Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   þri 03. apríl 2012 08:00
Már Ingólfur Másson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Heima eða heiman
Már Ingólfur Másson
Már Ingólfur Másson
Leikmenn Manchester United fagna.
Leikmenn Manchester United fagna.
Mynd: Getty Images
Selfyssingar fagna sæti í 1. deild á Grenivík árið 2007.
Selfyssingar fagna sæti í 1. deild á Grenivík árið 2007.
Mynd: Stefán Pálmason
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Eins og flesta stráka dreymdi mig um að verða fótboltamaður. Ólíkt flestum þá var draumurinn ekki að spila á Old Trafford, Anfield, San Siro eða Bernabau heldur á Selfossvelli. Hver sem ástæðan var þá langaði mig bara að fá að spila, þó ekki væri nema einn leik, í vínrauðu á Selfossvelli. Í þriðja flokk fengum við að spila á aðalvellinum einn leik og það var það næsta sem ég komst draumnum, nokkrum árum seinna kom ég reyndar inn á í leik með Árborg gegn Reyni á Selfossvelli. En þegar ég og hin varamaðurinn stóðum við hliðarlínuna og biðum eftir að fá leyfi frá dómaranum til að koma inná gekk þjálfari Reynis í burtu, hristi hausinn og tautaði með sjálfum sér: „hvað er að verða um þessa deild.“ Það og að tapa leiknum 0-3 gerði þessa upplifun örlítið verri.

Afhverju er ég að rifja þetta upp svona á almannafæri, eitthvað sem ætti frekar heima sem fyndin saga í liðsþjöppu? Jú um daginn voru birtar niðurstöður úr könnun sem Fótbolti.net gerði þar sem spurt var hvort lesendur bæru sterkari taugar til liða á Íslandi eða Englandi. 1680 manns tóku þátt og af þessum tæplega 1700 eru það ekki nema 415 sem segjast bera meiri tilfinningar til þess íslenska. Niðurstaða sem mér finnst hreint út sagt ótrúleg.

Frá því ég fékk minn fyrsta Manchester United búning(hann er innrammaður upp á vegg í dag) 5 ára gamall hef ég haldið með United. Fylgst vel með uppgangi ungra leikmanna og farið í gegnum súrt og sætt, aðallega sætt enda fádæma velgengni verið undanfarin ár. Fyrir einhvern sem er ekki vanur sífelldum sigrum heima við er auðvelt að láta glepjast af stórliðum enska boltans og stöðugum straumi titla, ofurstjörnum og risaumgjörð. Fyrir okkur Selfyssinga þá var lengi vel ekki mikið af stórkostlegum úrslitum eða góður árangur sem við gátum fagnað. Árið 1993 unnum við gömlu 3. deildina og man ég vel eftir fögnuðinum þá kampavínsflöskur lágu eins og hráviði um allan völlinn og við strákarnir hlupum um allt að safna saman töppunum, ég náði einni flöskunni og geymdi samviskusamlega árum saman. ´93 var hápunktur því við tók ótrúlegt tímabil af „næstumþví“ liðum og „hérumbil“ tímabilum. Hangið í toppbaráttunni fram eftir móti en um Versló var allur vindur úr okkur og farið að tala um næsta season sem árið okkar(ekki ólíkt einum stórklúbbnum á Englandi). Það var svo ekki fyrr en á Grenivíkurvelli 2007 sem við gátum fagnað. Þá náðum við 2. sæti og tryggðum okkur upp um deild, síðan hefur þetta verið nokkuð gott árangurinn hefur verið vonum framar og liðið náð besta árangri sínum frá upphafi. Á sama tímabili 1993-2007 vann Utd. 9 deildartitla, 4 bikartitla, 1 deildarbikar, 1 evrópumeistaratitil og heimsmeistaratitil félagsliða. Ég myndi samt skipta öllum þessum bikurum út fyrir tilfinninguna þegar það var flautað af á Grenivík og Selfoss tryggði sér ANNAÐ sætið í 2. Deild á Íslandi.

We support our local team
Þessi söngur heyrist líklega oftast af öllum „stuðningsmannalögum“ í heimi á Old Trafford. En þennan söng syngja stuðningsmenn aðkomuliðsins til að gera grín að rækjusamlokunum sem mæta á leiki hjá Manchester United, kaupa 50/50 trefla og eyða mestum parti leiksins í að reyna að ná mynd af Wayne Rooney á gemsann sinn. Um leið eru þeir að gera að því skóna að engin íbúi Manchester haldi með United. Hér heima er því svo farið að okkar lókal lið virðast oftar en ekki vera í öðru sæti á eftir risafyrirtækjunum á Englandi. Menn halda úti stórgóðum vefsíðum tileinkuðum fornfrægum enskum liðum, smella í tattú af liðsmerkinu, ganga í liðstreyjunni eins og spariskyrtu og flagga á leikdögum. Þegar svo lókal liðið spilar skella menn sér í sumarbústað eða veiðiferð, mæta svo á mánudeginum í heita pottinn og kvarta sárann undan því hve fáir heimastrákar spila fyrir liðið og bölsóttast yfir því að þjálfarinn treysti ekki strákum í öðrum flokk til að spila leikina, hvað það kosti mikið og hvað stemmningin sé léleg. Hvort og þá hvers vegna stemmningin er svona léleg er reyndar efni í annan pistil og hefur hann þegar verið ritaður og þarf ekkert að fara í þá sálma hér. Staðreyndin er sú að við heimamennirnir búum til stemmninguna í kringum liðið. Klisjan um 12 manninn er lífseig en það er afþví að hún er sönn, góður stuðningur getur skipt sköpum. Við sem búum í næsta nágrenni við fótboltavöll ættum að prufa að fara á heimaleikina í sumar, styðja við bakið á okkar heimaliði og kaupa eins og eina treyju eða skitin trefil. Liðið manns þarf ekki að vinna allt til þess að það sé gaman að styðja við það og þegar liðið smellur loksins saman og árangurinn fer að sjást vill engin missa af leik, hver vill missa af þessu mómenti hjá sínu liði?

Mætum á völlinn í sumar hvort sem heimaliðið okkar spilar í Pepsideild 1., 2. eða 3. deild það er svo mikið mun skemmtilegra en að glápa á boltann í sjónvarpinu. Svo loksins þegar erfiðið fer að skila sér og árangurinn fer að sjást er mun skemmtilegra að geta sagst hafa verið með frá byrjun.

En að upphafspunktinum og skoðanakönnuninni, þegar Selfoss kemst loksins í Evrópukeppnina og mætir Manchester United þá mun ég mæta á Old Trafford í Vínrauðu. Hversu margir aðrir geta sagt með hreinni samvisku að þeir taki sitt heimalið fram yfir það enska?
Athugasemdir
banner
banner
banner