Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 23. apríl 2012 18:00
Magnús Már Einarsson
Bjarki Már aftur heim í Tindastól - Lárus Orri ósáttur
Bjarki Már Árnason.
Bjarki Már Árnason.
Mynd: Bjarni Gunnarsson
Lárus Orri Sigurðsson þjálfari KF.
Lárus Orri Sigurðsson þjálfari KF.
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Varnarmaðurinn reyndi Bjarki Már Árnason hefur ákveðið að ganga aftur í raðir Tindastóls eftir að hafa farið í KF fyrr í vetur.

Bjarki var í lykilhlutverki þegar Tindastóll sigraði aðra deildina í fyrra en hann var meðal annars í liði ársins í deildinni.

Í vetur ákvað hinn 33 ára gamli Bjarki að yfirgefa Tindastól og ganga í raðir KF. Hann lék nokkra leiki með KF en núna hefur hann ákveðið að leika með Tindastóli í fyrstu deildinni í sumar.

,,Mér snérist hugur," sagði Bjarki Már í samtali við Fótbolta.net í dag. ,,Þeir (KF) tóku rosalega vel á móti mér og Lárus Orri var rosalega almennilegur við mig með því að leyfa mér að æfa sjálfur."

,,Þetta snérist ekkert um það, þetta snérist um að fjölskylda konunnar minnar er á Króknum og ég er ekkert að sækja á Ólafsfjörð. Það er lengra þangað og þetta var meiri fyrirhöfn en maður gerði ráð fyrir þannig að maður er að gera það sem er best fyrir mig og fjölskylduna. Síðan er maður með Stólahjarta líka."


Tindastóll hefur ekki leikið lengi í fyrstu deildinni og Bjarki býst við erfiðu sumri.

,,Þetta verður erfitt, það er ekki spurning en þetta verður vonandi góð og fín reynsla fyrir menn. Vonandi náum við að hanga í þessari deild, það er það sem skiptir máli."

KF borgaði Tindastóli 100 þúsund fyrir félagaskiptin:
Lárus Orri, þjálfari KF, segir sárt að missa af Bjarka en leikmaðurinn var ekki búinn að skrifa undir samning hjá félaginu.

,,Við sömdum við hann í góðri trú og bjuggumst við að hann yrði með okkur í sumar. Um páskana kom hann til mín og sagði að hugurinn hans væri ekki í þessu og að það væri ekki sanngjarnt gagnvart okkur að hann yrði áfram hjá okkur. Mér þykir þetta gífurlega döpur framkoma."

,,Hann var búinn að gera samkomulag við okkur um samning og allt saman en það átti bara eftir að skrifa undir hann. Síðan snéri hann sér við og fer í annað lið. Maður hefur lent í ýmsu í gegnum tíðina en þetta er eitt af því daprara sem maður hefur orðið vitni að."


Lárus Orri segir að KF hafi greitt Tindastóli 100 þúsund krónur til að fá Bjarka í sínar raðir og hann segir sárt að sjá á eftir þeim pening.

,,Við greiddum Tindastóli 100 þúsund krónur fyrir félagaskipti og það er peningur sem að verður sjálfsagt tapaður hjá okkur, ekki nema Tindastóll sjái okkur sóma sinn í að borga okkur til baka sem ég er ekkert alltof bjartsýnn á. Allt í kringum þetta skilur eftir sig svolítið beyskt bragð í munni," sagði Lárus Orri.
Athugasemdir
banner