Haukar 2 - 0 Tindastóll:
1-0 Hilmar Trausti Arnarsson ('38)
2-0 Magnús Páll Gunarsson ('89)
1-0 Hilmar Trausti Arnarsson ('38)
2-0 Magnús Páll Gunarsson ('89)
Nýliðar Tindastóls heimsóttu Hauka heim á Schenkervellinum að Ásvöllum í dag, í fyrstu umferð 1.deildar karla.
Ólafur Jóhannesson fyrrum landsliðsþjálfari og núverandi þjálfari Hauka stýrði Haukaliðinu ekki í dag vegna veikinda og hans stað stýrðu Guðmundarnir í liði Hauka, Guðmundur Viðar Mete og Guðmundur Sævarsson liðinu, en þeir báðir eru meiddir.
Nokkra leikmenn vantaði í bæði lið en þó náðu bæði lið að stilla upp 11 manna byrjunarliði í byrjun leiks.
Haukarnir byrjuðu leikinn betur og áttu fyrstu tvær mark tilraunirnar, fyrst átti fyrirliði Hauka, Hilmar Trausti Arnarsson skot úr aukaspyrnu sem Arnar Magnús Róbertsson markvörður Stólanna, sló boltann yfir markið.
Næst komst síðan Björgvin Stefánsson einn innfyrir en skot hans laust og framhjá fjærstönginni. Þetta kveikti aðeins í gestunum og voru þeir ekki langt frá því að komast yfir í leiknum á 14.mínútu.
Theodore Furness eldfljótur hægri kantmaður Tindastóls geystist upp kantinn, sendi boltann inn í teig þar sem Ben Everson nýtti sér tækifæri sitt ekki nægilega vel og skot hans laust en þó átti Daði Lárusson í smá erfiðleikum með að handsama boltann en honum tókst það síðan að lokum.
Gestirnir héldu áfram að sækja og áttu nokkrar fínar sóknir, uppúr horni átti til dæmis Fannar Örn Kolbeinsson skalla rétt framhjá.
Haukarnir komust hinsvegar yfir á 38.mínútu og það beint úr hornspyrnu, Hilmar Trausti sem tekið hafði nokkrar hættulegar hornspyrnur fyrr í leiknum og úr þeim skapaðist nokkur hætta, en þessi spyrna fór yfir Arnar í markinu hjá Tindastól og í netið.
Haukar voru einu marki yfir í hálfleik. Seinni hálfleikurinn byrjaði með skot í samskeytin. Haukar fengu dæmda á sig óbeina aukaspyrnu eftir að Daði Lárusson hafði handsamað boltann eftir sendingu frá varnarmanni Hauka.
Tindastóll tóku því óbeina aukaspyrnu við vítateigslínuna, þar var rennt boltanum á Fannar Freyr Gíslason sem skaut boltanum í samskeytin og yfir.
Seinni hálfleikurinn var mun rólegri en sá fyrri, fá færi litu dagsins ljós. Þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum gerðist hinsvegar athyglisverðir hlutir þegar Arnar Magnús markvörður Tindastóls fékk að líta rauða spjaldið fyrir eitthvað sem fáir sáu á vellinum, en heimildir Fótbolti.net herma að hann hafi sýnt einhverjar puttahreyfingar upp í stúku í átt að stuðningsmönnum Hauka sem aðstoðardómari leiksins sá og benti Þorvaldi Árnasyni dómara leiksins á með hljóðnemanum sem dómarnir leiksins voru með í eyrunum.
Gestirnir voru búnir með allar sínar skiptingar og því þurfti Fannar Örn Kolbeinsson að fara í markið hjá gestunum. Gestirnir gáfust ekki upp þrátt fyrir það og í næstu sókn vildu þeir fá vítaspyrnu eftir að Fannar Freyr Gíslason féll í gervigrasið eftir baráttu við Sverri Garðarsson.
Í blálokin innsigluðu Haukar síðan sigurinn með öðru marki sínu og þar var að verki Magnús Páll Gunnarsson eftir sendingu frá Hilmar Trausta Arnarssyni, kærkomið mark fyrir Magnús sem hafði stuttu áður átt tilraun í þverslánna.
Tveggja marka sigur Hauka staðreynd en Stólarnir bitu heldur betur frá sér í leiknum og komu skemmtilega á óvart með spilamennsku sinni og það er ljóst að þeir eru mun sterkari en menn bjuggust við. Haukarnir áttu í erfiðleikum með að brjóta upp varnarmúr Tindastóls en mark Hilmars Trausta beint úr hornspyrnu gaf þeim aukið sjálfstraust og var forystu Hauka aldrei ógnað.
Athugasemdir