Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 20. september 2012 13:00
Magnús Már Einarsson
Hemmi Hreiðars: Þetta er gullið tækifæri
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
,,Þetta er toppklúbbur. Ég er gríðarlega spenntur og ánægður með að þeir hafi leitað til mín," sagði Hermann Hreiðarsson við Fótbolta.net í dag en hann mun taka við þjálfun ÍBV eftir tímabilið.

,,Þetta var mjög stutt ferli. Þeir voru búnir að heyra í mér eins og síðustu ár en á allt öðrum forsendum, um að ég kæmi og yrði aðstoðarþjálfari og myndi spila. Síðan ræddum við saman í gær og kláruðum þetta þá."

Hermann er 38 ára gamall en þetta er fyrsta starf hans sem aðalþjálfari á ferlinum.

,,Þetta er gullið tækifæri. Ég hefði ekki sagt já nema ég myndi treysta mér 100% í þetta og ég geri það. Ég er búinn að vera í fótbolta í mörg ár og því lengur sem þú spilar því meiri skoðun hefur þú á því sem er að gerast í kringum þig."

,,Ég er splunkunýr í þessu en þú verður að byrja einhvers staðar. Hvort ég sé klár eða ekki verður að koma í ljós en ég treysti mér 100% í þetta og það er mikill spenningur hjá mér."


Hermann er uppalinn hjá ÍBV en hann fór út í atvinnumennsku árið 1997. Hann hefur fylgst með liðinu síðan þá.

,,Ég hef fylgst með úr fjarska. Í sumar er ég búinn að vera hérna meira og minna. Ég hef farið á þónkokkra leiki og er mjög hrifinn af þessu fótboltaliði. Þeir eru í 2. sæti og hafa staðið sig vel undanfarin ár. Það er mikill uppgangur."

ÍBV heimsækir Val í 20. umferð Pepsi-deildinni í kvöld. Hermann ætlar að fylgjast með þeim leik úr stúkunni líkt og síðustu leikjum ÍBV í sumar. Hann ætlar síðan að skoða leikmannamál ÍBV eftir tímabilið.

,,Ég geri ekki neitt á þessu tímabili og hef það bara náðugt í stúkunni. Þeir klára þetta og síðan setjumst við niður eftir mót og ræðum saman af viti," sagði Hermann sem hlakkar til að vera á heimaslóðum í Eyjum næsta sumar.

,,Það er alltaf 40 stiga hiti þar og blankalogn, það vita það allir. Þetta er mjög spennandi allt saman," sagði Hermann léttur í bragði að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner