Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 16. júní 2012 16:45
Arnar Daði Arnarsson
Umfjöllun: Þægilegur sigur Ólafsvíkinga í Hafnarfirðinum
Úr leik liðana frá því í fyrra
Úr leik liðana frá því í fyrra
Mynd: Fótbolti.net - Torfi Jóhannsson
Haukar 0 - 2 Víkingur Ó.
0-1 Björn Pálsson ('37)
0-2 Björn Pálsson ('66)

Það var búist við hörkuleik á Schenkervellinum að Ásvöllum í dag, er Haukar og Víkingur Ólafsvík mættust í 6.umferð 1.deildar karla. Það var nú heldur fámennt á vellinum, en þeir sem mættu fengu þó frábært veður og gátu sólað sig í Schenker-stúkunni, með smá vindkælingu.

Fyrsta færi leiksins kom eftir 20.mínútna leik og það var Ólafsvíkinga. Eftir herfileg mistök hjá Kristjáni Ómari í miðri vörn Hauka, fékk Guðmundur Steinn boltann í fæturnar á silfurfati, geystist upp völlinn, en Kristján Ómar truflaði hann við skotið, og skot Guðmundar því slappt og framhjá. Ejub Purisevic og hans menn í Víking voru allt annað en sáttir og vildu fá eitthvað fyrir sinn snúð þarna.

Fyrsta mark leiksins kom síðan á 37.mínútu, Björn Pálsson leikmaður Víkings fékk þá nægan tíma rétt fyrir utan vítateig Hauka, lagði boltann fyrir sig og lagði boltann í fjærhornið, virkilega snyrtilega gert hjá Birni.

Gestirnir frá Ólafsvík einu marki yfir í hálfleik. Færin voru ekki mörg í fyrri hálfleiknum og hafði Einar Hjörleifsson það nokkuð notalegt í markinu hjá Ólafsvík og sama má eiginlega segja um Daða Lárusson í markinu hjá Haukum.

Færin voru ekki mikið fleiri í seinni hálfleiknum en Ólafsvíkingar bættu hinsvegar við marki á 66.mínútu og þar var að verki í annað sinn, Björn Pálsson. Nú fékk hann boltann inn í teig, var aftur einn og óvaldaður og skoraði nokkuð auðveldlega.

Haukar náðu aldrei að ógna almennilega að marki gestanna og því sigldu Víkingar öruggum sigri heim. Með sigrinum eru Ólafsvíkingar komnir á topp 1.deildar um stund að minnsta kosti en þetta var hinsvegar fyrsti tapleikur Hauka í 1.deildinni í sumar.
Athugasemdir
banner
banner