Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   mið 25. apríl 2012 08:30
Magnús Már Einarsson
Guðjón Þórðarson: Það eru engar tilviljanir í fótbolta
Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson.
Mynd: Ívar Atli Sigurjónsson
Mynd: Grindavík-Fram
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
,,Spár koma mér aldrei á óvart," segir Guðjón Þórðarson þjálfari Grindvíkinga en liðinu er spáð tíunda sæti í Pepsi-deildinni í sumar af sérfræðingum Fótbolta.net.

,,Við erum ennþá að móta liðið. Við vorum að taka inn nýjan leikmann, það kemur nýr leikmaður á miðvikudaginn (í dag) og hugsanlega þriðji maðurinn til viðbótar. Það eru 2-3 leikmenn sem koma til greina þar og ég er að afla mér upplýsinga um hvað er besti kosturinn," sagði Guðjón en Grindvíkingar hafa skoðað nokkra leikmenn í vetur.

,,Við erum búnir að taka nokkra sem við erum búnir að skoða og sleppa. Við höfum ekki samið við allt sem við höfum séð. Það er mjög auðvelt að skrifa inn menn en það er erfiðara að skrifa inn réttu mennina."

,,Frá því í fyrra eru farnar tólf kennitölur úr hópnum og þetta eru miklar breytingar. Á móti kemur þá erum við búnir að æfa vel í vetur og menn eru að styrkjast. Það sem þarf fyrst og fremst að búa til í okkar röðum er meiri stöðugleika,"
sagði Guðjón sem hefur verið mjög ánægður með leikmenn Grindavíkur síðan hann tók við stjórnvölunum.

,,Getum vonandi stýrt álaginu hjá Pape"
,,Ég er mjög sáttur við hvernig margir leikmenn hafa brugðist við og tekist á við veturinn. Það hefur verið til fyrirmyndar hvernig margir leikmenn hafa æft og staðið sig, þeir eru að vaxa og dafna. Það er mjög gaman að hjálpa mönnum að hjálpa sér sjálfum. Ég einn og sér geri ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta þarf að vera sameiginlegt átak allra og mín reynsla af fótbolta er sú að það eru engar tilviljanir. Þeir munu sigra sem eru með bestu mennina og best undirbúnir. Ef þú ert búinn að vera lengi í fallbaráttu þá er einhver ástæða fyrir því."

,,Ég verð að hæla leikmönnum mínum, við höfum æft ágætlega, margir hafa svarað kallinu vel og það er til fyrirmyndar. Hópurinn er ekki breiður og liðið er að mörgu leyti svolítið brothætt. Ef það kemur eitthvað fyrir ákveðna leikmenn þá getur enginn leyst þá af. Það er því mjög mikilvægt fyrir mig að halda liðinu heilu."


Pape Mamadou Faye hefur verið að glíma við meiðsli í mjöðm undanfarið en Guðjón vonast til að hann geti spilað með Grindavík í sumar þrátt fyrir það.

,,Við erum ekki búnir að sjá fyrir endann á því hvernig það verður og það er svolítið áhyggjuefni. Ég vona að við náum að vinna úr því. Við höfum verið í sambandi við mjög góðan lækni og vonandi náum við að vinna úr sumrinu og sjá síðan til þegar haustar."

,,Ég vona að við getum stýrt álaginu þannig að hann verði eins mikið með og kostur er en það er ekki víst að hann spili alla leiki og alltaf 90 mínútur. Við munum reyna að stýra þessu á farsælan hátt fyrir hann og okkur."


Vill fá að nota leikmenn á reynsu í Lengjubikarnum:
Guðjón prófaði erlenda leikmenn í Fótbolta.net mótinu í janúar og febrúar en hann er ósáttur við að félög geti ekki fengið að nota leikmenn sem eru á reynslu í leikjum í Lengjubikarnum.

,,Það er ekki að hjálpa að mega ekki vera með ,,trialista" í Lengjubikarnum. Það er engum til framdráttar að hafa þetta lokað og læst því að þetta heitir undirbúningstímabil og þá á að leyfa mönnum að undirbúa sig með þeim hætti."

,,Framkvæmdin á Fótbolta.net mótinu var virkilega fín, það voru alvöru dómarar og alvöru uppsetning og ég held að það eigi líka að leyfa liðunum að vera með allavega tvo "trialista" í hverjum leik í Lengjubikarnum. Ég held að það væri öllum til framdráttar og greininni sjálfri. Ef þú ert í efstu deild og ert að skoða stráka sem eru í fyrstu eða annarri deild á Ísland og leyfa þeim að æfa með þér í eina eða tvær vikur þá á að gefa þeim tækifæri til að spila. Það er verið að hamla þróun og það er vonandi að þeir sem hafa um máið að segja taki þetta upp og græi þetta."


Erfiðara er að spá í spilin fyrir sumarið í ár en oft áður og Guðjón segir ómögulegt að segja til um gengi liða.

,,Ég held að þetta verði mjög jafnt mót. Í vetur höfum við séð liðin vera að spila við hvort annað og þetta hafa verið rosalega jafnir leikir, það er lítið sem ber á milli. Í Lengjubikarnum hefur þetta endað með einu marki til eða frá og jafnvel farið í framlengingu eða vító."

,,Það lið sem nær að fá eitthvað út úr slæmu leikjunum sínum í sumar verður meistari. Það kom slæmur kafli hjá KR í fyrra en þeir voru ekki að tapa þar. Ég held að þetta verði heilt yfir jafnara, það verður engin nýliðabragur á Skaganum og Selfyssingum. Ég held að það sé vonlaust að spá fyrir um það hvaða lið verða meistarar og hvaða lið falla,"
sagði Guðjón að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner