allra. Megi vegferð hans á knattspyrnuvellinum vera öðrum til eftirbreytni.

Hvíl í friði kæri vinur.
Ingi Sig.
Athugasemdir
banner
banner