Leiknir 2 - 2 Haukar
0-1 Árni Vilhjálmsson ('23)
0-2 Gunnlaugur Fannar Guðmundsson ('38)
1-2 Ólafur Hrannar Kristjánsson ('42)
2-2 Pétur Már Harðarson ('86)
0-1 Árni Vilhjálmsson ('23)
0-2 Gunnlaugur Fannar Guðmundsson ('38)
1-2 Ólafur Hrannar Kristjánsson ('42)
2-2 Pétur Már Harðarson ('86)
Það var líf og fjör á Leiknisvellinum í kvöld, þegar heimamenn í Leikni tóku á móti Haukum. Bæði lið þurftu nauðsynlega á sigri að halda, heimamenn til að koma sér fjær botninum á meðan Haukar þurftu heldur betur á þremur stigum að halda til að blanda sér að fullu aftur í toppbaráttuna eftir brösugt gengi í undanförnum leikjum.
Þrátt fyrir að mikið væri í húfi þá var mikil deyfð yfir leiknum öllum og þau þrjú mörk sem skoruð voru í fyrri hálfleik, þurftu liðin lítið að hafa fyrir, fyrsta mark leiksins skoraði Árni Vilhjálmsson eftir frábært einstaklings-framtak. Gunnlaugur Fannar jók síðan muninn með auðveldum skalla eftir aukaspyrnu frá Hilmari Trausta og fjórum mínútum síðar minnkaði Ólafur Hrannar síðan muninn með skalla eftir fyrirgjöf frá Kristjáni Páli.
Leiknismenn fengu tvö góð færi á fyrstu átta mínútum leiksins, fyrst slapp Ólafur Hrannar í gegn eftir misskilning í vörn Hauka, en skot Ólafs í stöngina, skömmu síðar átti Samuel Petrone fínt skotfæri eftir klafs í teignum en Gunnlaug Fannar renndi sér fyrir skotið.
Ásgeir Þór Magnússon markvöður Leiknis, bjargaði næst glæsilega frá sínum eigin varnarmanni, Björgvin Stefánsson átti þá fyrirgjöf sem Árni Vilhjálmsson skallaði að marki, varnarmaður Leiknis ætlaði að hreinsa yfir markið en hreinsunin beint á markið og Ásgeir varði boltann út.
Á 22.mínútu átti síðan Sverrir Garðarsson skalla réttframhjá fjærstönginni eftir aukaspyrnu frá Árna Vilhjálmssyni, mínútu síðar kom Árni síðan gestunum yfir í leiknum. Hann var með boltann á vinstri kantinum, sótti að markinu og tók síðan skot innan vítateigs, í nærhornið og í netið.
Á þessum tímapunkti voru Haukar mun hættulegri aðilinn og Magnús Páll Gunnarsson hefði með öllu réttu að bæta við marki er hann fékk tvö prýðis-skallafæri með stuttu millibili, annar skallaboltinn fór beint á Ásgeir og hinn yfir markið. Það var hinsvegar Gunnlaugur Fannar sem þurfti bara eitt skallafæri til að skora mark, Hilmar Trausti tók aukaspyrnu að marki Leiknis, sem Gunnlaugur flikkaði í netið og staðan orðin 0-2 og nokkrir heimamenn orðnir áhyggjufullir í stúkunni.
En Leiknismenn gáfust ekki upp, á 42.mínútu gaf Kristján Páll Jónsson sem átti fínan leik á hægri kantinum fyrir, boltinn fór yfir Sverrir Garðarsson og beint á kollinn á Ólafi Hrannari sem stýrði boltanum í netið og Leiknismenn því búnir að minnka muninn í 2-1.
Besta færi leiksins leit dagsins ljós í uppbótartíma fyrri hálfleiks, fyrirgjöf frá hægri lenti fyrir fótum Árna Vilhjálmssonar inn í markteig Leiknis, en á einhvern ótrúlegan hátt, mokaði hann boltanum framhjá markinu, einn gegn Ásgeiri.
Fjörugur fyrri hálfleikur að baki og við tók, ekki alveg jafn fjörugur seinni hálfleikur. Haukarnir bökkuðu full aftarlega og sköpuðu fá færi en reyndu að beita skyndisóknum. Leiknismenn voru töluvert meira með boltann með Ólaf Hrannar á toppnum sem fékk nokkur hálffæri en komst aldrei almennilega í hættulegt færi.
Á 77.mínútu var hinsvegar miðjumaðurinn hjá Leikni, Samuel Petrone sloppinn í gegn eftir varnarmisskilning, en færið þröngt og Daði varði nokkuð auðveldlega frá Petrone. Skömmu síðar átti Hilmar Árni skalla framhjá markinu eftir fyrirgjöf frá Kristjáni Páli.
Sókn Leiknis fór að þyngjast og á sama tíma áttu Haukar nokkur áhlaup sem hefðu getað gert útum leikinn, en það vantaði að drápseðlið hjá Haukunum í leiknum og það nýttu Leiknismenn sér á 86.mínútu.
Samuel Petrone tók þá hornspyrnu, eftir klafs í teignum björguðu Haukar á línu, boltinn barst út fyrir teiginn, þar sem Pétur Már Harðarson hafði nægan tíma á boltann, lagði boltann fyrir sig og setti boltann í innra-hliðarnetið. Staðan orðin jöfn, 2-2 og Leiknismenn fögnuðu eins og um sigurmark hefði verið um að ræða.
Fleiri urðu færin ekki í leiknum og bæði lið líklega ósátt með niðurstöðuna, þó svo að nokkur bros hafi sést á nokkrum Leiknismönnum eftir leik, enda leit þetta heldur betur ekki vel út fyrir þá á tímabili í fyrri hálfleik. Þeir hinsvegar gáfumst ekki upp og mikilvægt stig í fallbaráttunni fyrir Leikni staðreynd.
Athugasemdir