Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 18. maí 2012 08:00
Fótbolti.net
Spá Fótbolta.net fyrir 1.deild kvenna: A-riðill
Skagastúlkum er spáð sigri í A-deildinni.
Skagastúlkum er spáð sigri í A-deildinni.
Mynd: Jóhanna Leópoldsdóttir
Margrét María er lykilmaður hjá Þrótti sem er spáð 2. sæti.
Margrét María er lykilmaður hjá Þrótti sem er spáð 2. sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haukum er spáð þriðja sæti undir stjórn Jóns Stefáns Jónssonar.
Haukum er spáð þriðja sæti undir stjórn Jóns Stefáns Jónssonar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölnir er í fjórða sæti samkvæmt spánni.
Fjölnir er í fjórða sæti samkvæmt spánni.
Mynd: Björn Ingvarsson
Margrét Guðný spilar með ÍR í sumar.
Margrét Guðný spilar með ÍR í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lið Hattar.
Lið Hattar.
Mynd: Aðsend
Fjarðabyggð/Leikni er spáð botnsætinu.
Fjarðabyggð/Leikni er spáð botnsætinu.
Mynd: Fjarðabyggð
Keppni í 1. deild kvenna hefst í kvöld með leik ÍR og Hauka kl.19:15 í Breiðholtinu. Við á Fótbolta.net fengum nokkra boltaspekinga til að spá fyrir um 1.deildina í sumar. Eins og undanfarin ár er deildinni skipt upp í tvo riðla og tvö efstu lið úr hvorum riðli taka þátt í úrslitakeppni um tvö laus sæti í úrvalsdeild í haust. Í dag opinberum við spánna fyrir A-riðilinn og fylgjum henni eftir með spá fyrir B-riðilinn á morgun en þá verða fyrstu leikir B-riðlis spilaðir.

Sérfræðingar Fótbolta.net eru sex talsins og þau röðuðu liðunum upp eftir því sem þau telja líklega lokastöðu eftir riðlakeppnirnar. Liðið í efsta sæti fær 8 stig, annað sætið 7 stig og svo koll af kolli niður í áttunda sæti sem gefur eitt stig.

Sérfræðingarnir: Ásgrímur Helgi Einarsson, Bryndís Jóhannesdóttir, Daði Rafnsson, Hafliði Breiðfjörð, Helena Ólafsdóttir, Sigurður Ragnar Eyjólfsson.

Spáin:
ÍA 48 stig
Þróttur 39 stig
Haukar 37 stig
Fjölnir 25 stig
ÍR 24 stig
Höttur 17 stig
Sindri 16 stig
Fjarðarbyggð/Leiknir 10 stig


1. ÍA
Skagastúlkum er spáð góðu gengi í sumar en allir spámenn okkar telja að liðið sigri A-riðilinn. Liðið hefur þegar landað tveimur titlum á undirbúningstímabilinu og stefnir að þeim þriðja í sumar. Mikið og gott uppbyggingarstarf hefur verið unnið á Akranesi undanfarin ár og nú er komið að því að endurvekja meistaraflokk kvenna hjá ÍA. Liðið skipa ungar stelpur, flestar enn á 2.flokks aldri, sem hafa verið sigursælar í gegnum yngri flokkana. Ungu leikmennirnir fengu svo góðan liðsstyrk þegar að Helga Sjöfn Jóhannesdóttir ákvað að ganga aftur til liðs við uppeldisfélag sitt. Með Helgu Sjöfn kemur dýrmæt reynsla en hún á að baki leiki með öllum landsliðum Íslands sem og 100 leiki í efstu deild.

Það er erfitt að spá Skagastúlkum ekki góðu gengi í sumar. Leikmannahópurinn er öflugur og stærri en hjá flestum 1.deildar liðum. Það verður hinsvegar mikið álag á leikmönnum þar sem ÍA tekur einnig þátt í Íslandsmóti 2.flokks og flestir leikmenn spila á báðum vígstöðum.

Þjálfari: Elvar Grétarsson.

Lykilleikmaður: Guðrún Valdís Jónsdóttir er einn efnilegasti markvörður landsins. Með hana í stuði í markinu eiga ÍA-stelpur ekki eftir að fá mörg mörk á sig í sumar.


2. Þróttur
Laugardalsliðið féll úr efstu deild í fyrra og það er alltaf erfitt hlutskipti. Þróttarar hafa haldið flestum sínum leikmönnum en misstu þó tvo sterka varnarmenn, þær Diljá Ólafsdóttur í UMFA og Huldu Jónsdóttur í barneignarfrí. Nokkrir leikmenn hafa gengið til liðs við félagið að undanförnu og það verður áhugavert að sjá hvernig þeir falla inn í liðið. Liðinu gekk ekki sérlega vel á undirbúningstímabilinu en það er spurning hvort að það breytist þegar Íslandsmótið hefst.

Þjálfari: Theodór Sveinjónsson.

Lykilleikmaður: Margrét María Hólmarsdóttir. Virkilega öflugur sóknarmaður sem hefur skorað 43 mörk í 59 leikjum fyrir Þrótt.


3. Haukar
Haukar hafa tekið þann pól í hæðina að byggja upp lið sitt á heimastelpum, ólíkt því sem verið hefur undanfarin ár. Jón Stefán Jónsson tók við liðinu í haust og hefur verið að vinna gott starf. Liðið er gjörbreytt frá því í fyrra og í raun óskrifað blað í takt við það. Leikur liðsins á undirbúningstímabilinu gefur þó fín fyrirheit um það sem koma skal í sumar og það skyldi engan undra ef að Haukar blönduðu sér af krafti í toppbaráttuna.

Þjálfari: Jón Stefán Jónsson

Lykilleikmaður: Kristín Ösp Sigurðardóttir verður einn af burðarásum liðsins í sumar þrátt fyrir ungan aldur. Hún hefur átt við meiðsli að stríða en ef hún verður heil í sumar þá á hún eftir að bera uppi sóknarleik Hauka.


4. Fjölnir
Fjölniskonur spiluðu ágætlega í vetur en upp á síðkastið hafa úrslit ekki verið þeim í hag. Fjölnir hefur verið að byggja upp hjá sér en liðið er líklega ekki komið alveg þangað sem það vill vera. Liðið getur á góðum degi tekið stig af hverjum sem er en gæti skort stöðugleikann sem þarf til að blanda sér í toppbaráttuna. Liðið fékk til sín bandarískan leikmann, Karin Volpe, stuttu fyrir lok félagaskiptagluggans og hún gæti styrtk liðið. Annars spilar Fjölnir á sama mannskap og í fyrra.

Þjálfari: Þorleifur Óskarsson

Lykilleikmaður: Sonný Lára Þráinsdóttir. Einn besti markvörður deildarinnar. Lék ekkert á undirbúningstímabilinu vegna meiðsla en ætti að vera klár í slaginn á Íslandsmótinu.


5. ÍR
ÍR-liðið er skipað ungum leikmönnum sem flestar eru enn á 2. flokks aldri eða nýskriðnar upp í meistaraflokk. Liðinu hefur gengið öllu betur á undirbúningstímabilinu í ár en í fyrra og er til alls líklegt. Markvörðurinn Kelsey Anne Walters verður með liðinu í sumar líkt og í fyrra og eru það góð tíðindi fyrir ÍR-inga enda um einn besta markmann deildarinnar að ræða. Einnig hafa ÍR-ingar fengið til sín þrjá lánsmenn, þær Selmu Rut Gestsdóttur og Signý Rún Pétursdóttur frá Fylki og Margréti Guðný Vigfúsdóttur úr Stjörnunni. Margrét Guðný hefur reynslu úr yngri landsliðum og efstu deild og það gæti verið sterkt fyrir ungt ÍR-liðið.

Þjálfari: Sigurður Þórir Þorsteinsson.

Lykilleikmaður: María Kristín Bjarnadóttir á eflaust eftir að setja nokkur mörk fyrir ÍR í sumar. María er enn á 2. flokks aldri en er stórhættulegur senter sem varnarmenn verða í vandræðum með.


6. Höttur
Búast má við að tímabilið verði Egilsstaðabúum erfitt. Höttur fékk til sín tvær bandarískar stúlkur og geta þeirra gæti haft töluvert að segja um lokaniðurstöðuna. Í fyrra var ekki búist við miklu af Hetti en þær fengu góða útlendinga rétt fyrir tímabil og ef það gengur upp hjá þeim núna má alls ekki vanmeta þær. Þjálfarinn Sigríður B. Þorláksdóttir hefur verið að gera góða hluti fyrir austan og leikur Hattarstúlkna er að verða betri og betri. Sigríður hefur nú dregið skónna fram af hillunni og reimað þá á sig. Það er klárlega mikill styrkur fyrir liðið.

Þjálfari: Sigríður B. Þorláksdóttir.

Lykilleikmaður: Magdalena Anna Reimus hefur verið að spila vel fyrir Hött í vetur. Hún ein af fjölmörgum spennandi ungum leikmönnum sem Höttur hefur í sínum röðum.


7. Sindri
Sindri gæti lent í vandræðum í sumar. Liðið er byggt upp á heimastúlkum sem eru mjög ungar og eiga framtíðina fyrir sér. Liðið skortir reynslu til að taka næsta skref í meistaraflokki. Sindri á mjög sterkan heimavöll á Höfn og þangað verður erfitt fyrir öll lið að fara. Liðið lék ágætlega á undirbúningstímabilinu og það er aldrei að vita nema Sindrastúlkur afsanni spánna og klífi ofar á töflunni.

Þjálfari: Hajrudin Cardaklija

Lykilleikmaður: Maria Selma Haseta var í U-17 ára landsliðinu sem lék í milliriðli EM í vor. Hún hefur vakið athygli fyrir leik sinn og skoraði 6 mörk í 13 leikjum fyrir Sindra í fyrra.


8. Fjarðarbyggð/Leiknir
Liðið spilaði ágætlega á köflum í fyrra undir stjórn Páls Guðlaugssonar sem hætti með liðið eftir tímabilið. Ólafur H. Guðmarsson tók við liðinu og hans býður erfitt sumar. Liðið er skipað heimastelpum en vantar líklega bæði breidd og styrk til að berjast ofar á töflunni. Það er hinsvegar björt framtíð fyrir austan ef haldið verður rétt á spilunum.

Þjálfari: Ólafur H. Guðmarsson.

Lykilleikmaður: Una Sigríður Jónsdóttir var einn besti leikmaður liðsins í fyrra. Hún er elsti og reynslumesti leikmaður liðsins og það mun mikið á henni mæða við að miðla reynslu sinni og þekkingu til ungra liðsfélaga hennar.
Athugasemdir
banner
banner