Man Utd hefur gert tilboð í Mbeumo - Ronaldo með tilboð frá brasilísku félagi - Villa hefur áhuga á Ferran Torres
   mán 09. júlí 2012 09:30
Brynjar Ingi Erluson
Hörður Björgvin: Maður nær aðeins að föndra í Pirlo
Hörður Björgvin Magnússon
Hörður Björgvin Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Úr einkasafni
Hörður Björgvin Magnússon, leikmaður Juventus á Ítalíu, kemur til með að æfa og spila með aðalliði félagsins á komandi tímabili.

Hörður, sem er 19 ára gamall gekk til liðs við Juventus frá Fram í janúar 2011, en hann gerði þá eins árs lánssamning við ítalska meistaraliðið. Félagið ákvað í kjölfarið að festa kaup á Herði, en hann skrifaði undir fjögurra og hálfs árs samning í janúar síðastliðnum.

Talið var að Hörður myndi fara á lán til Englands eða Þýskalands í sumar, en nú er ljóst að hann verður áfram í herbúðum ítalska liðsins og heldur hann ásamt aðalliðinu í æfingaferð til Frakklands.

Hann kveðst spenntur fyrir framhaldinu, en hann vonast til þess að öðlast reynslu af stjörnuleikmönnum ítalska liðsins.

,,Það eru auðvitað forréttindi að æfa með leikmönnum sem eru i heimsklassa. Ég hef litið upp til margra þeirra frá því ég var ungur og er mjög ánægður með hvað þeir eru hjálpsamir gagnvart ungu leikmönnunum," sagði Hörður í samtali við Fótbolta.net.

Margir leikmenn ítalska landsliðsins eru í herbúðum Juventus, en liðið komst alla leið í úrslitaleik Evrópumótsins í Póllandi og Úkraínu, þar sem liðið beið þó lægri hlut fyrir Spánverjum.

,,Ég tel að ég geti lært mikið af Andrea Pirlo. Spyrnutækni og hugarfar hans er til fyrirmyndar og hefur hann reynst mér hjálpsamur frá því ég byrjaði að æfa með aðalliðinu á síðasta ári."

,,Ég er miðjumaður að upplagi og hef litið sérstaklega mikið upp til hans og Francesco Totti hjá Roma. Pirlo mætir á æfingar og hefur kennt manni algerlega nýja sendingatækni sem ég get augljóslega nýtt mér í framtíðinni."

,,Hann er einhver besti miðjumaður heims og hefur verið það undanfarin ár, en hann er ekkert sérstaklega opin persóna. Ég er samt alltaf að fíflast í honum þegar við æfðum saman á síðasta tímabili og næ aðeins föndra í honum."

,,Annars eru spennandi tímar framundan og ætla ég að sanna tilverurétt minn í liðinu á komandi leiktíð, en ég geri mér vel grein fyrir því að þetta verður engin lautarferð,"
sagði Hörður að lokum.

Hann lék með unglinga- og varaliði félagsins á síðustu leiktíð, en hann gerði vel og vann meðal annars stórmótið Viareggio-Cup, þar sem stærstu unglingalið heims mæta og etja kappi. Þá komst liðið í úrslitaleik ítalska bikarsins, en þurfti að bíða lægri hlut fyrir Roma.
Athugasemdir
banner