Magnús Páll Gunnarsson framherji Hauka skoraði bæði mörk liðsins í 2-1 heimasigri á ÍR í kvöld. Fyrir leikinn hafði Magnús skorað eitt mark og því voru þetta kærkomin mörk fyrir hann sem og Haukaliðið.
,,Þetta var mikill vinnusigur. Við vorum þéttir og spiluðum fínan bolta og yfir heildina var þetta okkar besti leikur í mótinu og við ætlum að byggja ofan á þetta," sagði Magnús Páll sem viðurkennir að Haukarnir hafi fengið kjaftshögg í byrjun seinni hálfleiks er ÍR-ingar jöfnuðu á 47.mínútu,
,,Það var kjaftshögg, við ætluðum auðvitað ekki að byrja seinni hálfleikinn svona en ég var ánægður hvernig menn rifu sig upp og sýndu sitt rétta andlit fljótlega í kjölfarið."
Magnús Páll skoraði síðast í fyrstu umferðinni gegn Tindastól í uppbótartíma og var því búinn að bíða lengi eftir að skora aftur,
,,Ég var búinn að bíða eftir þessum mörkum. Ég var í banni í síðasta leik, eftir fjögur gul og sem sóknarmaður er það ekkert sérstakt en ég fann að þetta átti að vera kvöldið mitt og ég ætlaði að nýta það," sagði Magnús Páll sem gerði það svo sannarlega.
Viðtalið í heild sinni er hægt að sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir