Heimild: Gazetta.gr
Grískir fjölmiðlar greina frá því að Arnar Grétarsson hafi látið af störfum sem yfirmaður knattspyrnumála hjá AEK Aþenu en muni starfa áfram óformlega í þágu félagsins fram í ágúst.
Mikil endurskipulagning á sér stað innan félagsins í kjölfar mikilla fjárhagsvandræða þess á undanförnum mánuðum. Nýjir aðilar hafa tekið til starfa á mörgum vígstöðum og var m.a. ráðinn nýr þjálfari fyrir stuttu sem óskaði eftir öðrum einstaklingi, helst grískum, í stað Arnars í stöðu yfirmanns knattspyrnumála.
,,Þegar nýjir einstaklingar taka til starfa leita þeir oft til aðila sem þeir þekkja vel til og treysta. Ég hef hins vegar komið þeim boðum áleiðis að ég er tilbúinn að hjálpa til eins mikið og ég get,” sagði Arnar í samtali við gríska fjölmiðla.
,,Ég mun vera áfram í Aþenu þangað til í ágúst og verð því til staðar ef þess er óskað. AEK gaf mér tækifæri og því mun ég aldrei gleyma. Ég elskaði að klæðast treyjunni í fyrsta skipti en ég mun ekki gráta brottförina. Ég óska eftirmönnum mínum alls hins besta.”
Arnar starfaði sem yfirmaður knattspyrnumála hjá AEK í rúm tvö ár en hann lék með liðinu um þriggja ára skeið undir lok tíunda áratugar síðustu aldar.
Athugasemdir