Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 25. ágúst 2012 20:04
Fótbolti.net
Umfjöllun: Tindastóll vann Fjölni í hörkuleik
Colin W. Helmrich og Steven Beattie, markaskorarar í dag
Colin W. Helmrich og Steven Beattie, markaskorarar í dag
Mynd: Ómar Bragi Stefánsson
Mynd: Ómar Bragi Stefánsson
Tindastóll 2 - 1 Fjölnir
1-0 Colin W. Helmrich ('29 )
1-1 Viðar Ari Jónsson ('62 )
2-1 Steven Beattie ('86 )

Skítakuldi og norðanátt var á Króknum í dag þegar Grafarvogspiltar komu norður. Fyrir leikinn þurftu bæði lið nauðsynlega þrjú stig, Fjölnir til að komast í 2.sætið en Stólarnir í harðri fallbaráttu.

Tindastólsmenn byrjuðu með vindi og var það Max Touloute sem komst í fyrsta færi leiksins en Haukur Lárusson bjargaði. Max var síðan aftur á ferðinni fljótlega þegar hann komst í ákjósanlegt færi en setti of mikin kraft í skotið sem fór yfir.

Tindastólsmenn voru meira með boltann í fyrri hálfleik og stjórnuðu ferðinni. Fjölnir áttu samt alveg sína möguleika í fyrri hálfleik og komust nálægt því á 25.mín þegar Bjarni Gunnarsson kemst einn í gegn en Stólarnir björguðu á síðustu stundu. Stólarnir skora síðan laglegt mark á 29.mín þegar Steven Beattie vinnur boltann vel og kemur sér í ákjósanlega stöðu en leggur boltann til hliðar á Colin Helmrich sem afgreiðir boltann laglega í netið.

Sanngjörn staða þegar þarna var komið við sögu. Atli Arnarson er síðan nálægt því að skora þegar hann fær skot einn á Steinar en skýtur beint á hann. Fjölnismenn ná síðan undirtökum á miðjunni undir lok hálfleiksins og ná að pressa aðeins á Stólana þó án þess að skapa sér nein alvöru færi.

Í síðari hálfleik þá snýst samt dæmið við. Fjölnismenn stjórna algjörlega leiknum og Stólarnir skipulagðir og verjast vel. Það er síðan á 62.mín að Viðar Ari Jónsson fær boltann fyrir utan teig og smell hittir boltann og í netinu lá hann. Virkilega vel gert og verðskuldað mark, miðað við pressuna sem Fjölnismenn voru búnir að setja á Stólana.

Litlu munar síðan 5.mín seinna að Edvard Börkur skori fyrir Stólana en skot hans smellur í slánni og niðrá línuna, sumir vildu meina að hann hefði farið inn, en línuvörðurinn var með þetta allt á hreinu. Á 73.mín fær Atli Arnarson boltann fyrir utan teig og nær mjög góðu skoti á markið sem Steinar ver og Arnar Sigurðsson fylgir á eftir en mokar boltanum framhjá.

Jafnræði var með liðunum á þessari stundu, sóknir á báða bóga en það voru Stólarnir sem skoruðu markið sem skildi liðin að. Steven Beattie fær sending í gegn og smellir boltanum framhjá Steinari og í markið. Snyrtilega gert hjá Beattie sem var mjög duglegur í þessum leik. Fjölnismenn setja síðan gríðarlega pressu á heimamenn í lokinn , þar sem háum boltum var dælt inn í teig en varnarmenn Stólana oftast fyrstir á boltann og skölluðu í burtu.

Valdimar Pálsson flautaði síðan til leiksloka og gríðar mikilvægur sigur Stólana í höfn, á meðan Fjölnismenn töpuðu þarna mikilvægum stigum í toppbaráttunni. Heilt yfir var þetta jafn leikur og sigur hefði svo sem getað endað hvoru megin sem var, en það voru Stólarnir sem nýttu sína sénsa betur og náðu sér í öll stigin og eru því komnir með 21.stig á meðan Fjölnismenn eru enn í 3.sæti deildarinnar með 29.stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner