Ómar Valdimarsson sem er hér vinstra megin í neðri röð á myndinni sem er tekin þegar hann samdi við félagið.
Ómar Valdimarsson er hættur þjálfun 2. deildarliðs KFR en hann gekk út í gær þegar aðeins átta leikmenn voru mættir á æfingu daginn fyrir leik gegn HK sem er að hefjast þessa stundina.
,,Ég hef eiginlega nóg annað við tímann að gera en að standa í svona þegar metnaðurinn er ekki meiri," sagði Ómar við Fótbolta.net í dag.
,,Þetta var líka uppsafnað og kannski var kominn tími á mig," sagði Ómar. ,,Það voru 8 á æfingunni í gær og það er að sjálfsögðu hluti af þessu," bætti hann við.
,,Það eru mjög margir þarna sem vilja gera vel en þetta er hluti af liðinu. Það þurfa allir að taka þátt og það er ekki nóg að bara hluti af liðinu sinni þessu almennilega."
Ómar sagði að þrátt fyrir fámennið á æfingunni í gær muni KFR ná í lið í leiknum sem er að hefjast en Lárus Viðar Stefánsson aðstoðarþjálfari og fyrirliði liðsins mun stýra liðinu í leiknum gegn HK sem hófst núna klukkan 19:00.
Ómar Valdimarsson náði frábærum árangri með lið KFR í fyrra þegar hann kom liðinu upp úr 3. deildinni á fyrsta ári sem þjálfari liðsins. Liðið er núna í botnsæti deildarinnar með fimm stig eftir 14 umferðir. Hann sagði óljóst hvað tæki við hjá sér. ,,Ég er kominn í gott frí núna og svo sjáum við hvað setur," sagði hann.
Athugasemdir