Nýliðakynning - Grindavík
,,Við höfum trú á sjálfum okkur og við hlutsum ekki á spár, þetta snýst allt um hvað gerist þegar tímabilið byrjar," segir Tomi Ameobi framherji Grindvíkinga en liðinu er spáð tíunda sæti í Pepsi-deildinni í sumar.
Tomi var aðalmarkaskorari BÍ/Bolungarvíkur í fyrstu deildinni í fyrra og Guðjón Þórðarson fékk hann síðan til Grindvíkinga í vetur.
,,Ég vildi spila í Pepsi-deildinni í fyrra en tækifærið bauðst ekki. Þegar Guðjón hringdi í mig í vetur og bauð mér að koma þá stökk ég á tækifærið og ég vona að þetta verði gott tímabil fyrir mig. Guðjón er hreinskilinn og það er erfitt að finna þannig þjálfara í dag. Samband okkar er gott og ég er vongóður að mér muni ganga jafn vel og á síðasta ári," sagði Ameobi sem kann vel við sig í Grindavík.
,,Þetta hefur verið frábært hingað til. Ég hef notið þess að vera hér og ég þekki þjálfarann frá því á síðasta ári sem og Loic Ondo."
Í vetur reyndi Ameobi fyrir sér á Englandi en náði ekki að vinna sér inn samning þar. ,,Ég var hjá Brentford í 2-3 mánuði. Ég fékk ekki samning en ég gat haldið mér í formi og þegar ég byrjaði undirbúningstímabilið á Íslandi var það ekki svo erfitt."
Brentford leikur í þriðju efstu deild en þjálfari liðsins er Uwe Rösler fyrrum framherji Manchester City. ,,Það var frábært að vera hjá Uwe, hann vill spila mikið af leikjum og ég fékk að spila nokkra leiki með varaliðinu sem var góð reynsla."
Ameobi var í unglingaliði Newcastle á sínum tíma en liðið hefur komið skemmtilega á óvart í ensku úrvalsdeildinni í vetur og þegar fjórar umferðir eru eftir eru Alan Pardew og lærisveinar hans í fjórða sætinu.
,,Ég er steinhissa á þessu í hreinskilni sagt. Fyrir tímabilið taldi ég að það yrði gott að enda um miðja deild en nú tala allir um Meistaradeildarsæti. Þeir eiga ennþá eftir að mæta Manchester City og Chelsea svo þetta verður erfitt en allt getur gerst í fótbolta."
Sammy og Shola Ameobi, bræður Tomi, leika báðir með Newcastle. Tomi horfir á alla leiki Newcastle og heyrir reglulega í bræðrum sínum.
,,Litli bróðir er sérstaklega spenntur yfir þessu, hann er spenntur fyrir að eiga möguleika á að spila í Evrópukeppni næsta tímabili. Hann braut hnéskel í janúar og er nýbyrjaður að æfa aftur. Það var svekkjandi fyrir hann að tímabilið kláraðist svona snemma en hann er spenntur fyrir næsta tímabili og vonandi fær hann tækifæri til að spila í Evrópukeppni."
Tomi segist vona til að Grindvíkingar nái að koma á óvart í Pepsi-deildinni í sumar líkt og Newcastle hefur gert í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.
,,Það er markmiðið, að gera eins og Newcastle og taka einn leik fyrir í einu. Við munum virða bestu liðin í deildinni en við munum ekki óttast neitt lið, allir geta unnið alla í þessari deild og þetta snýst um að byrja tímabilið vel og fylgja því síðan eftir," sagði hinn geðþekki Tomi Ameobi að lokum.
Athugasemdir